spot_img
HomeFréttirNýliðar Njarðvíkur með sterkan sigur á Fjölni

Nýliðar Njarðvíkur með sterkan sigur á Fjölni

Nýliðarnir frá Njarðvík lögðu Fjölni í sínum fyrsta heimaleik í Subway deild kvenna í kvöld. Leikurinn var hnífjafn allan tímann en Njarðvíkingar sigldu framúr á lokametrunum. Lokatölur 71-61 Njarðvík í vil og nýliðarnir því með fullt hús stiga eftir tvær umferðir!

Aliyah A’taeya Collier fór hægt af stað hjá Njarðvík í kvöld en kláraði vel og var stigahæst með 17 stig og 18 fráköst eða svokallaða tröllatvennu! Þá var Collier einnig með 7 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Hjá Fjölni var Sanja Orozovic stigahæst með 18 stig en Ciani Cryor bætti við 16 stigum og 10 fráköstum.

Njarðvík leiddi 15-14 að loknum fyrsta leikhluta þar sem hvortugt lið var að hitta neitt sérstaklega vel. Diane Diene var helsti sóknarbroddur heimakvenna með 8 stig á fyrstu 10 mínútum leiksins en Iva var með 5 hjá Fjölni.

Fjölniskonur áttu annan leikhluta og leiddu 34-39 í hálfleik. Fjölniskonur gerðu einkar vel gegn Collier varnarlega í fyrri hálfleik og að sama skapi voru heimakonur 1-10 í þristum.

Helena Rafnsdóttir og Collier fóru fyrir Njarðvík í upphafi síðari hálfleiks og náðu Njarðvíkingar að jafna leikinn og komast yfir í þriðja og leiddu 49-44 að honum loknum. Vörn Njarðvíkinga var þétt og Njarðvík vann leikhlutann 20-10.

Í fjórða reyndu Fjölniskonur hvað þær gátu til að jafna leikinn en Njarðvíkingar áttu alltaf svör, Collier var beitt og þá voru þær Kamilla og Eva báðar með stóra þrista sem voru af þeirri gerðinni til að draga tennurnar úr Fjölni. Sanja var frábær fyrir Fjölni í fjórða en hefði þurft að stimpla sig fyrr inn í leikinn. Verðskuldaður Njarðvíkursigur í kvöld og nýliðarnir hafa heldur betur látið í sér heyra þessar fyrstu tvær umferðir.

Óhætt er að segja að Collier hafi átt stóran þátt í sigri Njarðvíkinga í kvöld en hún var eins og margar aðrar stöllur sínar að glíma við skotin enda var hún 0-8 í þristum þó hún hafi vissulega sett upp tröllatvennu í 17 stigum og 18 fráköstum. Helena Rafnsdóttir átti einnig flottar rispur með 15 stig og 2 fráköst og þá kom Kamilla Sól sterk inn af bekknum með 9 stig.

Emma Sóldís gerði 12 stig hjá Fjölni í kvöld og var lipur í fyrri hálfleik en var rólegri í þeim síðari. Ciani og Sanja voru of lengi í gang að þessu sinni fyrir Fjölni og það var þeim dýrkeypt en Ciani var einni stoðsendingu frá þrennu með 16 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar.

Næst á dagskrá hjá nýliðum Njarðvíkur er útileikur gegn hinum nýliðum deildarinnar í Grindavík en sá leikur fer fram 13. október og Fjölnir mætir Keflavík þann sama dag.

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Umfjöllun / Jón Björn

Viðtöl & myndir / SBS

Fréttir
- Auglýsing -