spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaNjarðvískur sigur í naglbít í Hveragerði

Njarðvískur sigur í naglbít í Hveragerði

Þrátt fyrir storm og lokanir á helstu akstursleiðum, þá fundu Njarðvíkurstúlkur sér leið til Hveragerðis, öðru nafni nefnt paradís Suðurlands!

Leikur dagsins bauð upp á miklar sveiflur, hörku og keppnisskap frá báðum liðum, allt eins og það á að vera!

Fyrsti leikhluti var allur í járnum, bæði lið voru vel á tánum í sínum varnarleik og buðu upp á maður á mann vörn. 12-14 Njarðvík í vil eftir fyrsta leikhluta.

Njarðvíkur stúlkur mæta grimmari til leiks og ná að koma muninum upp í 10 stig þegar 2.leikhluti er hálfnaður. Eftir að Karl Ágúst þjálfari Hamars tók leikhlé þá breyttist leikurinn örlítið og Hamarsstúlkur ná að minnka muninn niður í 6 stig.

Staðan 25-31 í hálfleik fyrir Njarðvík.

Njarðvíkurstúlkur byrja seinni hálfleik mun betur en Hamar. Hamarsstúlkur áttu erfitt með að ráða við Vilborgu Jónsdóttur sem var dugleg að keyra upp að körfu Hamars og finna liðsfélaga sína í opnum færum. Mestur fór munurinn upp í 17 stig en þá var þjálfara Hamars nóg boðið og tók leikhlé. Eftir leikhléið þá brydda Hamarsstúlkur upp á klassískri 2-3 svæðisvörn.

Eitthvað náði þessi vörn að riðla til taktinum hjá Njarðvík. Þó nokkrir tapaðir boltar af hálfu Njarðvíkur sem leiddu til sniðskots á hinum enda vallarins urðu til þess að Ragnar og Rúnar Ingi þjálfarateymi Njarðvíkur sáu sig knúna til þess að taka leikhlé. Eftir leikhlé koma Njarðvíkurstúlkur klárar og með allar lausnir til þess að tæta þessa svæðisvörn í sig en Karl Ágúst var með krók á móti bragði og breytti aftur í maður á mann vörn. Það tók Njarðvíkurstúlkur 3 sóknir til þess að átta sig á því að Hamarsliðið væri hætt í svæðisvörninni. 39-48 er staðan eftir heila 3 leikhluta.

Hamarsstúlkur mæta grimmari til leiks í 4.leikhluta og hægt og smátt þá ná þær að brúa bilið niður í 1 stig áður en leikhlutinn er hálfnaður og náðu að halda Njarðvíkurstúlkum alveg í skefjum. Hamarsstúlkur fengu þó nokkur tækifæri til þess að komast yfir á þessum kafla. Njarðvík setti stóran þrist þegar fjórar mínútur lifðu leiks og þess ber að nefna að þetta var fyrsta karfa þeirra í leikhlutanum.

Leikurinn á seinustu 4 mínútum leiksins var eins og gæða borðtennisleikur þar sem fá stig voru skoruð en leikurinn hraður og skutust leikmenn fram og tilbaka á vellinum. Þegar rétt um ein mínúta er eftir af leiknum þá ná Hamarsstúlkur að jafna leikinn með góðum þristi eftir gott samspil þeirra á milli. En með yfirvegun og smá klókindum að þá náðu Njarðvíkurstúlkur að landa sigrinum. Lokastaða 51-54 fyrir Njarðvík.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / HB

Fréttir
- Auglýsing -