13:25
{mosimage}
(Unglingalið Eisbaren Bremerhaven)
Úrslitakeppnin hjá Ólafi Ólafssyni og félögum í Eisbaren Bremerhaven er hafin í Þýskalandi en Ólafur leikur með unglingaliði Bremerhaven. Andstæðingar Bremerhaven í fyrstu umferð úrslitakeppninnar eru Phoenix Hagen Juniors og er staðan 1-1 í rimmunni. Liðin mætast í oddaleik sínum á heimavelli Phoenix Hagen sunnudaginn 22. mars næstkomandi.
Ólafur hefur staðið sig með prýði í unglingadeildinni í Þýskalandi í vetur með 7,4 stig að meðaltali í leik, 4,0 fráköst og 1,9 stoðsendingu.
Phoenix Hagen hafa heimaleikjaréttinn gegn Bremerhaven í 8-liða úrslitunum og lágu Ólafur og félagar í fyrsta leik 84-71 þar sem Ólafur gerði 10 stig og tók 2 fráköst. Í annarri viðureign liðanna vann Bremerhaven svo öruggan 100-82 sigur þar sem Ólafur gerði 16 stig, tók 6 fráköst, var með 2 stoðsendingar og 2 varin skot.
Oddaleikurinn fer eins og fyrr greinir fram á sunnudag og þá ræðst það hvort Ólafur og félagar í Bremerhaven séu komnir í undanúrslit eða sumarfrí.



