spot_img

Ólafssalur 3-0

Fjölnismenn heimsóttu Ólafssal í fjórðu umferð Dominos-deildarinnar í kvöld. Haukar hafa halað inn 4 stigum til þessa en áttu ekki erindi sem erfiði gegn Íslandsmeisturunum, bara alls ekki. Grafarvogspiltar voru klaufar gegn Valsmönnum í fyrsta leik, unnu Þór Ak. vandræðalaust en fengu sömu meðferð og Haukar gegn KR. Við skulum skyggnast inn í framtíðina…

Spádómskúlan: Kúlan er umbúðalaus að þessu sinni og hendir fram 88-78 sigri heimamanna þar sem Kári Jóns gerir gæfumuninn.

Byrjunarlið: 

Haukar: Flen, Kári, Hjálmar, Robinson, E. Barja

Fjölnir: Robbi, Teddi, Egill, Jere, Srdan

Gangur leiksins

Moses hitaði upp með Fjölnismönnum bara til að hrekkja saklausa körfuboltaunnendur því hann kom ekkert við sögu í leiknum. Það var átakanlega áberandi hvað Fjölnismenn voru veikir undir körfunni og Flen leit út fyrir að vera helmingi betri en hann er. Falur tók leikhlé í stöðunni 13-4 og öll stig Hauka komu undir körfunni til þessa, mestöll frá Flen. Leikhléið bar árangur, Jere og Srdan fóru í gang og eitthvað skánaði gæslan undir körfunni hjá gestunum. Allt var jafnt eftir einn, 24-24.

Kári Jóns lét meira til sín taka í öðrum leikhluta en leikstjórnandi gestanna var tæplega síðri. Vegna fyrrnefndra yfirburða gestanna undir körfunni sigu þó heimamenn framúr og leiddu 41-33 þegar tæpar 4 mínútur voru til hálfleiks. En á þessum tímapunkti fékk Flen sína þriðju villu og settist á bekkinn en þarna hafði hann sett 20 stig í pokann góða! Þetta nýttu gestirnir sér lítið eitt og munurinn aðeins 4 stig, 48-44 í hálfleik.

Falur sagði sínum mönnum að þeir þyrftu að koma grimmir út úr hlénu en fjórir þristar í röð frá heimamönnum í upphafi seinni hálfleiks bar vott um eitthvað allt annað! Staðan allt í einu 60-46. Srdan sá til þess að Grafarvogspiltar héldu enn í vonina með tveimur flottum þristum en um miðjan leikhlutann fékk Jere sína fjórðu villu og settist á bekkinn. Lögreglumál myndi einhver kalla það!  Munurinn hékk samt í kringum þessi klassísku 10 út leikhlutann, staðan 76-64 eftir þrjá.

Lítið var skorað í upphafi fjórða leikhluta og hlutlausir áhorfendur héldu með Fjölnismönnum. En staðan var fallvölt hjá gestunum og um miðjan leikhlutann setti Gunnar stöðuna í 85-69 með fallegum þristi. Heimamenn bættu 4 snöggum stigum við það og leikurinn varð eiginlega bráðkvaddur. Það er alltaf frekar leiðinlegt en niðurstaðan varð 99-75 sigur Hauka – sem kannski gefur ekki alveg rétta mynd af leiknum.

Menn leiksins

Flen setti 28 stig og tók 12 fráköst á 26 mínútum. Það er mjög gott en Moses var vissulega ekki fyrir honum sitjandi á bekknum. Allt byrjunarlið Hauka átti í raun fínan leik í kvöld.

Hjá gestunum var Srdan langbestur með 29 stig og 9 fráköst.

Kjarninn

Undirritaður veit ekki alveg hvað honum finnst um Haukaliðið. Liðið hefur unnið þrjá leiki og tapað aðeins gegn KR – sem er svo sem bara almenn regla í íslenskum körfubolta. Sennilega á liðið allnokkuð inni – gæti verið að Haukarnir verði smátt og smátt að skrímsli sem jafnvel á einhvern séns í KR?? Við skulum ekki missa okkur í rómantíkinni í skammdeginu… en það má láta sig dreyma…

Fjölnisliðið er mjög spennandi og alveg óþolandi að Orri og Moses skyldu vera frá keppni. Undirritaður var álíka spenntur fyrir Blikum í upphafi síðasta tímabils en Falur var lítt hrifinn af þeirri samlíkingu í viðtali eftir leikinn! Eðlilega, og vonandi verða örlög liðsins allt önnur! 

Umfjöllun – Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -