spot_img
HomeFréttirNý stjórn Sundsvall fær nauman tíma til leggja spilin á borðið

Ný stjórn Sundsvall fær nauman tíma til leggja spilin á borðið

Eins og áður hefur komið fram hjá okkur á Karfan.is hefur verið vindasamt hjá Sundsvall Dragons í sænsku úrvalsdeildinni og landsliðsmiðherjinn Hlynur Bæringsson hefur ekki farið varhluta af vandamálum drekanna. Á leiktíðinni þurfti Hlynur m.a. að sitja af sér leik sem erlendur leikmaður Sundsvall vegna refsiaðgerða sænska körfuknattleikssambandsins á hendur Sundsvall.

Ný stjórn hefur nú verið skipuð hjá Sundsvall sem fær fimm daga til þess að leggja fram áætlun um hvernig útistandandi skuldir félagsins verði kláraðar og hvernig rekstur félagsins muni fara fram á næstunni. 

 

Nýr formaður Sundsvall Dragons er Lars Kallin og hans fyrsta embættisverk mun gera útslagið um hvort Sundsvall fái áframhaldandi leyfi til þess að taka þátt í sænsku úrvalsdeildinni. Kallin sagði við miðla í Svíþjóð að aðalmarkmið nýrrar stjórnar væri að tryggja áframhaldandi veru Sundsvall í efstu deild. 

 

Nú á næstu dögum mun ný stjórn meta ástand klúbbsins sem og ræða við körfuhafa og á fimmta degi er komið að því að sýna fram á afraskurinn við sænska sambandið og þá í raun bíða stóra dóms líkt og í Róm forðum, þumallinn upp eða niður?

 

Vandkvæði nýrrar stjórnar eru m.a. þau að óreiðan í rekstri félagsins er líkast til það langt leidd að síðasta stjórn sé búin að eyða féi klúbbsins sem m.a. kom frá styrktaraðilum sem ætlað var til reksturs tímabilið 2016-2017. 

 

„Þetta er ömurleg staða að vera í þó hún komi að sjálfsögðu ekki á óvart í ljósi síðustu ára,“ sagði Hlynur Bæringsson við Karfan.is í kvöld. „Ég ætla bara að sjá hvernig þetta fer allt saman en það kemur í ljós fljótlega,“ sagði Hlynur. 

 

Því er ekki loku fyrir það skotið að landsliðsmiðherjinn sé á förum úr drekabælinu en auk þess að hafa verið fórnarlamb dræmrar stjórnsýslu innan Sundsvall Dragons bitnaði það á honum á parketinu við það að sitja af sér leik vegna refsiaðgerða sambandsins og þá staðfesti Hlynur einnig við Karfan.is að hann ætti útistandani launagreiðslur hjá félaginu. 

Fréttir
- Auglýsing -