Netverslunin Solestory stóð á dögunum fyrir bracket-leik í tengslum við March Madness úrslitakeppnina í bandaríska háskólaboltanum. Villanova skólinn varð meistari eins og Karfan.is hefur þegar greint frá en ár hvert þykir það mikill viðburður þegar körfuhundar taka sig til og raða í svokallað „bracket“ sem spáir fyrir um útkomu keppninnar.
Solestory.se hélt bracket-leik og stórskyttan Magnús Þór Gunnarsson rúllaði upp þeim leik, eiginlega gerði hann gott betur því líkast til hefur sjálfur Nostradamus fengið veður af þessum spádómi því Magnús var í hópi 0,001% þeirra á heimsvísu yfir hversu nákvæmur „bracket-inn“ hans var.
Maggi Gun á því von á stoðsendingu frá sænsku versluninni bráðlega en þegar Karfan.is náði í skottið á kappanum í dag sagði hann: „Ég bara fann þetta á mér“ – eflaust viðeigandi lína fyrir alla þá óteljandi þrista sem vélbyssan hefur sleppt á loft, einkenni góðrar skyttu eru m.a. þau að finna alltaf á sér að boltinn sé á leið í körfuna!



