spot_img
HomeFréttirNýtt fyrirkomulag: Eistar með á NM

Nýtt fyrirkomulag: Eistar með á NM

Framundan er Norðurlandamót yngri landsliða í körfuknattleik en það fer fram að venju í Solna í Svíþjóð. Mótið verður haldið frá miðvikudeginum 8. maí til sunnudagsins 12. maí. Tvær breytingar verða á keppnishaldinu í ár.
 
Ísland mun eiga fjögur lið á mótinu, U16 drengja og stúlkna og U18 karla og kvenna.
 
Breyting verður á mótinu í ár frá því sem flestir þekkja frá fyrri árum. Eistland mun verða með og munu því öll lið fá fimm leiki hvert. Á móti kemur að ekki verður leikið um sæti 1.-3. eins og verið hefur heldur mun mótið vera í fjölliðamóts fyrirkomulagi og verður það lið meistari sem efst verður eftir að allir hafa leikið við alla.
 
Leikið verður gegn sömu þjóð innan hvers dags og sem dæmi verður fyrsti keppnisdagurinn á miðvikudegi gegn Eistlandi þar sem íslensku liðin munu öll leika gegn nýliðunum á mótinu. Dagur tvö verður gegn Noregi, síðan gegn Finnlandi á föstudeginum, Svíþjóð á laugardeginum og Danmörku á sunnudeginum.
 
Eftir það verður farið í stigatöfluna og það lið sem stendur best að vígi verður krýnt norðurlandameistari í sínum flokki.
 
Karfan.is verður með í för á NM sem fyrr og mun greina ítarlega frá mótinu í máli og myndum.
 
Mynd/ [email protected] – Hvergerðingurinn og glímudrottningin Marín Laufey verður í U18 ára landsliði kvenna.
  
Fréttir
- Auglýsing -