spot_img
HomeFréttirÓheppnir U18 strákar töpuðu fyrsta leik á NM2015 fyrir Svíum

Óheppnir U18 strákar töpuðu fyrsta leik á NM2015 fyrir Svíum

Einu ósigruðu liðin í U18 karla mættust í dag þegar Ísland og Svíþjóð mættust hér á Norðurlandamótinu í Solna. Gríðarlega mikilvægur leikur og ljóst að sigurvegari í þessum leik væri kominn með aðra hönd á 1. sætið.

 

Íslensku strákarnir mættu tilbúnir til leiks. Töluðu saman í vörninni og létu boltann ganga í sókn. Öflugur sóknarleikur Svía braut hins vegar oft varnir Íslands niður og skoruðu ítrekað undir körfunni og þar rétt fyrir utan.

 

Ísland skipti yfir í 3-2 svæðisvörn til þess að reyna að stöðva áhlaup Svía.  Það gekk nokkuð vel og náðu Íslendingar 2 stiga forystu rétt áður en 1. hluta lauk, 17-15.

 

Svíar hins vegar gáfu all hressilega í 2. hluta og nýttu sér kæruleysi í sóknarleik Íslendingar til að komast oft og

iðulega í hraðaupphlaup. 2. hluta sigruðu Svíar 11-21 og náðu góðri 28-36 forystu áður en flautað var til hálfleiks.

 

Ísland spilaði frábæra vörn í seinni hálfleik en Svíar töpuðu 20 boltum í leiknum. Sóknarleikurinn var agaður og góður en skotin vildu sjaldnast rata ofan í. Jafnræði var með liðunum allan seinni hálfleik en óheppni réði því að U18 strákarnir töpuðu sínum fyrsta leik á Norðurlandamótinu þetta árið, 56-59.

 

Kári Jónsson var stigahæstur íslenska liðsins með 24 stig en hann meiddist á hné snemma í seinni hálfleik. Kári er hins vegar grjótharður nagli og dreif sig inn á aftur og kláraði leikinn. Á eftir honum kom Halldór Garðar með 13.

 

Tölfræði leiks

 

Myndasafn: Hörður Tulinius

Fréttir
- Auglýsing -