spot_img
HomeFréttirNorðurlandamótið 2022 á enda – Karfan þakkar fyrir sig

Norðurlandamótið 2022 á enda – Karfan þakkar fyrir sig

Norðurlandamóti undir 16 og 18 ára drengja og stúlkna lauk í dag í Kisakallio í Finnlandi. Öll stóðu liðin sig vel þetta árið og unnu þrjú þeirra, U16 drengja, U18 drengja og U18 Stúlkna til bronsverðlauna á mótinu. U16 stúlknaliðið sýndi einnig stöðugar framfarir frá fyrsta leik til þess síðasta þrátt fyrir að hafa hafnað í fimmta sæti mótsins.

Hérna eru fréttir af Norðurlandamótinu 2022

Gaman var að sjá að bæði Birkir Hrafn Eyþórsson (U16 Drengja) og Róbert Sean Birmingham (U18 Drengja) voru valdir í fimm manna stjörnulið mótsins þetta árið, en báðir skiluðu góðum einstaklingsframmistöðum í leikjunum fimm. Birkir Hrafn bar af í U16 liði Íslands á mótinu, skilaði 20 stigum, 5 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leikjunum fimm. Í nokkuð jöfnu U18 liði Íslands var Róbert Sean jafn bestur, með 14 stig, 5 fráköst og 2 stoðsendingar að meðaltali í leik á mótinu.

Enn eiga nokkur viðtöl og viðbrögð eftir að berast inn á Körfuna frá leikmönnum og starfsmönnum liðanna af mótinu og gert er ráð fyrir að það muni allt skila sér á næsta sólarhringnum.

Karfan vill þó nota þetta tækifæri til þess að þakka Körfuknattleikssambandinu, stjórninni og starfsmönnum, sérstaklega afreksstjóranum Kristni Geir Pálssyni fyrir stuðninginn og samstarfið bæði þetta árið, sem og öll þau ár sem á undan hafa farið. Því það er vissulega svo að Karfan láti af hendi sjálfboðaliða í verkefnið á hverju ári, en án trausts og vilja til samstarfs frá þeim væri miðillinn ekki að sinna því starfi að fylgja þessum efnilegu krökkum eftir.

Fréttir
- Auglýsing -