spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaNýliðar Þórs lögðu Íslandsmeistara Vals í Höllinni

Nýliðar Þórs lögðu Íslandsmeistara Vals í Höllinni

„Það sem við gerum ekki í fyrri hálfleik, það gerum við í þeim seinni!“ Þannig voru hvatningarorð til Þórsliðsins og stuðningsmanna í stúkunni í Höllinni í kvöld í upphafi seinni hálfleiks þegar Þór mætti Íslandsmeisturum Vals í Subway-deild kvenna í körfubolta. Skotnýtingin var ekki góð hjá Þór í fyrri hálfleik og margt sem gekk á afturfótunum, fum, fát og stress, tapaðir boltar og tólf stiga forysta gestanna að loknum fyrri hálfleiknum.

Gestirnir höfðu forystuna nær allan fyrri hálfleikinn, en eftir slaka byrjun náðu Þórskonur þó að jafna í 10-10 með sjö stigum í röð, en aftur náðu Valskonur forystunni og átta stiga munur eftir fyrsta leikhluta. Lokakaflinn í öðrum leikhluta skilaði gestunum 12 stiga forystu þegar gengið var til búningsklefa.

Ef það er eitt sem er ekki til í orðabók Þórsliðsins þá er það orðið „uppgjöf“ og þrátt fyrir að upphaf seinni hálfleiksins gæfi ekki góð fyrir heit um framhaldið áttu undur og stórmerki eftir að gerast. Valur náði mest 18 stiga forskoti, en þá slapp villidýrið laust og forskotið hvarf. Á fjórum mínútum og 41 sekúndu skoruðu gestirnir ekki stig á meðan Þórsliðið skoraði 16 og breytti stöðunni úr 32-50 í 48-50.

Þór var tveimur stigum undir fyrir lokafjórðunginn og þá varð ekki aftur snúið. Gestirnir héldu í forskotið í blábyrjun fjórða leikhluta, en áfram börðust Þórskonur af krafti, dyggilega studdar af tæplega 200 áhorfendum – sem er auðvitað réttara að nefna stuðningsmenn en áhorfendur því stemningin var geggjuð og skilaði sér sannarlega inn í leikinn hjá okkar konum og hélt gestunum niðri. 

Munurinn að lokum sex stig og mistök á ritaraborði í lokasókn Þórs þar sem tíminn fór ekki í gang skiptu í raun engu máli þegar á allt er litið. Þegar sóknin hófst voru 7,2 sekúndur á klukkunni, sóknin kláruð áður en nokkur tók eftir mistökunum. Sóknin gekk fullkomlega upp og Eva Wium komst ein upp að körfunni og skoraði af öryggi. Dómarar réðu ráðum sínum og ákváðu að stig Evu ættu að standa og 1,5 sekúndur væru eftir. Það var of lítið fyrir gestina að gera eitthvað með og sex stiga sigur staðreynd. 

Tölfræði leiks

Myndasafn (Palli Jóh)

Umfjöllun / Þórsport

Fréttir
- Auglýsing -