spot_img
HomeFréttirÓlafur heldur öllu opnu en vill spila erlendis

Ólafur heldur öllu opnu en vill spila erlendis

Ólafur Ólafsson hefur lokið tímabili sínu í NM2 deildinni í Frakklandi en þar hafnaði hann í 5.sæti með USV Ré Basket. Ólafur sagði við Karfan.is að hann héldi öllum möguleikum opnum, inni í myndinni væri að spila á Íslandi næstu leiktíð en hann væri ekki að leitast eftir því. Næstu vikuna mun Ólafur nota í afslöppun í Danmörku áður en hann heldur aftur til Ísland að undirbúa sig fyrir næstu verkefni og leiktíð.

„Ég skildi vel við liðið í Frakklandi en það gekk samt á miklu þetta tímabilið. Þetta var ekki alveg eins og ég vildi hafa það en þessi tími er búinn að vera mjög skemmtilegur og ég hef lært mikið á þessu ári sem körfuboltamaður og persóna. Þeir höfðu áhuga á því að hafa mig áfram en ég sagði að ég vildi prófa eitthvað nýtt svo ég verð ekki aftur þarna,“ sagði Ólafur en er áhugi annarsstaðar frá, t.d. í Frakklandi?

„Já það er áhugi frá Frakklandi og höfum við konan áhuga á því að vera áfram í landinu, okkur líður vel hérna en ég vil skoða hvernig þetta liggur, taka mér góðan tíma til að ákveða hvar ég verð á næsta tímabili,“ sagði Ólafur en er það inni í myndinni hjá honum að leika á Íslandi næsta tímabil?

„Já ég held öllu opnu, ég er samt ekki að leitast eftir því.“

Fréttir
- Auglýsing -