spot_img
HomeFréttirNýliðarnir fá góðan liðsstyrk fyrir lokasprettinn

Nýliðarnir fá góðan liðsstyrk fyrir lokasprettinn

Álftanes hefur samið við Norbertas Giga um að leika með liðinu á yfirstandandi tímabili í Subway deild karla.

Þessi 28 ára leikmaður skoraði 21 stig, tók 11 fráköst auk þess sem hann gaf 2 stoðsendingar, stal einum bolta og varði eitt skot í leik í deildinni á síðustu leiktíð, sem leikmaður Hauka.

„Við Kjartan þjálfari ræddum saman fyrir tímabilið og héldum svo sambandi. Þegar þetta tækifæri kom fann ég strax fyrir gagnkvæmum áhuga. Ég er ánægður að við gátum klárað þetta á örfáum klukkutímum.

Að koma og spila fyrir Álftanes og Kjartan þjálfara er mjög spennandi. Ég er glaður að geta tekið þátt í að skrifa söguna með klúbbnum, taka taka fyrstu skrefin á meðal þeirra bestu. Ég er mjög spenntur að hitta leikmennina, þjálfarateymið, stjórnina og auðvitað aðdáendur liðsins. Að koma inn í lið á miðju tímabili er ný reynsla fyrir mig en ég veit að allur hópurinn hefur sama markmið – að vinna leiki. Mitt markmið er að koma inn í liðið og hjálpa því að ná þeim markmiðum,“ segir Norbertas Giga í tilkynningu félagsins.

„Giga er frábær viðbót inn í okkar góða leikmannahóp. Við höfum verið að glíma við óvænt skakkaföll í allan vetur og ákváðum að hafa augun opin fyrir styrkingu á hópnum. Þegar þessi hugmynd var lögð fyrir okkur var þetta aldrei spurning. Við í þjálfarateyminu hrifumst allir af leik hans á síðasta tímabili og teljum að hann passi vel inn í þann körfubolta sem við viljum spila. Framundan eru spennandi tímar hjá klúbbnum, síðustu umferðirnar á fyrsta leiktímabilinu okkar í efstu deild og lokahelgin í bikarkeppninni. Við hlökkum til að halda áfram á þeirri vegferð sem við höfum verið á; að kljást af krafti við bestu körfuboltalið landsins, hvattir áfram af frábæra samfélaginu okkar,“ segir Kjartan Atli Kjartansson þjálfari Álftnesinga.

Fréttir
- Auglýsing -