spot_img
HomeFréttirNýtt stigamet á HM! Eða nei annars...

Nýtt stigamet á HM! Eða nei annars…

Ég settist við skjáinn til að fylgjast með mínum mönnum í landsliði Kanada gjörsigra Líbanon í leik liðanna á HM í körfubolta nú í morgun. Munurinn á milli liðanna var á tímabili 60 stig, og grunaði mig að þetta hlyti að nálgast met. Ég ætlaði því að skrifa stuttan pistil um þetta “met” en ákvað að gúggla aðeins fyrst. Ég komst þá að því að ég hafði allsvakalega rangt fyrir mér. Þess í stað kemur hér lítil samantekt um metin í sögu heimsmeistarakeppni karla í körfubolta

Stigamunur
Ég byrja á því sem kom mér mest á óvart og það er metið um mesta stigamun milli liða í sögu HM, en það er úr leik Sovétríkjanna gegn Mið-Afríku lýðveldinu frá HM 1974 í Puerto Rico. Sá leikur fór 140-48 fyrir Sovétmönnum, eða 92 stiga munur. Kanada er hins vegar í öðru sæti þessa lista með 90 stiga mun gegn Malasíu, en sá leikur var spilaður á HM 1986 á Spáni.

Flest stig (lið)
Það er ekki hægt að tala um stigamet án þess að ræða flest stig í leik, en það met setti Brasilía í leik sínum gegn Kína á Filippseyjum á HM 1978. Leikurinn fór 154-97 fyrir Brössunum. Næsthæsta stigaskor eins liðs í leik er úr leik Bandaríkjanna gegn Suður Kóreu á HM 1990 í Argentínu, en þar voru lokatölur 146-67 fyrir Könunum. Sá leikur er einnig þriðji á lista yfir mesta mun á milli liða þar sem 79 stig skildu liðin að.

Fæst stig (lið)
Það má færa rök fyrir því að þetta sé ákveðið svindl met, enda var það sett fyrir innleiðingu skotklukkunnar. Á listanum yfir fæst stig í leik eru efstu fjögur sætin öll frá HM í Argentínu árið 1950 og ætti það ekki að koma neinum mikið á óvart. 19 stig frá Egyptalandi í tapi gegn Brasilíu.

Flest stig (leikmaður)
Það ætti ekki að koma mörgum á óvart að í topp þremur yfir flest stig í leik er að finna besta leikmann sögunnar (sem ekki spilaði í NBA), Oscar Schmidt, en hann er þó ekki efstur. Hins vegar er það hinn Suður Kóreski Hur Jae sem skoraði 54 stig gegn Egyptalandi á HM í Argentínu árið 1990. Það sama ár kom Schmidt sér þægilega fyrir í þriðja sæti listans með 52 stig gegn Ástralíu. Þar á milli er hinn gríski Nikos Gallis sem skoraði 53 stig í leik sínum gegn Panama á HM 1986 á Spáni.

Flestir þristar (leikmaður)
Flest körfuboltaáhugafólk veit að Bandaríkjamaðurinn Klay Thompson á NBA metið fyrir flest sett þriggjastiga skot í leik með 14, en það sem færrivita hins vegar er að það met er talsvert eldra á HM í körfubolta. Í þessum sama leik og hann skoraði 54 stig setti Suður Kóreu maðurinn Hur Jae 14 þrista. Það sem gerir þetta met enn ótrúlegra er það að í FIBA leikjum eru 8 færri mínútur, og má því færa rök fyrir því að þetta sé merkilegra afrek heldur en 14 þristar Klays.

Flest stig að meðaltali á einu Heimsmeistaramóti (leikmaður)
Þrátt fyrir að eiga ekki metið yfir flest stig í leik þá setti bætti Oscar Schmidt met Nikos Gallis (33,7) frá því á mótinum 1986. Schmidt skoraði 34,6 stig í leik á HM í Argentínu 1990, þar á meðal var þessi 52 stiga leikur gegn Áströlum.

Flest stig á einu móti (leikmaður)
Þegar kemur að flestum heildarstigum á einu móti er samanburðurinn svolítið ósanngjarn, enda menn að spila mismarga leiki. Það hefur áhrif á þetta met en það er Nikos Gallis sem er efstur á lista með 337 stig í 10 leikjum en Oscar Schmidt í öðru með 277 stig í átta leikjum.

Þó eitt nýtt met
Þrátt fyrir að slá ekki neitt stigamet, þá slógu kanadamenn metið fyrir flestar stoðsendingar í einum leik á HM með 44. Kanada slær þar með sitt eigið met sem þeir settu gegn Jórdaníu á HM 2019 þar sem þeir voru með 37 stoðsendingar. Serbía var einnig með 37 stoðsendingar í einum leik á sama móti.

Það hefur verið gaman að skoða þessi met og margt sem maður lærir af því. Eins og til dæmis hvað Oscar Schmidt var ótrúlegur leikmaður og að met Klays Thompson er ekki eins merkilegt og mann grunaði.

Fréttir
- Auglýsing -