spot_img
HomeFréttirOddaleikur á fimmtudag: Bein textalýsing

Oddaleikur á fimmtudag: Bein textalýsing

Hér að neðan fer bein textalýsing úr fjórðu undanúrslitaviðureign Njarðvíkur og Grindavíkur í Domino´s deild karla. Staðan í einvíginu er 2-1 fyrir Grindavík og dugir Grindvíkingum sigur í kvöld til að komast í úrslit. Vinni Njarðvíkingar verður oddaleikur í Röstinni á fimmtudag.  

 
4. leikhluti
 
– LEIK LOKIÐ – Lokatölur í Ljónagryfjunni 77-68 – það verður oddaleikur á fimmtudag gott fólk – sá fyrsti þetta árið í úrslitakeppninni!
 
– 73-68 og 20 sekúndur eftir…Grindvíkingar afreka að fá dæmt á sig tæknivíti…Logi breytir stöðunni í 75-68.
 
– 73-66 – Logi setti bæði vítin – þetta fer í oddaleik.
 
– 25 sek eftir og dæmt skref á Grindvíkinga….gestirnir brjóta svo strax á Loga með 22 sekúndur á klukkunni og Logi heldur á vítalínuna.
 
– 34 sek eftir og Njarðvíkurskot geigar en boltinn berst út af og er dæmdur Njarðvíkingum í vil…heimamenn komnir ansi langt með að tryggja sér oddaleik!
 
– 71-66 Logi setti öll vítin, Njarðvíkingar leiða með fimm. 
 
– 1.37 eftir og Siggi Þorsteins brýtur á Loga í þriggja stiga skoti, staðan 68-66. Logi getur aukið muninn í fimm stig setji hann öll vítin.
 
– 68-64 Tracy húkkar hann í spjaldið og ofaní en 68-66 Clinch svarar á hinum endanum og Grindvíkingar vilja í þokkabót sjá Elvar Má tekinn á beinið fyrir flopp en úr því varð ekki.
 
– 64-62 Óli Óla með „rainmaker“ fyrir Grindvíkinga, rándýr þristur og 4.00mín eftir af leiknum. Grindvíkingar ekkert á þeim buxunum að hleypa Njarðvíkingum of langt frá sér. 
 
– 64-57 Maciej Baginski með stökkskot sem ratar niður um leið og skotklukkan gellur…smá heppnisstimpill á þessari en Njarðvíkingar komnir með 7 stiga forystu þegar 5.03 eru eftir og Grindvíkingar taka leikhlé.
 
– 62-57 Elvar með Njarðvíkurþrist.
 
– 59-57 og 6.28mín eftir af leiknum þegar Njarðvíkingar taka leikhlé. Tracy er kominn með 23 stig í Njarðvíkurliðinu og Elvar Már 16. Hjá Grindavík er Sigurður Gunnar með 13 stig og Lewis 11.
 
– 55-55 aftur jafnar Ómar fyrir gestina en heimamenn svara að bragði 57-55…þessi verður hjartastyrkjandi.
 
– 53-53 Ómar Sævarsson jafnar fyrir Grindvíkinga í upphafi fjórða leikhluta.
 
– Fjórði leikhluti er hafinn…
 
 
3. leikhluti
 
– Þriðja leikhluta lokið og staðan 51-49 – Njarðvík vann leikhlutann 25-19, svakaleg rispa hjá heimamönnum á síðustu sekúndum leikhlutans. 
 
– 17 sek eftir þegar Tracy Smith skorar og kemur Njarðvík í 50-49. Hann fékk einnig villu og setti vítið og staðan orðin 51-49. 6-0 áhlaup Njarðvíkinga á c.a. hálfri mínútu! 
 
– 48-49 Elvar svarar í sömu mynt fyrir Njarðvíkinga þegar rúmar 30 sekúndur eru eftir.
 
– 45-49 Daníel Guðni með stóran þrist fyrir Grindvíkinga þegar mínúta lifir af þriðja. 
 
– 45-45 og 1.34mín eftir af þriðja leikhluta. Nokkuð flautað hér síðustu mínútur.
 
– Ólafur fór svo yfir og varði skot frá Clinch, dómarar dæmdu villu á þessa varnartilburði og heimamenn allskostar ekki sáttir við þá ákvörðun – leit amk út fyrir að hafa verið myndarleg varnartilþrif. 42-43 Clinch setti öll þrjú vítin.
 
– 42-40 Ólafur Helgi með þrist, er að koma svellkaldur inn af bekknum.
 
– 27 leikmínútur liðnar og hvorugt lið í teljandi villuvandræðum, aðeins Jóhann Árni og Ólafur sem komnir eru með 3 villur í liði Grindavíkur, aðrir með færri. 
 
– 39-38 Ólafur Helgi með stökkskot eftir stoðsendingu frá Elvari og Njarðvíkingar komnir yfir á nýjan leik. 3.55mín eftir af þriðja leikhluta. 
 
– 37-38 Tracy „hristir og bakar“ gegn Sigga Þorsteins og vippar upp stökkskoti.
 
– 34-38 og 5.50mín eftir af þriðja…okkur var nær að tala eitthvað um líflegri sóknarleik, þetta er að detta í lás á nýjan leik. Logi Gunnarsson rembist eins og rjúpan við staurinn en er 0-8 í þristum og Njarðvíkurliðið allt 2-17.
 
– 32-36 og Grindvíkingar svara með sínu eigin 6-0 áhlaupi og þá er búið að áminna Einar Árna þjálfara Njarðvíkinga og hann beðinn um að hætta sínum mótmælum annars hljóti hann tæknivíti fyrir vikið. 
 
– 32-32 Clinch með eina sóðalega troðslu eftir hraðaupphlaup…negla hjá manninum, glæsileg tilþrif. Óhætt að segja að menn séu búnir að reima á sig sóknarskónna – allt annað líf en lungann af öðrum leikhluta. 
 
– 32-30 og 6-0 rönn hjá Njarðvík, Logi með eitt víti eftir að dæmt var tæknivíti á Jóhann Árna Ólafsson. 
 
– 28-30 Tracy Smith opnar síðari hálfleik fyrir Njarðvíkinga. 31-30 Ágúst Orrason bætir svo við þrist og heimamenn hefja þetta á 5-0 dembu.
 
– Þá er síðari hálfleikur hafinn og það eru heimamenn í Njarðvík sem byrja með boltann.
 
Hálfleikstölur: Njarðvík 26-30 Grindavík
Skotnýting Njarðvík: Tveggja 44% – þriggja 8% – víti 50%
Skotnýting Grindavík: Tveggja 48% – þriggja 17% – 50%
 
 
2. leikhluti
 
– Fyrri hálfleik lokið. Staðan 26-30 fyrir Grindavík sem vann annan leikhluta 7-15! Njarðvíkingar hittu ekkert í þessum öðrum leikhluta og eflaust manna fegnastir að honum sé lokið. Tracy Smith er með 10 stig hjá Njarðvík í hálfleik en Ólafur Ólafsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson eru báðir með 7 stig í liði Grindavíkur. 
 
– 26-28 Siggi Þorstiens með eitt víti, menn eru að svitna ansi duglega við að kaupa körfur hér í Ljónagryfjunni.
 
– 26-27 og 2.33mín til hálfleiks, leikhlé í gangi. Það er komið lok ofan á körfuna hjá Njarðvíkingum, vill ekkert niður, gengur lítt betur hjá gestunum, þessar tölur minna miklu frekar á bandaríska háskólaboltann fremur en íslensku úrvalsdeildina. Sjáum hvort næstu tvær og hálfa mínúta gefi ekki öðru hvoru liðinu smá tilslaka og skotin fari að detta. Liðin eru samtals 2-15 í þristum, spurning að fara að sækja meira að körfunni? 
 
– Fjórar mínútur til hálfleiks og 26-25, baráttan er í algleymingi og lítið skorað, lítið að detta hjá liðunum.
 
– Hér fær Tracy Smith aðvörun, var enda við verið að dæma á hann villu sem tja…var alls engin villa, hann hreinlega varði með myndarbrag skot frá Grindvíkingum og var allskostar ekki sáttur. 
 
– 26-25 Ólafur Ólafsson með stökkskot í Njarðvíkurteignum. Grindvíkingar eru að stokka hlutina upp, skipta nokkuð á milli maður á mann varnar og svæðisvarnar. Gestunum líður s.s. ekki illa í svæðisvörninni hér í fyrri hálfleik enda heimamenn aðeins 1-6 í þristum eftir tæpar 16 leikmínútur. 
 
– Nú er leikhlé í gangi, staðan 24-22. Grindvíkingar hafa ívið betur í frákastabaráttunni en eru að tapa fleiri boltum, eru á köflum að flýta sér aðeins meira en meisturum sæmir.
 
– 21-22 Grindvíkingar líflegir þessar fyrstu þrjár mínútur í öðrum leikhluta. Umtalsverð harka farin að færast í leikinn.
 
– 19-17 Jón Axel Guðmundsson opnar annan leikhluta með sterku gegnumbroti fyrir Grindvíkinga. 
 
– Annar leikhluti er hafinn…
 
 
1. leikhluti
 
– Fyrsta leikhluta lokið. Staðan 19-15 fyrir Njarðvík eftir fjörugan fyrsta leikhluta. 
 
– 19-14 Tracy Smith Jr. fyrstur manna í hraðaupphlaup og er verðlaunaður með sendingu sem hann þakkar fyrir með troðslu. Njarðvíkingar að keyra í bakið á Grindvíkingum þessar mínúturnar.
 
– 15-14 Clinch gerir sín fyrstu stig í leiknum af vítalínunni.
 
– 13-12 Elvar Már með ruddalegt gegnumbrot fyrir Njarðvíkinga, lék Grindavíkurvörnina grátt. Liðin eru að skiptast á forystunni og leikið er nokkuð hratt.
 
– 11-12 Jóhann Árni kominn með sex stig og nýtir sér það vel að Elvar Már sem er töluvert minni skuli vera sér til varnar. 
 
– 8-8 Hjörtur Hrafn skorar eftir aðra laglega stoðsendingu frá Elvari Má. Leikurinn fer fjörlega af stað en það er allt útlit fyrir að gestirnir úr Grindavík séu umtalsvert ákafari í frákastabaráttunni.
 
– 4-6 Jóhann Árni skorar með lítilli fyrirhöfn í teignum, Elvar Már mátti sín lítils gegn honum á blokkinni.
 
– 2-2 Ólafur Ólafsson var fljótur að jafna fyrir gestina en Tracy er svo strax aftur á ferðinni og nú með troðslu og kemur heimamönnum í 4-2 eftir flotta stoðsendingu frá Elvari Má. 
 
– 2-0 Tracy Smith gerir fyrstu stig leiksins eftir gegnumbrot. 
 
– Leikur hafinn og það eru Njarðvíkingar sem vinna uppkastið. 
 
 - Fyrir leik:
 
– Byrjunarliðin:
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson, Logi Gunnarsson, Ágúst Orrason, Hjörtur Hrafn Einarsson og Tracy Smith Jr.
Grindavík: Earnest Lewis Clinch Jr., Jóhann Árni Ólafsson, Ólafur Ólafsson, Ómar Örn Sævarsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
 
– Þá er búið að kynna liðin til leiks. Hér var Íslandsmeisturum í 7. flokki kvenna vel fagnað af áhorfendum í húsinu en Njarðvíkingar fögnuðu sigri í þeim flokki um síðustu helgi á fjölliðamóti sem fram fór í Keflavík.
 
– Dómarar leiksins eru þeir Jón Guðmundsson, Leifur S. Garðarsson og Björgvin Rúnarsson. 
 
– Nú eru um tíu mínútur í leik. Ljónagryfjan er orðin þéttsetin, gott ef það er ekki uppselt.
 
Fréttir
- Auglýsing -