spot_img
HomeFréttirÓlafsvaka í Röstinni

Ólafsvaka í Röstinni

Færeyingar hefðu betur lagt leið sína í Röstina í kvöld því boðið var til Ólafsvöku Ólafssonar en kappinn dró Íslands- og bikarmeistara Grindavíkur í gegnum erfiðasta hjallann gegn Þór Þorlákshöfn í kvöld. Grindavík leiðir einvígið 2-1 með 87-67 sigri en lokatölurnar gefa nú ekki til kynna hve flottur leikurinn var lengst af. Ólafur lauk leik með 29 stig og 12 fráköst, alveg dúndrandi frammistaða en fimm liðsmenn Þórs gerðu 10 stig eða meira í leiknum. Lykilmenn á borð við Cook og Sovic náðu ekki að sýna sparihliðarnar og munaði um minna fyrir Þórsara.
 
 
Nokkuð brölt var á mönnum í upphafi leiks, gestirnir úr Þorlákshöfn urðu fyrri til að nálgast sitt eðlilega fas og komust í 3-7 en mistök sem maður byggist frekar við að sjá á Nettó-mótinu gerðu vart við sig í herbúðum Grindvíkinga. Ólafur Ólafsson var þó með rænu hjá gulum og minnkaði muninn í 8-10 með þrist og hafði þar með gert fimm af átta fyrstu stigum Grindvíkinga í leiknum. Gestirnir úr Þorlákshöfn höfðu frumkvæðið eftir fyrsta leikhluta, 12-16. Skotnýting liðanna svo sem lítið til að hrópa húrra yfir þessar fyrstu tíu mínútur en menn voru vel gíraðir og fólk vel með á nótunum á pöllunum.
 
Grindvíkingar voru ekkert að slóra þegar þeir opnuðu annan leikhluta, snemma hóf Air-Ólafur sig á loft og hamraði tuðrunni, fórnarlambið sem varð fyrir árásinni heitir Ragnar Nathanaelsson. Í kjölsogið af þessum einhverjum flottustu tilþrifum vetrarins kom góð Grindavíkurgusa og heimamenn splæstu í 12-5 rispu á tveimur og hálfri mínútu, gerðu s.s. jafn mörg stig á þeim tíma og þeir afrekuðu allan fyrsta leikhluta!
 
Benedikt Guðmundsson bað um leikhlé fyrir sína menn sem virtust vera komnir á hælana en leikhléið hafði tilætluð áhrif, Tómas Heiðar kom með þrist og Þór leiddi 24-26. Jafnt var á öllum tölum eftir þetta og gengu liðin til búningsherberja í hálfleik í stöðunni 36-36. Ólafur Ólafsson var með 9 stig hjá Grindavík í hálfleik en hjá Þór var Tómas Heiðar með 10 stig og 5 fráköst.
 
Síðari hálfleikur fékk svipaða byrjun og sá fyrri, smá Nettó-móts fílingur í gangi þar sem menn glutruðu frá sér boltanum á víxl. Mike Cook sem hafði lítið hitt framan af kom Þór í 38-44 með þrist. Sóknarmegin hjá Grindavík hafði Clinch verið í flottri gæslu hjá Baldri Þór svo Ólafur Ólafsson tók til sinna ráða. Ólafur fór einfaldlega á kostum, hélt Grindavík við efnið með fjórum þristum í þriðja leikhluta og sá fjóriði kom Grindavík í 55-50. Vörn Þórs mátti sín lítils og var farin að leka ansi myndarlega og jók Clinch á lekann er hann lokaði þriðja leikhluta fyrir Grindavík með flautuþrist og staðan 62-53 fyrir Grindavík fyrir fjórða og síðasta hluta.
 
Hægt og bítandi í fjórða leikhluta skildu leiðir liðanna enn frekar. Ragnar Nathanaelsson landaði sinni þriðju tvennu í röð snemma í fjórða, mögnuð frammistaða í hans fyrstu úrslitakeppni en aðrar sögur verða ekki langar af Þórsurum þennan endasprettinn. Grindvíkingar héldu spilunum þétt að sér og héldu áfram að horfa upp á Sovic og Cook fleygja hverjum múrsteininum af öðrum á loft í liði Þórsara. Ekki vantaði að Þór væri að skapa sér opin skot en þau hættu að vilja niður þegar mest var undir. Lokatölur 87-67.
 
Ólafur Ólafsson var vitaskuld lykillinn að sigri Grindavíkur í kvöld með 29 stig og 12 fráköst og þá bætti Lewis Clinch Jr. við 24 stigum, 8 fráköstum og 6 stoðsendingum þrátt fyrir að hafa haft hægt um sig í fyrri hálfleik. Ragnar Nathanaelsson lauk leik með 12 stig og 15 fráköst og þá átti Baldur Þór Ragnarsson góðar rispur í liði Þórs með 13 stig og 7 stoðsendingar og Tómas Heiðar einnig með 10 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar. Sovic og Cook þurfa að verða beittari eigi síðar en strax í næsta leik.
 
 
Byrjunarliðin:
Grindavík: Lewis Clinch Jr., Ólafur Ólafsson, Jóhann Árni Ólafsson, Ómar Örn Sævarsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Þór Þorlákshöfn: Baldur Þór Ragnarsson, Tómas Heiðar Tómasson, Mike Cook Jr., Nemanja Sovic og Ragnar Nathanaelsson.
 
Mynd/ [email protected] – Ólafur Ólafsson hafði ríka ástæðu til þess að brosa út að eyrum í kvöld.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -