spot_img
HomeFréttirNýliðarnir höfðu betur í varnarslagnum!

Nýliðarnir höfðu betur í varnarslagnum!

Topplið Vals heimsótti nýliðana á Álftanesi í kvöld. Álftnesingar hafa farið vel af stað í frumraun sinni í efstu deild, sitja að vísu strangt til tekið í 8. sæti en eru samt aðeins einum sigurleik á eftir Völsurum! Valsarar eru 5/2 ásamt þremur öðrum liðum, Álftanes 4/3 ásamt fjórum öðrum liðum!

Meiðsli hafa því miður verið býsna áberandi nú í byrjun tímabils. Kári, Kristó, Hjálmar og fleiri hafa misst mikið úr hjá Val og ekki gott að vita hverjir verða í búningi í kvöld. Nýliðarnir hafa sloppið betur en þó hefur Hörður Axel verið frá að undanförnu vegna nárameiðsla. Getur Kúlan eitthvað rýnt inn í framtíðina?

Kúlan: ,,Bíddu…hafa Valsmenn ekki unnið meira og minna allt sama hverjir eru inná? Öruggur 76-88 Valssigur!“

Byrjunarlið

Álftanes: Love, Dúi, Stipcic, Haukur,Wilson

Valur: Jefferson, Aron, Kiddi, Kristó, Monteiro

Gangur leiksins

Álftnesingar byrjuðu leikinn af krafti og náðu að keyra í bakið á gestunum ítrekað í upphafi, en það er kannski ekki þeirra þekktasta vopn samkvæmt sérfræðingunum. Eftir 4 mínútna leik brá Finnur á það ráð að taka leikhlé í stöðunni 13-6. Sennilega óskaði Finnur eftir meiri orku varnarlega og hann fékk það, einni og hálfri leikmínútu síðar voru Valsarar komnir yfir 13-14 eftir þrist frá Jefferson. Jafnvægi var svo með liðunum í fjórðungnum en Svalason sá til þess að gestirnir leiddu með 5, 18-23 eftir fyrsta fjórðung.

Valsarar hótuðu ítrekað að skilja heimamenn eftir í öðrum leikhluta. Valsvörnin var nokkuð öflug eftir fyrrnefnt leikhlé Finns og sóknin að sama skapi hjá heimamönnum ekki svo mjög lipur. Um miðjan leikhlutann leiddu Valsmenn með 9, 26-35 og Kjartan blés til leikhlés. Það var einkum ágætis varnarleikur heimamanna sem hélt þeim inn í leiknum en einnig vildi það þeim til happs að ekkert vildi niður hjá gestunum næstu mínúturnar eftir leikhéið. Heimamenn röðuðu hins vegar ekkert niður körfum á þessum kafla frekar en gestirnir og þegar 1 mínúta var til leikhlés voru Valsmenn aftur komnir 9 yfir, 32-41, og Kjartan ákvað að ræða aftur við sína menn. Það hafði ljómandi góð áhrif og munurinn á liðunum gott sem enginn í pásunni, staðan 37-42. Wilson og Jefferson voru báðir með 18 stig í hálfleik og aðeins 10 leikmenn komnir á blað, 4 hjá heimamönnum.

Það var allt í járnum allan þriðja leikhlutann og reyndar það sem eftir lifði leiks! Gestirnir héngu þó einni til tveimur körfum yfir þar til á lokamínútunni en Dúi jafnaði leika í 55-55 og Love kom sínum mönnum yfir í fyrsta sinn síðan snemma í fyrsta leikhluta. Staðan 57-55 fyrir lokafjórðunginn.

Eins og vill gjarnan verða hitnaði vel í húsinu eftir því sem á leið! Baráttan varð enn meiri og varnir liðanna harðari enda nánast ekkert skorað! Um miðjan leikhlutann var staðan 59-59, heil sex stig höfðu bæst við á töfluna. Dino Stipcic varð fimmti leikmaður Álftnesinga til að skora þegar tæpar 4 voru eftir af leiknum, rándýr þristur sem kom heimamönnum í 64-61. Finnur tók þá leikhlé og Kjartan ákvað að rugla í Valsliðinu með því að koma út á gólfið í svæðisvörn sem skilaði engu nema galopnum þristi frá Monteiro…en auðvelt er að vera vitur eftir á! Það kom þó ekki að sök, þegar 3 mínútur voru eftir stoppaði leikurinn í dágóða stund í stöðunni 64-64 þar sem dómararnir dæmdu alls konar villur á hina og þessa sem undirritaður treystir sér ekki til að lýsa almennilega. Niðurstaðan var í það minnsta afar vond fyrir gestina, Jefferson fékk sína fimmtu villu og heimamenn komu sér yfir með þremur vítum í kjölfarið, 67-64. Frank Aron jafnaði strax fyrir gestina í næstu sókn en Stipcic svaraði því um hæl, 70-67 og aðeins 45 sekúndur eftir af leiknum. Það fór vel á því að besti maður vallarins, Wilson, varði skottilraun Kidda Páls á þriðju hæð og tryggði svo sigur heimamanna með svakalegu tröllatroði í blálok leiks! Lokatölur urðu 73-67, frábær varnarsigur nýliðanna staðreynd.

Menn leiksins

Douglas Wilson var bestur á vellinum í kvöld, skilaði 23 stigum og tók 14 fráköst. Byrjunarliðið allt átti fínan leik, djúpt var á blekinu hjá Stipcic í kvöld en það hristist úr pennanum á ögurstundu! Hins vegar kom ekki stig af bekknum hjá liðinu.

Jefferson var atkvæðamestur gestanna með 22 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar.

Kjarninn

Það var ljómandi fín stemmning í Forsetahöllinni í kvöld, góð mæting eins og undirrituðum skilst að það hafi verið hingað til á tímabilinu. Það er jákvæður andi yfir þessu hjá Álftnesingum, mætti kalla nýliðabrag eins og hann gerist bestur! Í viðtali við Kjartan eftir leik kom fram að hann er nokkuð sáttur með uppskeruna það sem af er, mörg jöfn lið og nánast öll í einum hnapp á toppnum! Álftanes fer ekkert út fyrir bæjarmörkin í næstu umferð, rúlla í Ásgarð og mæta sveitungum sínum og búast má við spennandi og sannkölluðum nágrannaslag.

Valsarar hafa lagt það í vana sinn að vinna jafna og spennandi leiki og hafa kreist út sigra eins og Finnur orðaði það sjálfur um daginn þrátt fyrir talsverð meiðslavandræði. Það hafðist ekki að þessu sinni. Í viðtali við Finn eftir leik fékk undirritaður það á tilfinninguna að Finnur hefði helst í hyggju að komast heim sem fyrst og gleyma þessu, þó svo að Valsmenn muni vafalaust reyna að læra það sem hægt er að læra af þessum leik og mæta örugglega beittir í þann næsta.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -