spot_img
HomeFréttirÓjafn grannaslagur en skemmtilegur (Umfjöllun)

Ójafn grannaslagur en skemmtilegur (Umfjöllun)

 
Það var ójafn “derbyslagurinn” í Ólafsvík þar sem Víkingur úr 2. deild tók á móti grönnum sínum bikarmeisturum Snæfells úr Stykkishólmi en skemmtunin í fyrirrúmi og langþráð að fá þennan grannaslag þar sem liðin státa af góðu gengi í sitthvorri boltaíþróttinn. Nokkuð góð mæting var á leikinn og var bílalest úr Hólminum í Ólafsvík enda ekki svona leikir á boðstólnum svona almennt en liðin mættust í gær í 32 liða úrslitum Poweradebikarsins.
Ryan Amoroso lék ekki í liði Snæfells vegna smávægilegra veikinda og fékk að vera í fríi en í liði heimamanna var Tómas Hermannsson Ólsari kominn í búning og til í allt.
 
Byrjunarliðin voru:
Víkingur: P. Andri, Þórarinn, Jens, Aðalsteinn, Tómas.
Snæfell: Nonni Mæju, Atli, Pálmi, Emil, Sean.
 
Leikurinn byrjaði með nokkrum töpuðum boltum heimamanna sem urðu alls 31 í leiknum en hey hver er að telja. Snæfell komst þó ekki í meira en 5-0 þegar fyrstu stig Víkings komu frá Aðalsteini. En Hólmarar komust í 16 stig áður en næstu stig komu frá Ólsurum. Ekki á að rekja stigaskorið sérstaklega í þessari ummfjöllun en fyrsti leikhluti endaði 31-10.
 
Í hálfleik var staðan 66-26 fyrir Snæfell og flestir búnir að skora í liðunum. Mikil skemmtun var á leiknum og var sífellt verið að kasta boltum til áhorfenda sem að spreyttu sig á vinningsskotum á milli leikhluta og í hálfleik og átti undirritaður einmitt frábært 3ja stigaskot sem því miður skoppaði af hringnum og þarf að mæta á skotæfingu hjá Inga Þór 8:05 í fyrramálið. Þjáfarar liðanna spreyttu sig líka á þriggja stiga skotum og fékk kynnir leiksins dómararna til að prufa sig og fóru þeir Einar Þór Skarphéðinsson og Jón Þór Eyþórsson létt með að smella þeim niður.
 
Af leiknum var það svo að frétta að þótt leikurinn hafi verið ójafn í flesta staði þá fór Egill hjá Snæfelli af velli eftir samstuð og Nonni Mæju gjörsamlega hamraði boltanum með sleggjutroðslu yfir Hermann Marinó bróður Magna Hafsteins í Fjölni. En svo sigraði Snæfell leikinn auðveldlega 129-45 en leikurinn var hressandi engu að síður þar sem margir strákanna kannast hver við annan og stemmingin eftir því. Skemmtileg umgjörð hjá Víkingi í Ólafsvík sem vonandi ætla að gera meira í körfunni í framtíðinni.
 
Tölfræði leikmanna:
 
Víkingur:
Jens Guðmundsson 13/3 stolnir, Hjörtur Guðmundsson og Guðlaugur Mímir 6/5 fráköst hvor, Guðlaugur Rafns og Hermann Geir 4 stig hvor, Atli Freyr, Aðalsteinn, Atli Már og Tómas Hermannsson/Hermann Marinó 2 stig hver.
 
Snæfell:
Nonni Mæju 31/9 frák, Daníel Kazmi 16/4 frák, Sveinn Arnar 14/5 frák/6 stoð, Atli Rafn 13/8 frák, Sean Burton 11/6 stoð, Kristján Pétur 9/7 frák, Gunnlaugur Smára 9/6 stoð/5 stolnir, Hlynur Hreinsson 9 stig, Egill Egils 7 stig, Guðni Sumarliða og Emil Þór 5 stig hvor.
 
Nokkrir skemmtilegir punktar úr leiknum:
 
-Allir í liðunum skoruðu nema einn úr hvoru liði þeir Ari Bent hjá Víking og Pálmi Freyr hjá Snæfelli settu ekki boltann í netið þrátt fyrir að hafa spilað. Pálmi átti þó 5 fráköst, 3 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Ari átti ein góðann stolinn bolta sem endaði örugglega með körfu Víkings.
-Hlynur Hreinsson skoraði 9 stig sín úr þristum á 11:29 spilamínútum.
-Heildarframlagsstig liðanna voru 200 Snæfells á móti 9 Víkings frá “live stat” kerfinu. Nonni Mæju var með 43 framlagsstig.
-Tveir leikmenn Snæfells skoruðu ekki þriggja stiga körfu en það voru Emil Þór með þrjár tilraunir þó og Pálmi Freyr með eina tilraun.
-Allir hjá Snæfelli tóku frákast.
-Emil Þór fékk ekki stoðsendingu eftir að hafa kastað boltanum upp í stúku milli 1. og 2. fjórðungs þar sem áhorfandinn (undirritaður) klikkaði á skotinu.
 
Umfjöllun: Símon B. Hjaltalín.
Fréttir
- Auglýsing -