spot_img
HomeFréttirNýliðar Snæfells lögðu Íslandsmeistara Vals

Nýliðar Snæfells lögðu Íslandsmeistara Vals

Nýliðar Snæfells höfðu betur gegn Íslandsmeisturum Vals í Origo höllinni í kvöld í 16. umferð Subway deildar kvenna. Eftir leikinn er Valur í 7. sæti deildarinnar með fimm sigra á meðan að Snæfell er í 8.-9. sætinu með tvo sigra líkt og Fjölnir.

Gangur leiks

Gestirnir úr Stykkishólmi mættu betur til leiks í kvöld en heimakonur. Náðu að vera skrefinu á undan eftir fyrsta fjórðung, 10-13. Snæfell kemst svo aðeins af stað sóknarlega í öðrum leikhlutanum og nær að koma forystu sinni í tveggja stafa tölu. Þeim mun ná þær svo meira og minna að hanga á út hálfleikinn, en þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er staðan 26-34.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Brooklyn Pannell með 15 á meðan að Shawnta Shaw var einnig komin með 16 stig fyrir Snæfell.

Snæfell gengur svo enn á lagið í upphafi seinni hálfleiksins. Ná að halda aftur af heimakonum og fara mest 13 stigum yfir í upphafi þriðja, 28-41. Valur nær þó aðeins að spyrna við, en ekki nóg svo að Snæfell sé ekki enn vel á undan fyrir þann fjórða, 40-51. Áfram heldur Snæfell að vera með góð tök á leiknum í upphafi lokaleikhlutans. Mikið til var það þökk vel skipulagðs varnarleiks og sóknarfrákasta sem þær höfðu stjórnina, en á löngum köflum leyfðu heimakonur þeim að fá endalaus tækifæri til að koma boltanum í körfuna. Leikurinn varð svo aðeins spennandi á lokametrunum, en Snæfell hélt út og náði þar með í sinn annan sigur í vetur, 58-62.

Atkvæðamestar

Best í liði Vals í kvöld var Brooklyn Pannell með 25 stig og 7 fráköst. Næst henni var Ásta Júlía Grímsdóttir með 10 stig og 15 fráköst.

Fyrir Snæfell var það Shawnta Shaw sem dró vagninn með 26 stigum, 16 fráköstum og Jasmina Jones bætti við 8 stigum, 13 fráköstum og 4 stoðsendingum.

Hvað svo?

Snæfell á leik næst heima í Stykkishólmi komandi þriðjudag 23. janúar gegn Njarðvík. Valur leikur hinsvegar degi seinna miðvikudag 24. janúar gegn Keflavík í Origo höllinni.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -