spot_img
HomeFréttirNú lágu Danir í því

Nú lágu Danir í því

11:06
{mosimage}

 

(Örn Sigurðarson átti góðan dag í teignum) 

 

U 18 ára lið Íslands var rétt í þessu að vinna góðan 75-65 sigur á gömlu herraþjóðinni Danmörku á Norðurlandamóti unglinga í Solna. Strákarnir hafa leikið glimrandi vel eftir miður góðan leik gegn Finnum í upphafi móts. Íslenska liðið barðist af krafti og léku af skynsemi og unnu verðskuldaðan sigur þrátt fyrir að skyttan öfluga Jacob Wang hefði gert Íslendingum erfitt fyrir með sjö þriggja stiga körfum. Heitar hendur Wang máttu sín á endanum lítils gegn svölu yfirbragði Íslendinganna. Miðherjinn Örn Sigurðarson var stigahæstur í dag með 14 stig en honum næstur var Ægir Þór Steinarsson með 13 stig.

 

Íslenska liðið byrjaði vel og leiddu strákarnir 22-16 eftir fyrsta leikhluta þar sem Haukur Óskarsson var að hitta vel. Ólafur Ólafsson barðist venju samkvæmt af krafti en hann var með 10 fráköst í dag. Fyrrnefndur Jacob Wang gerði Íslendingum skráveifu með þriggja stiga skotum sínum en hann setti niður 7 af 11 þristum í dag. Þristarnir komu gegn svæðisvörn Íslands sem að öðru leiti var þétt og samstíga.

 

Staðan í hálfleik var 47-42 Íslendingum í vil en í þriðja leikhluta hófu Danir að saxa á forskotið og staðan 62-60 Íslandi í vil eftir þriðja leikhluta. Ægir Þór Steinarsson fékk smávægilegt högg á hnéð sem hann meiddi fyrr á mótinu og haltraði af velli en fékk aðhlynningu og var fljótt kominn aftur inn í leik liðsins.

 

Í fjórða leikhluta komust Danir yfir 62-63 með þriggja stiga körfu og létu öllum illum látum en íslensku piltarnir létu það ekki á sig fá heldur lokuðu algerleg á Dani í sókninni eftir þetta. Næstu tíu stig komu frá Íslendingum og kom Sigfús Árnason Íslandi í 73-63 og þar með var danski björninn unninn. Lokatölur voru svo 75-65 Íslendingum í vil og annar sigur U 18 ára karlaliðsins í röð kominn í höfn. Ísland hefur því tapað gegn Finnum en lagt Svía og Dani. Á morgun mæta þeir Norðmönnum.

 

Flest allir piltarnir sem komu við sögu í dag voru að standa sig vel. Bestir í liðinu voru þeir Örn Sigurðarson, Ægir Þór Steinarsson og Sigfús Árnason.

 

{mosimage}

(Arnþór Freyr smellir einum þrist yfir Dani)

 

Stigaskor Íslands

 

Örn Sigurðarson 14

Ægir Þór Steinþórsson 13

Haukur Óskarsson 12

Sigfús Árnason 10

Ólafur Ólafsson 9/ 10 fráköst

Arnþór Freyr Guðmundsson 9

Tómas Tómasson 4

Þorgrímur Guðni Björnsson 2

Snorri Páll Sigurðsson 2

 

[email protected]

 

{mosimage}

(Snorri Páll í teigbaráttunni)

Fréttir
- Auglýsing -