spot_img
HomeFréttirÖflug frammistaða Vals í seinni landaði oddaleik

Öflug frammistaða Vals í seinni landaði oddaleik

Valsmenn tryggðu sér í kvöld oddaleik gegn FSu um hvort liðið mætir Hamri í úrslitum 1. deildar um laust sæti í Domino´s deildinni á næstu leiktíð. Valsmenn hertu róðurinn í síðari hálfleik í kvöld með öflugri frammistöðu og lönduðu 92-78 sigri og jöfnuðu einvígið 1-1. Oddaleikur liðanna fer fram í Iðu næsta þriðjudag. Hannes Birgir Hjálmarsson var í Vodafonehöllinni í kvöld og fylgdist grannt með gangi mála. 
 
1. leikhluti
Fyrstu stig beggja liða koma af vítalínunni en síðan skiptast liðin á körfum og staðan 6-5 fyrir Val þegar þrjár mínútur eru liðnar af leiknum en eykst í 12-5 og FSu komnir með 4 villur og Valur fær því skotrétt næstu villur þegar 6 mínútur eru eftir af leikhlutanum. Brotið er á Ara Gylfasyni í þriggja stiga skoti sem hann setur ofaní auk vítisins og munurinn 3 stig 12-9 þegar fjórðungurinn er hálfnaður. FSu kemst yfir þegar Ari setur annan þrist en Kormákur Arthúrsson jafnar, Ari setur þrist aftur og munurinn 3 stig 14-17 þegar þrjár mínútur eru eftir af fyrsta leikhluta. CollinPryor kemur FSu í 16-20 þegar tvær minútur eru eftir. Erlendur Stefánsson skorar eftir sóknarfrákast og Benedikt Blöndal setur tvö víti en Hlynur Hreinsson setur þrist og eykur muninn í 7 stig 18-25 FSu í vil. Bæði lið eru að reyna að keyra á körfuna en Valsliðið er að gera fleiri mistök í leiknum og eru að tapa fleiri boltum, ef þeir laga það ekki þá verður sigur FSu auðveldur.
 
2. leikhluti
Leifur Steinn Árnason skorar fyrstu stigin í öðrum leikhluta en bæði lið tapa boltanum í fyrstu sóknunum og eftir eina mishepnaða sendingu Valsmanna setur Ari þrist sem Leifur Steinn svarar jafnharðan staðan 23-28 og tvær mínútur liðnar. Bæði lið reyna að keyra mikið á varnir andsæðinganna og eftir gegnumbrot og laglega stoðsendingu skorar Illugi Auðunsson og í næstu sókn fiskar hann villu á Pryor og hittir úr öðru vítinu og minnkar muninn í 2 stig 26-28 og 6:30 eftir af fyrri hálfleik. Enn halda mistök beggja liða áfram og Pryor fær þriðju villuna sína þegar dæmtd er sóknarvilla á hann þegar sex mínútur eru eftir, hann er tekinn út af strax. Þá setur Ari Gylfa enn einn þristinn og setur sniðskot stuttu síðar og FSU aftur með 7 stiga forskot 26-33 þegar 4 mínútur eru eftir af hálfleiknum. Erlendur skorar fyrir FSu og Garth svarar fyrir Val en enginn ræður við Ara Gylfa sem skorar og skorar að vild! Benedikt skorar þrist fyrir Val og minnkar muninn í 31-37 þegar 3 mínútur eru eftir. Liðin skiptast á að skora og FSu leiðir enn með 7 stigum 38-45 eftir að Bennsi setur þrist þegar 1:30 eru eftir, Garth skorar lokakörfu fyrri hálfleiks og staðan 40-45 í hálfleik fyrir FSu.
 
Ari Gylfason fór mikinn í fyrri hálfleik fyrir FSU með 20 stig, Benedikt Blöndal með flotta nýtingu og 13 stig fyrir Val. Nathan Garth vaknaði aðeins til lífsins á lokamínútum hálfleiksins og og var með 11 stig. Annars voru tapaðir boltar stóra málið í fyrri hálfleik, Valsmenn með 11 tapaða og FSu 7 tapaða bolta sem er eiginlega munurinn á liðinum sem eru með áþekka skotnýtingu og fjölda frákasta.
 
3. leikhluti
Valsmenn skora fyrstu körfur seinni hálfleiks og minnka muninn í 1 stig 44-45 eftir 30 sekúndur en Ari setur tvö víti, Garth minnkar muninn aftur í 1 stig og Bjarni Geir Gunnarsson skorar eftir gegnumbrot og kemur Val yfir 48-47 en Ari skorar enn og aftur og fær víti að auki þegar 3 mínútur eru liðnar og staðan 48-49 fyrir FSu. Garth og Leifur Steinn skora og Ari Gylfa setur enn einn þristinn, staðan orðin 52-52 og sex mínútur eftir. Leifur Steinn setur þrist og síðan ná liðin eki að skora þangað til Pryor setur þrist og jafnar 55-55 þegar fjórar eru eftir og síðan setur hann stutt stökkskot en Leifur Steinn setur annan þrist og Valur leiðir 58-57. Pryor skorar aftur eftir stoðsendingu frá Hlyni og síðan fær Kristján Leifur Sverrison vítaskot þegar 2 mínútur eru eftir af sjórðungnum og setur bæði og kemur Val yfir 60-59, Birkir Víðisson fékk sína fjórðu villu við brotið á Kristjáni og fer á bekkinn.Bæði lið bæta við körfum og Hlynur þristi fyrir FSu, Sigurður Rúnar Sigurðsson setur víti og munurinn 1 stig 63-64 og þegar 2,5 sekúndur eru eftir setur Garth 2 víti og kemur Val yfir 65-64, flautusskot FSu fer ekki í og Valsmenn vinna þriðja leikhluta 25-19, mikill viðsnúningur hjá Val í töpuðum boltum en liðið tapaði eingöngu 2 boltum í þriðja leikhluta á móti 6 töpuðum boltum FSu. Það stefnir í spennandi lokafjórðung ef áfram heldur sem horfir.
 
4. leikhluti
Ari Gylfa byrjar lokafjórðunginn á að klikka á þristi, ná frákastinu og skora og fá vítaskot að auki, Illugi skorar fyrir Val og jafnar jafnharðan 67-67. Spennustigið er hátt hjá leikmönnum beggja liða en greinilegt er að Pryor er að passa sig að fá ekki fjórðu villuna sína þegar Bennsi setur sniðskot og kemur Val yfir, Kommi setur sniðskot eftir gegnumbrot og Illugi setur líka sniðskot og staðan orðin 73-67 fyrir Val þegar 2:30 mínútur eru liðnar og vörn FSu virðist vera að gefa aðeins eftir. Pryor og Garth skiptast á körfum og Erlendur fær sina 5 villu Kristján Leifur setur körfu eftir sóknarfrákast, FSu tapar boltanum og Garth keyrir upp völlinn, skorar og fær víti að auki sem hann setur ofaní FSu tapar boltanum aftur og Pryor smellir þristi úr horninu og skyndilega er Valur komið með 14 stiga forskot 83-69 og 5 mínútur eftir! Illugi setur tvö skotréttarvíti og eykur enn á forskot Vals. Enn tapa leikmenn FSu boltanum og Bjarni Geir setur enn eitt sniðskotið fyrir Val, FSu virðist fyrirmunað að skora og staðan 87-69 þegar 3 mínútur eru eftir og Hlynur skorar loks fyrir FSu sem hefur eingöngu skorað 7 stig á 7 mínútum í leikhlutanum. Ari setur annað af tveimur vítum og staðan 87-72 og 2 mínútur eftir af leiknum. Hlynur setur þrist og minnkar muninn í 12 stig en Sigurður Rúnar skorar fyrir Val, Kommi setur þrist og Geir Elías setur einnig þrist hinum megin og lokatölur leiksins 92-78 fyrir Val sem halda enn í vonina um sæti í Dominosdeild að ári.
 
Nathan Garth for mikinn í síðari hálfleik og er stigahæstur Valsmanna með 25 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar, illugi Auðunsson var að nálgast þrefalda tvennu og skoraði 13 stig, 17 fráköst (!) og 6 stoðsendingarBenedikt Blöndal átti góðan leik með 15 stig og 4 stoðsendingar og Leifur Steinn Árnason átti frábæran seinni hálfleik og endaði með 15 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar.
 
Hjá FSu var Ari Gylfason allt í öllu og skoraði alls 31 stig og tók 5 fráköst, Collin Pryor var með tvöfalda tvennu 17 stig og 15 fráköst og Hlynur Hreinsson 13 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar.
 
Sanngjarn sigur Vals hér að Hlíðarenda en Valsliðið vinnur síðari hálfleik 52-33!
 
Umfjöllun/ Hannes Birgir Hjálmarsson / Vodafone-Höllin að Hlíðarenda
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -