Njarðvík lagði Keflavík 93-102 í sjöttu umferð Bónusdeildar kvenna í kvöld. Að vanda skemmtileg og spennandi rimma hjá þessum nágrannaliðum þar sem grænar fóru heim með stigin tvö. Dinkins fór mikinn hjá Njarðvík og Washington var sterk sömuleiðis Keflavíkurmegin. Njarðvíkingar halda því áfram við topp deildarinnar með fimm sigra og eitt tap eftir sex umferðir og Keflavík með þrjá sigra og þrjú töp.
Fyrsti leikhluti var jafn og spennandi, Sara Rún tók af skarið hjá heimakonum í Keflavík og Hersler var beitt hjá gestunum frá Njarðvík. Hersler var s.s. mætt aftur í búning eftir að hafa hvílt síðasta leik gegn Grindavík vegna meiðsla en Helena Rafnsdóttir var enn fjarverandi í liði Njarðvíkinga. Njarðvík leiddi 25-26 að loknum fysta leikhluta þar sem Pauline var með 8 stig og Sara Rún 12 í liði Keflavíkur.
Keflvíkingar voru mun ferskari aðilinn í öðrum leikhluta, unnu þessar 10 mínútur 31-23 og settu m.a. 41 stig á Njarðvík á fyrstu 14 mínútum leiksins. Anna Ingunn sendi svo Keflavík með stemmninguna sín megin inn í hálfleik er hún skellti niður þrist með nokkrar sekúndur eftir og Keflvíkingar leiddu 56-49 í hálfleik.

Sara Rún var mögnuð í fyrri hálfleik með 18 stig og Keishana var henni næst með 11. Hjá Njarðvík var Pauline með 16 og Dani 13. Keflvíkingar voru með 46% þriggja stiga nýtingu í fyrri hálfleik en Njarðvík aðeins 18% og Lára Ösp með báða þristana í jafn mörgum tilraunum.
Dinkins fór á kostum fyrir Njarðvík í þriðja leikhluta og Keflavíkurmegin var Keishana sömuleiðis að gera vel. Dinkins gerði sjö stig í röð fyrir Njarðvík og jafnaði leikinn 60-60. Njarðvíkingar unnu þriðja leikhluta 25-28 en Keflvíkingar leiddu þó áfram 81-77 eftir 30 mínútur og spennandi fjórði leikhluti í vændum.
Í fjórða leikhluta tókst Njarðvík að sauma saman þau varnarstopp sem vantaði fyrstu þrjá leikhlutana og héldu Keflvíkingum stigalausum fyrstu þrjár mínútur fjórða leikhluta. Þegar tæpar tvær mínútur lifðu leiks var staðan 90-93 fyrir Njarðvík og gestirnir létu það forskot ekki frá sér og lönduðu að lokum 93-102 sigri.
Dinkins var með 34 stig hjá Njarðvík í kvöld og var stórhættuleg í síðari hálfleik. Hún var einnig með 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Pauline bætti við 26 stigum og 8 fráköstum og Danielle Rodriguez var með 18 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar. Hjá Keflavík var Keishana Washington með 30 stig, 5 fráköst og 11 stoðsendingar. Sara Rún bætti svo við 23 stigum og 4 fráköstum.
Eins og við var að búast buðu Reykjanesbæjarliðin Njarðvík og Keflavík upp á spennuslag, hátt stigaskor og góða skemmtun. Það verður spennandi að mæta á næstu deildarviðureign þessara liða áður en langt um líður.



