22:37
{mosimage}
(Nemanja Sovic var sterkur undir körfunni í kvöld)
Smárinn skartaði sínu fínasta þegar Breiðablik tók á móti Skallagrím í 1. umferð Iceland Express deildinni fyrr í kvöld. Körfuknattleiksdeild Breiðabliks fagnar um þessar mundir 40 ára afmæli og Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs veitti að því tilefni Pétri Sigurðssyni, formanni körfuknattleiksdeildar Breiðabliks stórfínan blómvönd. Breiðablik vann leikinn með 12 stigum, 78-66 og hafa nýliðarnir í deildinni báðir halað inn sín fyrstu stig. Leikurinn í kvöld var í raun aldrei spennandi því heimamenn leiddu nánast allan leikinn en Skallagrímur komst þó nálægt þeim á lokamínútunum, sem dugði þó ekki til. Stigahæstur hjá Breiðablik var Nemanja Sovic með 26 stig og 16 fráköst en næstir voru Rúnar Ingi Erlingsson með 12 stig og Emil Þór Jóhannsson með 10 stig. Hjá Skallagrím var Sveinn Arnar Davíðsson atkvæðamestur með 18 stig og 10 fráköst en næstir voru Þorsteinn Gunnlaugsson með 14 stig og Pálmi Þór Sævarsson með 12 stig og 10 fráköst.
Heimamenn byrjuðu leikinn mun betur og voru komnir með 6 stiga forskot strax eftir þrjár mínútur, 11-5. Sóknarleikur Skallagríms virtist ekki vera að ganga upp og þeir voru einstaklega klaufalegir í flestum sínum aðgerðum í vörninni. Þeir vöknuðu hins vegar heldur betur til lífsin á næstu mínútum og þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum var munurinn kominn niður í eitt stig, 13-12. Gestirnir höfðu síðan jafnað metin þegar ein mínúta var eftir af leikhlutanum, 19-19. Liðin skiptu fjórum stigum jafnt á milli sín það sem eftir lifði leikhlutans og var því jafnt, 21-21 þegar flautað var til loka hans. Nemanja Sovic sýndi og sannaði strax í fyrsta leikhluta að hann er hverrar krónu eða evru virði með því að skora 12 stig af 21 stigi Breiðabliks í fyrsta leikhluta.
Liðin skiptust á að skora í byrjun annars leikhluta og mátti vart sjá mun á liðunum. Gestirnir frá Borganesi leiddu þegar leikhlutinn var hálfnaður, 28-29 en það breyttist ört á þessum hluta leiksins. Breiðablik náðu hins vegar góðu áhlaupi í framhaldi af því og leiddu með 7 stigum þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum, 38-31. Heimamenn voru farnir að pressa hátt á vellinum sem gerði sóknarleik Skallagrímsmanna ennþá erfiðara fyrir. Þessi pressa virtist svínvirka því forskot heimamanna var komið upp í 11 stig þegar flautað var til hálfleiks, 46-35.
Stigahæstur í hálfleik hjá Breiðablik var Nemanja Sovic með 18 stig og 7 fráköst en næstir voru Emil Þór Jóhannson með 10 stig og Aðalsteinn Pálsson með 7 stig. Stigaskorið dreifðist vel hjá Skallagrími en þar var Þorsteinn Gunnlaugsson stigahæstur mðe 9 stig og 5 fráköst, næstir voru Pálmi Þór Sævarsson með 6 stig og 6 fráköst og Finnur Jónsson með 4 stig.
{mosimage}
Skallagrímur mætti mun kraftmeiri til leiks í seinni hálfleik með flottri svæðisvörn sem virtist slá Breiðabliksmenn útaf laginu. Sóknarleikur gestana var hins vegar langt frá því að vera sannfærandi og þrátt fyrr að stoppa Breiðablik nokkrum sinnum virtist munurinn aldrei minnka. Breiðablik hafði þess vegna 10-12 stiga forskot allan leikhlutan er liðin skiptust á að skora. Þegar lokaflauta leikhlutans gall stóð munurinn í 11 stigum, 59-48 og því hvort lið um sig aðeins skorað 13 stig í leikhlutanum.
Skallagrímsmenn ætluðu greinilega að leggja allt sitt í varnarleikinn í upphafi fjórða leikhluta og Ken Webb, sem þjálfaði Skallagrím líklega í seinasta skiptið í kvöld, tók virkan þátt í varnarleiknum af hliðarlínunni og undirritaður er ekki frá því að hann hafi jafnvel verið hreifanlegri en margir hverjir á vellinum. Þessi aggressíva svæðisvörn gestana virtist gefa góða raun og þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum var munurinn kominn niður í 8 stig, 63-55. Hlutirnir voru fljótir að gerast á lokamínútum leiksins og Sveinn Arnar Davíðsson sá til þess að gestirnir héldu vel í Breiðablik. Hann skoraði þrjá þrista í fjórða leikhluta og þegar tvær mínútur voru eftir var munurinn kominn niður í aðeins 4 stig, 70-66. Rúnar Ingi Erlendsson sagði þá hingað og ekki lengra því hann skoraði 6 af seinustu 8 stigum leiksins á lokamínútunni og tryggði þannig Breiðablik 12 stiga sigur, 78-66.
Umfjöllun : Gísli Ólafsson
Myndir : Snorri Örn Arnaldsson
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}



