spot_img
HomeFréttirOddaleikur í Vesturbænum: Hverjir mæta Keflavík?

Oddaleikur í Vesturbænum: Hverjir mæta Keflavík?

11:15
{mosimage}

 

(Mikið mun mæða á Hildi Sigurðardóttur í kvöld) 

 

Allt tímabilið er að veði hjá KR og Grindavík í úrslitakeppni Iceland Express deildar kvenna í kvöld. Liðin mætast í sínum fimmta leik úrslitakeppninnar þar sem staðan er 2-2 í einvíginu. Það lið sem tapar í kvöld er komið í sumarfrí en það lið sem hefur sigur mætir Keflavík í einvígi um Íslandsmeistaratitilinn. Leikurinn hefst kl. 19:15 í DHL-Höllinni í Vesturbænum og verður í beinni hjá KKÍ í ,,live” tölfræðihluta undir liðnum ,,leikir í beinni” á heimasíðu KKÍ.

 

Svona fóru fyrstu fjórir leikir liðanna:

 

Leikur #1: KR – Grindavík 81:68
Leikur #2: Grindavík – KR 65:82
Leikur #3: KR – Grindavík 66:78
Leikur #4: Grindavík – KR 91:83 

Margir höfðu afskrifað bikarmeistara Grindavíkur eftir að liðið lenti 2-0 undir gegn nýliðum KR en bikarmeistararnir sýndu hvað í sér býr og jöfnuðu metin í 2-2. KR hefur jafnan haft betur í frákastabaráttunni í einvíginu en hjá Grindavík hefur það skipt sköpum að Joanna Skiba hefur leikið vel síðustu tvo leiki og stjórnað leik Grindavíkur af röggsemi. 

Hildur Sigurðardóttir er að eiga sína bestu leiki þessa dagana og er nánast óstöðvandi en sóknarleikur KR byggist aðallega í kringum hana og Candace Futrell. Þá hefur Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir staðið sig frábærlega í vörninni og Sigrún Ámundadóttir hefur fleytt KR langt. 

Ólöf Helga Pálsdóttir steig vel upp hjá Grindavík í fjórða leiknum og setti niður þrjú af fjórum þriggja stiga skotum sínum í leiknum á meðan þær Jovana og Petrúnella voru í bullandi villuvandræðum.  

Það verður því fróðlegt að sjá hvað verður í kvöld en leiknum verður gerð góð skil hér á Karfan.is og þá verður hægt að fylgjast með beinni tölfræðilýsingu hjá KKÍ og beinni netútsendingu hjá www.kr.is/karfa  

Sjá viðtöl við fyrirliða liðanna á vísir.is í dag

Sjá ítarlega tölfræðisamantekt úr leikjum liðanna á heimasíðu KR 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -