01:42
{mosimage}
ÍR mætti á Krókinn í kvöld til leiks við heimamenn í Tindastóli. Búist við hörkuleik enda liðin á svipuðum stað í deildinni. ÍR með 10 stig fyrir leikinn og Stólarnir með 8. ÍR er með nokkuð vel mannað lið, en heimamenn með tvö menn í meiðslum, þá Helga Rafn og Halldór og hópurinn ekki of öflugur. Byrjunarlið Tindastóls; Donald, Samir, Philip, Svavar og Ísak. Fyrir ÍR byrjuðu; Nate, Ómar, Ólafur Sig, Sveinbjörn og Tahirou.
Fyrsti leikhluti byrjaði fjörlega og var varnarleikurinn greinilega ekki aðalsmerki liðanna. Stólarnir voru alltaf aðeins á undan, en aldrei munaði miklu, 2-5 stigum allan leikhlutann nema í lokin þegar Hreggviður jafnaði leikinn með þrist 26-26. Samir fékk tækifæri til að láta Stólana vera yfir fyrir 2. fjórðung, en klikkaði á tveimur vítum og staðan eins og áður segir jöfn.
{mosimage}
Liðin héldust í hendur fyrstu mínútur annars leikhluta, allt að stöðunni 34-34. Sveinbjörn setti þá fimm stig í röð fyrir ÍR og staðan 34-37. Serge skoraði þá þriggja stiga körfu fyrir Stólana, en Sani svaraði með tvist fyrir ÍR. Þá tóku heimamenn góðan sprett, skoruðu 10 stig í röð og voru Ísak og Samir með sinn hvorn þristinn í þessu áhlaupi. Stólarnir búnir að snúa leiknum sér í hag aftur og allt í lukkunar velstandi. Steinar skoraði þá úr þriggja stiga skoti og staðan 47-44. Í stöðunni 50-46 var brotið á Svavari í þriggja stiga skottilraun og fékk hann þrjú víti sem hann nýtt tvö af og fáar sekúndur til hálfleiks. Jón Arnar tók leikhlé fyrir síðustu sókn ÍR. Þeir settu upp leikkerfi sem gekk algjörlega upp og Steinar fékk frítt skot úr horninu sem hann nýtti og Stólarnir gerðu ekkert þær tvær sekúndur sem eftir voru og staðan í hálfleik 52-48.
{mosimage}
Fyrri hálfleikur var lengst um hraður og áttu dómarnir í mestu erfiðleikum með að hafa vald á honum og voru báðir þjálfarar nokkuð ósáttir með dómgæsluna í fyrri hálfleik. ÍR var ekki að hitta vel í fyrri hálfleik, en héldu sér á floti með sóknarfráköstum, þeir tóku 11 í hálfleiknum og þar af 8 í 2. leikhluta. Donald var kominn með 15 stig í hálfleik og Philip 13 fyrir Tindastól. Hjá ÍR var Sveinbjörn með 13 og Nate 9. Tveir voru komnir með 3 villur hvor; Ísak hjá Stólunum og Sani hjá ÍR.
{mosimage}
Þrátt fyrir að Svavar skoraði fyrir körfu síðari hálfleiks fyrir Tindastól, komst ÍR fljótlega yfir 54-55. Fjögur víti frá Donald komu Stólunum aftur yfir, en Steinar jafnar með þristi fyrir ÍR og var annar þristurinn í röð frá honum. Eftir þetta bjuggu Stólarnir til smátt og smátt smá forskot og komust mest 9 stigum yfir 70-61. Sani skoraði úr öðru víti sínu fyrir ÍR og Steinar kláraði fjórðunginn með þrist, hans þriðji í leikhlutanum og skoraði hann 11 af 17 stigum ÍR í þriðja leikhluta. Staðan fyrir síðast fjórðung 70-65. Þegar hér var komið voru menn komnir í eða farnir að nálgast villu vandræði. Ísak kominn með sína fjórðu villu og eins var ástatt fyrir ÍRingunum Sani og Steinari.
Sani opnaði síðast leikhlutann með þristi, en heimamenn létu það ekki trufla sig. Tvistur frá Donald og sinn hvorn þristurinn frá Philip og Svabba komu muninum í tveggja stafa tölu í fyrsta sinn í leiknum. Sani skoraði fjögur stig í röð fyrir ÍR, en aftur kom syrpa frá Stólunum, nú 7 stig í röð og munurinn 13 stig og útlitið orðið gott hjá Tindastóli. Staðan 85-72 og rúmar fimm mínútur eftir af leiknum. ÍR gafst ekki upp og svöruðu með næstu sex stigum og hrollur fór um heimamenn sem minntust síðasta heimaleiks sem rann þeim úr greipum á síðustu mínútunum.
{mosimage}
Stólarnir voru þó ekki á því að láta það endurtaka sig og héldu þokkalegu forskoti fram að síðustu mínútunni. ÍRingar misstu á þessum kafla þrjá leikmenn af velli með fimm villur, fyrst Sani, en síðan fylgdu Steinar og Sveinbjörn honum á bekkinn og útlitið ekkert alltof gott fyrir þá og staðan 96-88. Elvar Guðmundsson sem hafði komið stuttu áður inn á fyrir ÍR setur þá þrist og kjölfarið fylgdi annar þristur frá Ólafi og allt í einu orðin mikil spenna á síðustu mínútunni. Staðan 96-94 og stutt eftir af leiknum og spennan í hámarki. Kiddi tók þá leikhlé og Stólarnir fengu boltann inn á miðju, komu honum á Serge sem náði að vinna nokkrar sekúndur áður en ÍRingar gátu brotið á honum. Hann fór á línuna öryggið uppmálað og setti bæði skotin niður, munurinn orðinn fjögur stig, lítið eftir og erfitt fyrir ÍR að ná að gera eitthvað á þeim sekúndum sem eftir voru. Þeir tóku leikhlé, réðu ráðum sínum og fóru svo í síðustu sókn sína. Eftir innkast fékk Hreggviður boltann, náði að drippla að þriggja stiga línunni og skaut, en skotið ekki gott og Tindastóll náði frákastinu og tíminn rann svo út og góður heimasigur staðreynd, 98-94.
{mosimage}
Stólarnir náðu að klára þennan leik af fullum krafti, nokkuð sem hefur vantað í nokkra aðra leiki. Þó léku þeir aðeins á 6 mönnum allan leikinn og Philip til að mynda lék allar 40 mínúturnar. ÍR gat dreift mínútunum aðeins betur, en lentu í villuvandræðum í fjórða fjórðungi og misstu stigahæstu menn sína af velli þá og varð það þeirra banabiti þrátt fyrir góða tilraun í lokin.
Hjá Tindastóli báru Donald og Philip af, Donald öruggur á vítalínunni og nýtti sín skot betur en oft áður og Philip sterkur í teignum. Serge var sterkur varnarlega og Svavar, Samir og Ísak áttu allir ágætis leik.
Hjá ÍR voru Steinar og Sveinbjörn bestu menn, Sani skoraði 18 stig, en náði sér ekki alveg á strik. Nate var einnig góður, með 15 stig og 10 stoðsendingar. Eftir leikinn eru liðin bæði með 10 stig ásamt Stjörnunni, en Snæfell sem tapaði í kvöld fyrir Keflavík er næst fyrir ofan með 12 stig í sjötta sæti.
{mosimage}
Stigaskor Tindastóls: Philip 28, Donald 27, Svavar 15, Serge 13, Samir 9 og Ísak 6.
Stig ÍR: Steinar 19, Sani 18, Sveinbjörn 17, Brown 15, Hreggviður 10 Ólafur 8, Elvar 3 og Ómar og Þorsteinn 2 stig hvor. Þess má geta að ÍR tók heil 17 sóknarfráköst í leiknum á móti 4 hjá Stólunum.
Tölur úr leiknum: 7-4, 11-10, 22-18, 26-26, – 32-32, 43-41, 49-44, 52-48, – 54-55, 58-58, 66-60, 70-65, – 78-68, 85-72, 87-80, 94-85, 98-94.
Dómarar leiksins voru þeir Davíð K Hreiðarsson og Halldór G Jensson. Þrátt fyrir að þeir hafi kannski ekki átt sinn besta dag þá hallaði ekki alvarlega á annað liðið og það er það sem skiptir máli.
{mosimage}
Texti: Jóhann Sigmarsson
Myndir: Sveinn Brynjar Pálmason



