spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaNýliðar Stjörnunnar lögðu Íslandsmeistarana

Nýliðar Stjörnunnar lögðu Íslandsmeistarana

Stjarnan hafði betur gegn Íslandsmeisturum Vals í 14. umferð Subway deildar kvenna í Origo höllinni í kvöld, 63-74. Eftir leikinn er Stjarnan í 2. sæti deildarinnar með 9 sigurleiki á meðan að Valur er í 7. sætinu með 4 sigra.

Fyrir leik

Nýliðar Stjörnunnar höfðu gert ansi vel það sem af var tímabili og voru í öðru sæti deildarinnar yfir hátíðarnar. Valur var hinsvegar öllu neðar í deildinni, í 7. sætinu.

Stjarnan mætti með sama lið til leiks og þær höfðu verið með á fyrri hluta tímabilsins, en liði hafdði þó farið í gegnum þjálfarabreytingu þar sem Auður Íris Ólafsdóttir yfirgafi liðið nú í desember. Valur aftur á móti hafði eytt bróðurparti vetrar í leikmannabreytingum á sínum hóp og voru með Þórdísi Jónu Kristjánsdóttur í fyrsta skipti í liði sínu í kvöld. Þá var annar fyrrum Bliki í borgaralegum klæðum á bekk Vals í leiknum í Brooklyn Pannell, en hún hafði samkvæmt heimildum ekki náð að verða lögleg með liðinu fyrir leikinn.

Gangur leiks

Stjarnan varð fyrir mikilli blóðtöku strax á upphafsmínútu leiksins er landsliðskona þeirra Ísold Sævarsdóttir meiddist, en hún kom ekki frekar við sögu í leiknum. Örfáum andartökum seinna meiddist önnur landsliðskona, Hildur Björg Kjartansdóttir, en líkt og Ísold tók hún ekki frekari þátt. Stjarnan nær ágætis tökum á leiknum í fyrsta fjórðung, en virðast ekki geta hrist heimakonur af sér. Leikur sterkra varna að er virtist á þessum upphafsmínútum, en staðan fyrir annan er 13-15 gestunum í vil. Gestirnir eru svo áfram skrefinu á undan út fyrri hálfleikinn, en þegar liðin halda til búningsherbergja er munurinn 4 stig, 31-35.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Dagbjört Dögg Karlsdóttir með 11 stig á meðan að Denia Davis-Stewart var komin með 16 stig fyrir Stjörnuna.

Leikurinn helst áfram nokkuð jafn í upphafi seinni hálfleiksins. Heimakonur ná að koma forskoti Stjörnunnar minnst niður í tvö stig í þriðja leikhlutanum áður en þær ná aftur að bæta í og eru sex stigum á undan fyrir lokaleikhlutann, 44-50. Stjarnan nær svo að byrja þann fjórða af miklum krafti og eru komnar með 11 stiga forystu þegar 7 mínútur eru eftir, 50-61. Heimakonur börðust nokkuð hetjulega á lokakaflanum, en Stjarnan náði að hafa góð tök á leiknum og sigraði að lokum með 11 stigum, 63-74.

Atkvæðamestar

Best í liði Stjörnunnar í kvöld var Denia Davis-Stewart með 20 stig, 18 fráköst. Fyrir Val var það Ásta Júlía Grímsdóttir sem dró vagninn með 18 stigum og 16 fráköstum.

Hvað svo?

Næst á Stjarnan leik komandi laugardag 6. janúar gegn Njarðvík í Umhyggjuhöllinni. Valur leikur hinsvegar næst komandi miðvikudag 10. janúar gegn Fjölni í Dalhúsum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -