spot_img
HomeFréttirNóg um að vera hjá dómurum á NM

Nóg um að vera hjá dómurum á NM

Norðurlandamót yngri landsliða er nýafstaðið en það fór venju samkvæmt fram í Solna í Svíþjóð. Hver þjóð tekur dómara með sér í verkefnið og frá Íslandi að þessu sinni fóru fjórir dómarar, þeir Georg Andersen, Steinar Orri Sigurðsson, Davíð Tómas Tómasson og Davíð Kr. Hreiðarsson.
 
Kristinn Óskarsson fór sem FIBA Instructor frá Íslandi en ásamt því að dæma leiki við mótið sóttu dómararnir námskeið jafnhliða Norðurlandamótinu. Eins og meðfylgjandi mynd gefur til kynna þá er Norðurlandamótið ekki eintóm lognmolla en þegar Finnar og Svíar mættust í leik U18 ára landsliða hafði finnski þjálfarinn ekki lengur þolinmæði fyrir hlutunum og Steinar Orri sendi hann í sturtu.
 
Vissulega er það mikið verk að dekka alla leikina hjá íslensku liðunum en stöku sinnum hefst það að fylgjast með íslensku dómurunum að störfum á mótinu en þeir íslensku, eins og gefur að skilja, dæma ekki leiki Íslendinga á mótinu. Án þess að hafa fræðilegan kvarða eða önnur tæki til að mæla hæfni við þessa fullyrðingu þá hafa íslensku dómararnir oftar en ekki borið höfuð og herðar yfir kollega sína sem eru að dæma á Norðurlandamótinu og var árið í ár engin undantekning.
 
Við settum okkur í samband við Kristinn Óskarsson sem var úti í Solna á Norðurlandamótinu sem FIBA Instructor frá Íslandi:
 
„Námskeiðið er á vegum FIBA Europe og er ávalt einhver VIP sem sér um það. Þetta er að morgni allra keppnisdaganna og þar er farið yfir þær áherslur sem FIBA vill sjá og mikið magn kennsluefnis er skoðað. Victor Mas virtur Commissioner frá Spáni var fulltrúi FIBA á námskeiðinu og hélt magnaða fyrirlestra um samræmi í dómgæslu, m.a. um óíþróttamannslegar villur, ólöglega notkun handa, skref, framkomu þátttakenda og fleiri hluti. Mas er reyndur dómari sjálfur og dæmdi hann m.a. á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992. Hann horfði einnig á marga leiki í Solna og gaf dómurunum endurgjöf, rétt eins og alþjóðlegu dómaraleiðbeinendur hvers lands gerðu (FIBA Instructors) en okkur var raðað á leikina rétt eins og dómurum.
 
Ég nýtti mér 400.000 króna hugbúnað sem Dómarafélagið (KKDÍ) fjárfesti í í fyrra og fór strax í leikslok yfir 20-30 klippur um áhugaverð og lærdómsrík atvik úr leiknum með dómurunum. Það gekk vel.
 
Svona mót eru gríðarlega erfið fyrir dómarana, morgunmatur á hótelinu, fundur úti í bæ klukkan níu, hádegismatur í skóla, leikur í íþróttahúsi, sturta og snarl, annar leikur t.d. í öðru íþróttahúsi (t.d. kl. 21) þá á eftir að fara yfir leikinn, fara í sturtu, borða og þvo dómaragallann og koma sér í háttinn á hótelinu sem var í korterskeyrlu frá íþróttahúsinu. Mikill tími fer í að koma sér á milli staða og láta allt ganga upp. Menn koma lúnir heim enda erfitt að dæma 8 leiki á 5 dögum eins og okkar menn gerðu. En menn fá mikið út úr þessu og eru sólgnir í faglega gagnrýni og þrá ekkert heitar en að fá tækifæri til að vaxa.“
 
Mynd/ Heiða – Steinar Orri sendir finnska U18 ára þjálfarann í sturtu úti á Norðurlandamótinu. 
  
Fréttir
- Auglýsing -