spot_img
HomeÚti í heimiEvrópaNý deild á Spáni ætluð til að stöðva hæfileikalekann til bandarískra háskóla

Ný deild á Spáni ætluð til að stöðva hæfileikalekann til bandarískra háskóla

Spænskur körfubolti hefur stigið sögulegt skref með stofnun U 22-deildar. Deildin hefur það að markmiði að stemma stigu við flótta ungra leikmanna til bandarískra háskóla og styrkja hóp efnilegra leikmanna innanlands. Það er körfuknattleikssamband Spánar, ACB deildin, CDC eða „Certified Basketball Association of Spain“ og menntamálaráðuneyti Spánar sem tóku höndum saman og kynntu þessa nýju deild um miðja þessa viku.

Pilar Alegría, mennta,- og íþróttaráðherra Spánar sagði við tilefnið að verkefnið væri sögulegt og að í framtíðinni muni það verða til þess fallandi að halda Spáni áfram í efsta lagi alþjóðaboltans.

Keppnisfyrirkomulag ekki enn ákveðið

Þótt U22-deildin sé nú orðin að veruleika, er keppnisfyrirkomulag hennar enn í mótun. Ekki hefur verið staðfest hvort öll ACB-liðin taki þátt. Markmið deildarinnar er að bjóða spennandi valkost fyrir unga spænska leikmenn, sem hafa á síðustu árum í auknum mæli valið að fara til bandarískra háskóla vegna þeirra samninga og tækifæra sem þar bjóðast.

Hæfileikalekinn vaxandi vandamál

Nýjasta dæmið er Mario Saint-Supery, leikstjórnandi Unicaja og leikmaður yngri landsliða Spánar, sem mun nú bætast í hóp spænskra leikmanna sem kjósa að halda áfram þróun sinni í Bandaríkjunum. Önnur þekkt nöfn eins og Baba Miller, Aday Mara og Almansa keppa nú þegar í bandaríska háskólakerfinu, sem hefur valdið forráðafólki körfuboltans á Spáni umtalsverðum áhyggjum.

Auk Saint-Supery hafa ungir leikmenn eins og Sidi Gueye (Real Madrid), Guillermo del Pino (Unicaja) og Dame Sarr (Barcelona) einnig leitað tækifæra utan Spánar, sem í augum Spánverja undirstrikar mikilvægi aðgerða eins og U22-deildarinnar.

Fjárhagsleg hvatning og fyrirhugað leikjafyrirkomulag

Til að hvetja félög til þátttöku fylgir verkefninu fjárhagsleg hvatning upp á 200.000 Evrur fyrir þau lið sem taka þátt. Þó leikjaplanið hafi ekki verið fullmótað, er upphaflega hugmyndin sú að leikir fari fram á föstudögum eða laugardögum, með það að markmiði að rekast sem minnst á við dagskrá ACB-deildarinnar.

Mynd/ Mario Saint-Supery er einn þeirra leikmanna frá Spáni sem hefur söðlað um og sest að í Bandaríkjunum.

Fréttir
- Auglýsing -