spot_img
HomeFréttirNjarðvíkursigur í spennuleik

Njarðvíkursigur í spennuleik

09:45

{mosimage}

Njarðvík vann nauman sigur á Grindavík í uppgjöri toppliðanna í Iceland-Expressdeild karla í körfuknattleik í kvöld, 76-73. Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi til enda, en Njarðvíkingar, sem léku á heimavelli voru lengst af með frumkvæðið.

Í fyrsta leikhluta heyrði það helst til tíðinda að fyrirliðar beggja liða, Friðrik Stefánsson hjá Njarðvík og Páll Axel Vilbergsson hjá Grindavík, fengu þrjár villur dæmdar á sig hvor og má segja að hvorugur hafi borið sitt barr í leiknum eftir það.

Egill Jónasson stóð sig vel í fjarveru Friðriks, en hann var einn allra besti maður vallarins þrátt fyrir að vera tæpur fyrir leikinn vegna meiðsla. Steven Thomas reyndist Njarðvíkingum erfiður og bar sóknarleik liðsins með Páli Kristinssyni.

Eftir fyrsta leikhluta var staðan 21-18. Annar leikhluti byrjaði með miklum látum þar sem liðin skiptust á að skora úr stuttum, hröðum sóknum. Þorleifur Ólafsson fann aldeilis fjölina sína í leikhlutanum, en hann kom Grindvíkingum yfir með þriggja stiga körfu og bætti þremur slíkum við fyrir hálfleik. Njarðvíkingar hertu á vörninni í þegar leið á og höfðu forystu, 49-44 þegar liðin héldu inn í klefa.

Fyrstu mínútur seinni hálfleiks enkenndust öðru fremur af mikilli baráttu. Grindvíkingar stilltu upp svæðisvörn sem heimamenn áttu í stakasta basli með. Grindvíkingar gengu á lagið og náðu forystunni á ný með 3ja stiga körfum frá Þorleifi og Páli Axeli og þá tók Einar Árni leikhlé í stöðunni 52-54.

Tveir mikilvægustu leikmenn Njarðvíkur, Friðrik og Jeb Ivey, höfðu ekki nokkurn vegin verið að finna sig, en þá stigu þeir Egill og stórskyttan Kristján Sigurðsson upp og réttu kúrsinn hjá sínum mönnum og breyttu stöðunni í 61-54.

Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindvíkinga, var mættur í sinn fyrsta leik á gestabekknum í Ljónagryfjunni eftir hundruð leikja fyrir Njarðvík og ætlaði ekki að leggja árar í bát. Hann stappaði stálinu í sína menn fyrir lokasprettinn og voru þeir ekki lengi að koma sér aftur inn í leikinn.

Páll Kristinsson var sínum gömlu félögum erfiður undir körfunni og Grindvíkingar söxuðu smátt og smátt á forskotið. Daninn Adam Darboe jafnaði svo leikinn með glæsilegu 3ja stiga skoti þegar um 2 mínútur voru eftir, 71-71.

Jóhann Árni Ólafsson kom Njarðvík aftur yfir af miklu harðfylgi en hinum megin á  vellinum klikkaði Páll Kristinsson úr tveimur vítum, en Thomas bætti upp fyrir hann með skoti úr teignum eftir sóknarfrákast og jafnaði á ný.

Jóhann Árni fór á línuna þegar 24 sek voru eftir og setti seinna vítið eftir að hafa brugðist bogalistin í því fyrra.

Grindvíkingar létu tímann líða í sókninni og ætluðu að eiga síðasta skotið, en Páll Axel hitti ekki úr skotinu og Þorleifur, sem náði sóknarfrákastinu, steig útaf og tapaði boltanum þegar 2 sek voru eftir.

Brotið var á Brenton Birmingham sem hitti úr báðum skotunum og jók muninn í 3 stig þegar 0.6 sek var eftir. Sá tími nægði gestunum ekki og Njarðvíkingar fögnuðu innilega, enda unnu Grindvíkingar í báðum viðureignum liðanna í fyrravetur.

Frétt og mynd: vf.is

Fréttir
- Auglýsing -