spot_img
HomeFréttirNýliðarnir átu Njarðvíkinga (Umfjöllun)

Nýliðarnir átu Njarðvíkinga (Umfjöllun)

01:02
{mosimage}

(Árni Ragnarsson og stuðningsmenn voru kátir í leikslok)

Nýliðar FSu í úrvalsdeild karla í körfuknattleik sigruðu margfalda Íslandsmeistara Njarðvíkur 103-78 á Selfossi í kvöld. Heimamenn höfðu undirtökin allan leikinn.

Að ganga inn í Iðuna á Selfossi í kvöld var eins og að ganga inn í leikhús. Áhorfendur sátu hægra megin, umhverfis voru svört leikhústjöld og í miðjunni upplýstur leikvöllurinn, sviðið, með persónum og leikendum. Og eins og alvöru leikhúsi sæmir þá gerast óvæntir atburðir.

Áhorfendum var samstundis kippt inn í hringiðuna þar sem Sunnlendingar skoruðu fyrstu sjö stigin gegn þremur frá Njarðvíkingum. Margir hafa spáð nýliðunum falli en orkuríkir leikmenn þess hlupu í kringum og djöfluðust í Njarðvíkurrisanum. Hann rumskaði aðeins í fyrsta leikhluta, en staðan að honum loknum var 25-21. Í næsta leikhluta höfðu Sunnlendingar yfirhöndina en gáfu í lok hálfleiksins og rétt áður en tjaldið féll fyrir hlé tróð Árni Ragnarsson boltanum í körfuna til að koma FSu í 55-40.

Spennan í handritinu var á sama stigi í þriðja leikhluta þar sem Sunnlendingar héldu forskotinu en misstu örlítið taktinn og virtust vera farnir að þreytast. Í stöðunni 74-60 fyrir seinasta fjórðung var allt eins von á óvæntum endi. En fleiri plott voru ekki í handritinu, endirinn fyrirsjáanlegur en samt stórfenglegur.

Með aðalhlutverk í liði heimamanna fóru miðherjinn Sævar Sigurmundsson, sem skoraði 29 stig, tók átta fráköst og varði tvö skot Friðriks Stefánssonar. Árni Ragnarsson átti einnig stórleik, skoraði 18 stig, tók tíu fráköst og varði tvö skot og Tyler Dunway skoraði nítján stig.

Með aukahlutverk fóru Njarðvíkingar. Þar bar mest á Loga Gunnarssyni, sem skoraði nítján stig. Hann snéri sig í fyrri hálfleik og gat lítið beitt sér undir lok hans en stýrði leik Njarðvíkur í seinni hálfleik. Slobodan Subasic skoraði sautján stig og Friðrik Stefánsson fimmtán.

Þar með voru ljósin í salnum kveikt og tjaldið fellt að lokinni frumsýningu.

Tölfræði leiksins
http://kki.is/leikvarp_tolfraedi.asp?Leikur=1500002941_1_4

Texti og myndir: Gunnar Gunnarsson

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -