spot_img
HomeFréttirOddur og Vilhjálmur Theodór yfirgefa Njarðvík

Oddur og Vilhjálmur Theodór yfirgefa Njarðvík

Ljóst er að breytingar eru framundan í leikmannahóp meistaraflokks karla hjá Njarðvík en tveir leikmenn frá síðustu leiktíð munu ekki snúa aftur í Ljónagryfjuna. Þetta eru þeir Vilhjálmur Theodór Jónsson og Oddur Rúnar Kristjánsson en þeir staðfestu það báðir í samtali við Karfan.is í dag. 

 

Oddur Rúnar kom til liðs við Njarðvík um áramótin 2016. Hann spilaði tvö og hálft tímabil með Njarðvík en missti þó nokkuð af tímabilinu 2016-2017 vegna meiðsla. Hann hefur leikið Breiðablik, KR, Stjörnunni, Grindvík en kom frá ÍR til Njarðvíkur. Oddur var með 9,3 stig og 3,3 stoðsendingar að meðaltali á rúmum 24 mínútum á síðustu leiktíð. Í samtali við Karfan.is sagði hann ljóst að hann yrði á höfuðborgarsvæðinu á komandi tímabili. 

 

Vilhjálmur Theodór kom einnig til Njarðvíkur frá ÍR en um áramótin 2017. Hann er uppalinn hjá ÍR en hefur einnig leikið með Ármann. Vilhjálmur Theodór var með 3,7 stig og 3,7 fráköst á 14 mínútum með Njarðvík á síðasta tímabili. Þeir félagar féllu úr leik í átta liða úrslitum með Njarðvík gegn KR sem varð síðar Íslandsmeistari. 

 

Njarðvík lét Ragnar Nathanaelsson einnig fara fyrir nokkrum misserum en hann gekk til liðs við Val. Liðið hefur þó endurheimt Ólaf Helga Jónsson heim frá Þór Þorlákshöfn en auk þess er Einar Árni Jóhannsson teknn við liðinu á nýjan leik en Daníel Guðni Guðmundsson hefur stýrt liðinu síðustu tímabil. 

Fréttir
- Auglýsing -