KR og Njarðvík eigast nú við í oddaleik um laust sæti í úrslitum Domino´s-deildar karla. Staðan í einvíginu er 2-2 og það lið sem vinnur í kvöld mætir Haukum í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Leikurinn hefst stundvíslega kl. 19:15 og greint er frá leiknum hér að neðan í beinni í máli og myndum:
Michael Craion var með 20 stig hjá KR, Brynjar Þór 16, Darri 13 og Helgi Magg 12. Hjá Njarðvík var Atkinson með 22 stig, Haukur Helgi 13 stig og Ólafur Helgi 10 stig.
4. leikhluti
– Leik lokið: KR 92-64 Njarðvík. KR flaug inn í úrslit með öruggum sigri en heimamenn settu niður 16 þrista í 30 tilraunum í kvöld og skutu gesti sína í kaf!
– 40 sek eftir, staðan 92-64.
– 2.54mín eftir, Helgi Magg fær heiðursskiptingu og Finnur Freyr tekur á móti honum með eftirfarandi orð á vörum: „Okkar hús“
– Munurinn aftur kominn í 30 stig, 86-56, Þórir Guðmundur fór laglega með Njarðvíkurvörnina og gerði sín fimmtu stig í leiknum.
– 82-54 Brynjar Þór með KR-þrist og fyrirliðinn kominn í 16 stig í kvöld með 4-9 í þristum.
– 78-54 fyrir KR, 6.18mín til leiksloka og dottin svona þumbaralega móða á leikinn, það vita allir í hvað stefnir því Njarðvíkingar hafa enn ekkert sýnt sem gæti gagnast þeim hér í kvöld. KR heldur á öllum spilunum.
– Fjórði leikhluti hafinn, staðan 78-50 fyrir KR og 8 mínútur til leiksloka.
3. leikhluti (76-45)
– KR vann þriðja leikhluta 29-12 og eru búnir að skora 14 þrista í 24 tilraunum í leiknum.
– Þriðja leikhluta er lokið, staðan 76-45 fyrir KR! Þvílík og önnur eins pökkun. Stuðningsmenn Njarðvíkur eru samt ekki hættir að hvetja sína menn og fá stórt prik fyrir það.
– 69-39 Helgi Magg kemur þessu í 30 stig með þrist! 72-39 og Björn Kristjáns með annan þrist…þetta er algert rótburst orðið og alveg kýrskýrt að það verða KR og Haukar sem leika til úrslita í ár. Njarðvík á ekki fræðilegan séns á endurkomu hérna, það er bara þannig.
– Eftir fjórða leikinn í Njarðvík talaði Friðrik Ingi Rúnarsson að bæði lið væru fær um stór áhlaup og þegar þau dyndu yfir yrðu menn að vera sterkir í hausnum. Staðan er 66-39 fyrir KR og styttist í að meistararnir rjúfi 30 stiga múrinn með þessu áframhaldi. Njarðvíkingar virðast ekki eiga nein svör né erindi í heimamenn eins og sakir standa, þvílíkur völlur á röndóttum.
– 61-39 Brynjar Þór með sóknarfrákast og skorar, KR er að svína alla um spennandi oddaleik með hrikalega sterkri frammistöðu. Njarðvíkingar hafa korter til þess að rétta úr kútnum en hafa aðeins gert 39 stig á 25 mínútum!
– 59-39 Brynjar Þór með þrist! Það er ekkert lát á stórskotahríð Íslands- og bikarmeistaranna. Þvílíkur funi í gangi hérna. Njarðvíkingar láta sundurspila sig og röndóttir finna góð skot í öllum regnbogans litum. KR búið að gera 30 af 59 stigum sínum úr þristum!
– 54-39 og 6.46mín eftir af þriðja leikhluta. Darri Hilmarsson að fá sína fyrstu villu í liði KR-inga.
– 47-35 Atkinson opnar síðari hálfleik með sóknarfrákasti fyrir Njarðvíkinga og skorar en Brynjar Þór fer yfir og setur þrist fyrir KR! Það sýður á röndóttum sem eru komnir með níu þrista, staðan 50-35.
– Þá er þriðji leikhluti hafinn og það eru Njarðvíkingar sem byrja með boltann, staðan 47-33 fyrir KR sem voru sjóðheitir í þristunum í fyrri hálfleik.
2. leikhluti (47-33)
– Stigahæstu menn í hálfleik:
Craion – 13 – KR
Atkinson – 13 – Njarðvík
– Skotnýting liðanna í hálfleik
KR: Tveggja 58% – þriggja 57% (8-14) – víti 75%
Njarðvík: Tveggja 35% – þriggja 36% – víti 66%
– Fyrri hálfleik lokið! Staðan 47-33 fyrir KR sem voru miklu betri aðilinn í öðrum leikhluta og unnu þessar 10 mínútur 25-16. Þriggjastiga skotnýting KR hefur verið að gera gestunum lífið leitt, 8-14. Meistararnir hafa gert vel í að búa til skotin og skortur Njarðvíkinga á að iðka betri færslur í vörninni er að koma í bakið á þeim, röndóttir eru heitir!
– 47-31 og Pavel með annan þrist!! Röndóttir eru sjóðheitir fyrir utan.
– 44-30 Pavel með þrist fyrir KR þegar rúmar tvær mínútur eru til hálfleiks, enn eru Njarðvíkingar að láta KR opna sig og fá góð skot og heimamenn eru að nýta það til hins ítrasta með 7-11 í þristum sem er frábær nýting.
– 41-27 Helgi Magg núna með KR þrist og Njarðvíkingar týndir í varnarleik sínum en Ólafur Helgi splæstir í Njarðvíkurþrist strax í næstu sókn og minnkar muninn í 41-30.
– 38-24 Darri Hilmars með þrist og heimamenn mikið betri í öðrum leikhluta, grænir gestirnir í mesta basli með að skora. Virkilega þéttofin vörn meistaranna.
– 33-22 og Craion að leika sér að Hirti Hrafni varnarmanni Njarðvíkinga þessa stundina, það er ekkert launungarmál að Haukur Helgi á best með allra Njarðvíkinga að verjast Craion.
– 30-20, Snorri Hrafnkelsson að setja tvö víti fyrir KR og fer svo beint á bekkinn. Flott rispa hjá Snorra sem setti sex stig á örskömmum tíma.
– Jakob Örn Sigurðarson fylgist vel með leiknum frá Svíþjóð
Geggjuð stemmning í DHL! Næstum því eins og KR-Grind leikur 5 2009. #alltbetrabackintheday #oldmantalk
— Jakob Sigurðarson (@jakobsig) April 15, 2016
– 24-20 Ólafur Helgi með Njarðvikurþrist, hans fyrstu stig í leiknum en Snorri Hrafnkelsson svarar strax fyrir KR og breytir stöðunni í 26-20.
– Annar leikhluti er hafinn.
1. leikhluti (22-17)
– Fyrsta leikhluta lokið: Staðan 22-17 fyrir KR.
Craion með 6 stig í liði KR eftir fyrsta leikhluta, Haukur og Atkinson sömuleiðis í liði Njarðvíkinga. Aðeins eitt víti tekið á fyrstu 10 mínútum leiksins og fjórar villur. Það er hraði í þessu!
– 22-17 Brynjar Þór Björnsson með þrist fyrir KR þegar 1.13mín er eftir af fyrsta leikhluta og Njarðvíkingar taka leikhlé. Fjörug byrjun í DHL-höllinni.
– 17-17 Björn Kristjáns kemur af bekknum og er fljótur að tengja sig við leikinn og smellir niður góðum KR þrist.
– 14-15 Baginski með stökkskot í teignum fyrir Njarðvík. Darri Hilmarsson er kominn með 5 stig í liði KR en hjá Njarðvík er Haukur Helgi með 6 stig. Njarðvíkingar hafa tekið sex sóknarfráköst á fyrstu 7 mínútum leiksins!
– 12-13 hér fljúga þristar á báða bóga, þrjár og hálf eftir af fyrsta leikhluta.
– 6-9 Haukur Helgi með Njarðvíkurþrist og Brynjar Þór brýtur á honum! Haukur setur vítið og kemur Njarðvík í 6-10, fjögurra stiga sókn gestanna!
– 0-4 Atkinson skorar eftir að Njarðvíkingar taka 3 sóknarfráköst í röð en Craion fer yfir og gerir fyrstu stig KR í leiknum og staðan 2-4.
– 0-2 Atkinson opnar leikinn með sveifluskoti yfir Craion og strax í næstu sókn er dæmd sóknarvilla á Craion.
– Þá er leikurinn hafinn og það eru gestirnir úr Njarðvík sem vinna uppkastið.
Fyrir leik:
– Byrjunarlið Njarðvíkinga: Oddur Rúnar Kristjánsson, Logi Gunnarsson, Maciek Baginski, Jeremy Atkinson og Haukur Helgi Pálsson.
– Byrjunarlið KR: Pavel Ermolinski, Brynjar Þór Björnsson, Darri Hilmarsson, Helgi Magnússon og Michael Craion.
– Jæja…þið sem eruð heima, úff! Æðisgengileg stemmningin hér í vesturbænum, frábær mæting og stuðningsmenn beggja liða vel með á nótunum.
– Nú eru 7 mínútur í leik og DHL-höllin þéttpökkuð. Annað árið í röð erum við að fá algerlega dýrslega seríu hjá KR og Njarðvík. Við erum að tala um að nú eru þeir orðnir níu leikirnir hjá liðunum í undanúrslitum á tveimur árum og viðureignirnar hafa boðið upp á svaðaleg tilþrif, epík, dramatík og allan pakkann. Hleðslan undir þennan oddaleik í kvöld er styrk og því skjótum við því föstu að um eftirminnilegan slag verði að ræða.
– Okkur var að berast ein af öflugasta stuðningsmanni Njarðvíkur til viðbótar en grafískir hönnuðir landsins hafa farið með hann Valla á flug:
– Þá sendum við eintóma ást út á Martin Hermannsson sem er að upplifa eftirfarandi:
OZ app þú getur ekki verið að klikka núna…
— Martin Hermannsson (@hermannsson15) April 15, 2016
– Nokkuð er um liðið síðan Njarvðíkingar unnu sigur í DHL-höllinni en sá síðasti kom árið 2006! Þá vann Njarðvík leikinn 85-90 og hélt svo áfram og varð Íslandsmeistari en áratugur er s.s. síðan Njarðvíkingar urðu meistarar síðast.
– Besta liðsskipan Njarðvíkur eftir + og – tölfræði
– Besta liðsskipan KR eftir + og – tölfræði
– Fréttaritari Karfan.is ræddi við sjúkraþjálfara þeirra KR-inga sem upplýsti að KR ætlaði að sjá hvernig Pavel myndi „höndla“ leikinn eins og hann komst að orði svo það er ljóst að Pavel mun mæta út á parketið á eftir!
– Pavel Ermolinski er mættur í búning og er að hita upp. Fróðlegt verður að sjá hver niðurstaðan verður, mun hann spila? Pavel lék ekkert í fjórðu viðureign liðanna þegar hann fékk tak í annan kálfann.
– Dómarar leiksins eru þeir Kristinn Óskarsson, Leifur Garðarsson og Rögnvaldur Hreiðarsson.
– Nú eru 34 mínútur til leiks og við það að verða fullt í DHL-Höllinni. Páll Sævar skífuþeytir þeirra KR-inga og rödd Íslands á EM í knattspyrnu í sumar sér um tónlistina og sem fyrr stendur kallinn sig með mikilli bravör.