Fjölnismenn geta andað ögn léttar eftir frækinn sigur í Fjósinu í kvöld og með sigrinum jöfnuðu þeir úrslitaeinvígið í 1. deild karla gegn Skallagrím. Lokatölur voru 85-91 þar sem þristur Róberts Sigurðssonar þegar 51 sekúnda lifði leiks skildi á milli feigs og ófeigs. Að þessu sinni voru það Fjölnismenn sem rifu í hornin á pressunni frægu og snéru hana til jarðar og fögnuðu sigri, í fyrsta leik var það hlutskipti Skallagrímsmanna að vinna bug á pressunni svo það verður fróðlegt að sjá hvað þriðji leikurinn hefur í för með sér.
Collin Pryor splæsti í sannkallaða tröllatvennu fyrir Fjölni í kvöld með 27 stig og 25 fráköst en Jean Rony Cadet setti 35 stig og tók 11 fráköst í liði Skallagríms en Cadet var einnig með 7 stoðsendingar svo hann gerði heiðarlega atlögu að þrennunni í kvöld. Liðin mætast í sínum þriðja leik í Dalhúsum í Grafarvogi þann 20 apríl næstkomandi.
Liðin komu fjörlega upp úr startblokkunum, hraður leikur og hinar þokkalegustu varnir þó aðeins þrjár villur hafi verið dæmdar í leikhlutanum. Cadet var að finna sig fyrir framan sitt fólk sem mætti ekki aðeins með trommur…heldur heilt trommusett takk fyrir! Cadet sýndi hvers hann er megnugur í háloftunum með nokkrum troðslum og þá varði hann skot ofar en flestir komast. Skallagrímur leiddi 20-14 að loknum fyrsta leikhluta.
Árni Elmar Hrafnsson boðaði hertan róður í liði Fjölnis í öðrum leikhluta, lék af festu reyndar allar þær tæpu 16 mínútur sem hann kom við sögu í kvöld. Fjölnismenn jöfnuðu 26-26 með þrist frá Árna en heimamenn leiddu engu að síður 44-43 í hálfleik. Kristófer Gíslason var að leika glimrandi í liði Skallagríms í kvöld en Cadet sá um sóknarvagninn í fyrri hálfleik með 19 stig og 6 fráköst og Pryor var þegar búinn að stimpla inn tvennu sína í fyrri hálfleik með 14 stig og 12 fráköst.

Í þriðja leikhluta fengu gestirnir byr undir báða vængi, Róbert Sigurðsson splæsti í þrist og Egill Egilsson sendi einn líka yfir sína gömlu liðsfélaga í Skallagrím og jók muninn í 61-69. Varnarleikur heimamanna sem fór vel af stað var farinn að gefa eftir en að sama skapi voru gestirnir að finna fín skot með góðri boltahreyfingu og þristanýtingin hjá þeim í kvöld var sterk eða 41% (10-24).
Skallagrímsmenn létu ekki stinga sig af á heimavelli og gerðu fimm stig í röð til að loka þriðja leikhluta og minnkuðu muninn í 69-71 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða og síðasta leikhlutann og ljóst að hér yrði annar naglbítur á ferðinni rétt eins og í Dalhúsum.
Þegar um sex og hálf mínúta lifðu leiks minnti Egill Egilsson aftur á sig í liði Fjölnis með þrist sem kom gestunum yfir 72-79. Nú var sá tími dottinn á leikinn hvar Fjölnismenn fóru í baklás í fyrsta leiknum og framan virtist það sama ætla að gerast í kvöld!
Fjölnir skoraði ekki í fjórar mínútur í röð og ekki laust við að nokkuð færi um stuðningsmenn og þjálfarateymi gestanna við að horfa upp á þetta því Borgnesingar minnkuðu muninn aðeins í 76-79 og geta gestirnir þakka það góðum varnarleik því 4-0 „rönn“ á fjórum mínútum telst tæplega vera „rönn“ eins og maðurinn sagði.
Bergþór Ægir Ríkharðsson losaði um sóknarhömlur Fjölnismanna en hann var gríðarlega sterkur hjá Fjölni í kvöld með 20 stig og 4 fra´köst. Fyrst skoraði hann eftir sóknarfrákast 78-81 og aftur 79-83 þegar innan við tvær mínútur voru eftir. Þegar 51 sekúnda lifði leiks kom Róbert Sigurðsson og gerði útslagið, skotklukka Fjölnis var við það að renna út svo Róbert, af Curry-færi, smellti niður þrist og kom Fjölni í 79-86. Heimamenn áttu ekki erindi eftir þetta og Fjölnir lokaði leiknum 85-91.
Bestu menn Fjölnis í kvöld: Collin Pryor, Bergþór Ægir Ríkharðsson og Róbert Sigurðsson.
Bestu menn Skallagríms í kvöld: Jean Rony Cadet, Kristófer Gíslason og Davíð Ásgeirsson.
Skallagrímur-Fjölnir 85-91 (20-14, 24-29, 25-28, 16-20)
Skallagrímur: Jean Rony Cadet 35/11 fráköst/7 stoðsendingar, Kristófer Gíslason 13/7 fráköst, Davíð Ásgeirsson 11/4 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 10/4 fráköst/7 stoðsendingar, Hafþór Ingi Gunnarsson 6/6 fráköst, Kristján Örn Ómarsson 5, Davíð Guðmundsson 3, Hamid Dicko 2, Hjalti Ásberg Þorleifsson 0, Þorsteinn Þórarinsson 0, Bjarni Guðmann Jónson 0, Guðbjartur Máni Gíslason 0.
Fjölnir: Collin Anthony Pryor 27/25 fráköst, Bergþór Ægir Ríkharðsson 20/4 fráköst, Róbert Sigurðsson 15/5 fráköst/7 stoðsendingar, Egill Egilsson 12/6 fráköst, Sindri Már Kárason 6, Árni Elmar Hrafnsson 6/5 stoðsendingar, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 3, Valur Sigurðsson 2, Þorgeir Freyr Gíslason 0, Garðar Sveinbjörnsson 0, Alexander Þór Hafþórsson 0, Smári Hrafnsson 0.
Viðureign: 1-1
Viðtal við Róbert Sigurðsson eftir leik
Viðtal við Davíð Ásgeirsson eftir leik
Myndir, umfjöllun og viðtöl/ Jón Björn



