spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaNýtt lið í Vesturbænum ,,Tímamót í sögu félagsins"

Nýtt lið í Vesturbænum ,,Tímamót í sögu félagsins”

Nýstofnað kvennalið KV sendi fréttatilkynningu frá sér í dag er varðar þátttöku þeirra í fyrstu deild kvenna á komandi tímabili.

Einhverjir ráku upp stór augu þegar sást að KV hefði skráð lið til keppni í fyrstu deild kvenna, en félagið hefur ekki verið með kvennalið áður. Aðeins karlalið sem leikið hefur í fyrstu og annarri deild.

Líkt og farið er yfir í fréttatilkynningunni hér fyrir neðan er kvennalið KV hugsað á svipaðan hátt og karlalið þeirra, til þess að gefa stelpum og konum í KR tækifæri á að vaxa og dafna í keppni gegn sterkum liðum fyrstu deildarinnar.

Tilkynning KV:

Körfuboltadeild KV var stofnuð árið 2007 og hefur verið viðloðandi í neðri deildum Íslands þar til nýlega er liðið sigraði 2. deild karla og tryggði sér þátttökurétt í 1. deild fyrir keppnistímabil 2024-2025. Þetta var í fyrsta skiptið sem KV telfdi fram liði í 1. deildinni en nýlega tók við stjórn sem breytti stefnu félagsins alfarið. Liðið er nú orðinn vettvangur fyrir yngri leikmenn til að spreyta sig á parketinu og fá tækifæri á að vaxa og dafna gegn erfiðrii samkeppni, þar á meðal fullorðnum atvinnumönnum.


Liðið er mest megni skipað ungum og efnilegum leikmönnum og fá þeir tækifæri til að gegna hlutverkum innan liðsins. KV er félag í þróun, með rætur í samfélagslegri hugsjón og augun á framtíðinni.


Með karlalið í 1. deild, nýstofnuðu kvennaliði og með markvissu starfi erum við að byggja upp félag sem stendur fyrir tækifæri, ábyrgð og þátttöku, með það að markmiði að enginn þurfi að hætta í íþróttinni vegna skorts á rými eða möguleikum.

Árið 2025 tekur félagið enn eitt stórt framfaraskref með stofnun fyrsta kvennaliðs KV í meistaraflokki. Þetta markar tímamót í sögu félagsins og speglar þá samfélagslegu ábyrgð sem KV vill axla. Kvennastarfið er ekk eingöngu stofnað til að keppa, heldur til að skapa raunverulegan vettvang fyrir stelpur og konur í körfubolta, óháð því hvort þær stefni í landslið eða einfaldlega vilji halda áfram að æfa og spila á sínum forsendum.


Í dag skortir marga slíka valkosti, sérstaklega fyrir stelpur sem eru komnar úr yngri flokkunum en ekki hluti af afrekshópum. Of margar hætta, ekki vegna áhugaleysis, heldur skorts á rými. KV vill bjóða þeim rýmið og tækifærin, og um leið leggja sitt af mörkum til jákvæðrar þróunar í íslenskri kvennakörfu. Með því að stofna kvennalið sendir KV skýr skilaboð: Íþróttir eru fyrir alla, ekki aðeins þá allra bestu.


Stofnun kvennaliðs KV er ekki aðeins stórt skref fyrir félagið sjálft, heldur einnig gott fordæmi fyrir önnur félög og leikmenn víða um land. Flest körfuknattleiksfélög á Íslandi eru með kvennalið í dag, en þó eru dæmi um félög sem hafa ekki kvennalið eða hafa þurft að leggja þau niður tímabundið. Einnig eru til íþróttafélög sem enn hafa ekki stofnað
körfuknattleiksdeild, þótt þau séu virk á öðrum sviðum.


KV vill sýna að það er hægt að byggja upp nýjan vettvang, jafnvel frá grunni. Oft er áhugi til staðar, en skortur á fyrirmyndum eða stuðningi veldur því að fólk þorir ekki að taka fyrsta skrefið. Við vonum að þetta framtak okkar verði hvatning, bæði fyrir félög sem eru að velta fyrir sér að endurvekja kvennastarf og fyrir leikmenn sjálfa sem hafa lengi borið í sér hugmyndir eða drauma um að stofna lið eða efla körfustarf á sínu svæði. KV vill vera
það fordæmi sem sýnir að það er hægt og að það er þess virði.


Sú gríðarlega fjölgun erlendra atvinnumanna síðast liðin tíu ár í íþróttinni, kallar á að félag eins og okkar verði til. Okkar markmið er að byggja upp starf sem leggur áherslu á að
gefa íslenskum leikmönnum tækifæri á að sinna hlutverkum sem flest önnur lið manna með erlendum atvinnumönnum. Ekkert lið í efstu tveimur deildum í körfubolta á Íslandi
verður skipað eins mörgum íslenskum leikmönnum og við.


Með stofnun kvennaliðs KV viljum við einnig skapa valkost fyrir þær konur og stelpur sem hingað til hafa staðið frammi fyrir of þröngum dyrum inn í meistaraflokk, og þar með vera hluti af þeirri kvenna-íþróttabylgju sem nú fer um landið með krafti. Við viljum leggja okkar af mörkum til að fækka þeim sem þurfa að hætta of snemma og fjölga þeim sem finna tilgang, sjálfstraust og gleði í gegnum íþróttina.


Við æfum og spilum heimaleiki á Meistaravöllum, heimavelli KR og erum í samstarfi við félagið með þjálfara, æfingatíma og vensl á efnilegum leikmönnum úr yngri flokka starfinu
þeirra. Að öðru leiti eru félögin aðskilin. Álíka samstarf hefur ekki tíðkast í körfuboltasamfélaginu á Íslandi en sést þó oft í öðrum íþróttum hér á landi, til dæmis í fótboltanum.

Í gegnum venslasamning við KR fáum við til okkar efnilega leikmenn úr yngri flokkum, þar á meðal landsliðsefni sem eru enn of ungir og/eða með of litla reynslu til að fá spiltíma í efstu deild. Með KV fá þessir leikmenn hins vegar tækifæri til þess að spreyta sig, safna reynslu og undirbúa sig fyrir næstu skref á ferlinum, á sama tíma heldur KR þeim
leikmönnum innan klúbbsins.


Auk keppnishlutans stefnum við að því að nýta KR félagsheimilið í Frostaskjóli sem vettvang fyrir fjölbreytta og skemmtilega viðburði. Við viljum skapa lifandi stemningu í kringum klúbbinn og samfélagið. Við erum nú þegar byrjaðar að plana Konukvöld KV í október, í tengslum við Bleiku slaufuna. Með þessu viljum við ekki aðeins efla körfuboltann, heldur líka leggja okkar af mörkum til jákvæðra samfélagsverkefna.

Fréttir
- Auglýsing -