Spurs vélin hélt áfram að mala eins og sultuslakur köttur að kvöldi í öðrum leik sínum gegn OKC í úrslitum vestursins. Þruman frá Oklahoma beit örlítið frá sér í fyrsta leikhluta en lagðist síðan á hnén og beið eftir náðarhögginu.
OKC sá aldrei til sólar í þessum leik. Yfirburðirnir voru slíkir að jafnvel Tiago Splitter var farinn að raða upp stoðsendingum á tímabili. Danny Green var gjörsamlega meðvitundarlaus fyrir utan þriggja stiga línuna. Negldi niður þristum hægri vinstri þar til 7 kvikindi voru komin á blað úr 10 tilraunum. Óhugnaleg nýting.
Yfirspilunin var slík að Spurs unnu frákastabaráttuna 53-38 og skotnýtingin 50% á móti 39%. Alls 27 stoðsendingar á Spurs liðið og þar var Tony Parker með aðeins 5 af þeim. Allir sem voru í hvítu og svörtu voru bara BALLIN’.
Sóknin var lýtalaus hjá Spurs en varnarleikurinn ekki síðri. Halda þessu magnaða sóknarliði í aðeins 77 stigum og Durant og Westbrook í samtals 30 stigum með samtals 13/40 nýtingu.
OKC liðið verður að hisja upp um sig brækurnar ef þeir ætla ekki að láta Spurs berja sig út úr úrslitum vestursins með sópinum. Það er stórt skarð að fylla eftir meiðsli Serge Ibaka, en þessi frammistaða er bara skammarleg. Scott Brooks þarf hreinlega að fara að velta því fyrir sér hvort hann sé starfinu vaxinn. Það verður að hræra hressilega upp í liðinu og gera róttækar breytingar fyrir næsta leik. Þetta er ekki að ganga upp svona.
Tim Duncan, Tony Parker og Manu Ginobili hafa nú unnið í sameiningu 111 leiki í úrslitakeppni og er það mest allra þremenninga í deildinni. Næstir þeim koma ekki lakari menn en Magic Johnson, Kareem Abdul-Jabbar og Michael Cooper með 110.
Spurs í fjórum ef þetta heldur svona áfram.