spot_img
HomeFréttirNjarðvíkurlaus úrslitakeppni eftir tap í Þorlákshöfn

Njarðvíkurlaus úrslitakeppni eftir tap í Þorlákshöfn

Nú í kvöld mættust lið Þórs frá Þorlákshöfn og Njarðvíkur. Njarðvíkingar að berjast fyrir því að komast í úrslitakeppnina og allt undir hjá þeim en Þórsarar komnir í úrslitakeppnina og því einungis í baráttu um hvaða sæti þeir hreppa í úrslitakeppninni. Njarðvíkingar mættu vel í stúkuna og voru mættir vel fyrir leik að styðja sína menn áfram

Fyrsti leikhluti fór fjörlega af stað, mikill hraði og mikið um auðveldar körfur, varnir liðanna ekki alveg mættar en sóknarleikur beggja liða var mjög flottur. Skiptingar Einars Árna voru að skila honum flottu framlagi í fyrsta leikhlutanum en Grétar Ingi Erlendsson og Halldór Garðar Hermannsson komu sterkir inn af bekknum fyrir Þórsliðið. Staðan að loknum fyrsta leikhluta 25-19 Þór í vil.

 

Annar leikhluti hélt uppteknum hætti, Þórsarar mikið öflugri og byrjuðu á að keyra yfir Njarðvíkinga. Gestirnir voru mikið að tapa boltanum og Þórsarar voru fljótir að refsa þeim fyrir það. Logi Gunnarsson var öflugastar fyrir sína menn og dróg Njarðvíkinga áfram í leiknum til að byrja meðen hann tók eitt 4-point play svo við slettum á enskunni og setti strax niður annan þrist og hleypti lífi í Njarðvíkinga. Liðin bæði ennþá að spila mikla sókn og vörnin ekki upp á marga fiska en þó að skána en bæði lið voru alltof mikið að tapa boltanum. Þórsarar þó ennþá skrefinu á undan og staðan í hálfleik 44-36 Þór úr Þorlákshöfn í vil. Logi Gunnarsson frábær í fyrri hálfleik með 19 stig og næsti maður á eftir var Myron Dempsey með 8. Í liði Þórsara var Ólafur Helgi atkvæðamestur með 12 stig og á eftir honum kom Maciek Baginski með 11, fyrrum Njarðvíkingar að fara fyrir liði Þórsara í þessum leik.

 

Njarðvíkingar mættu grimmari til leiks í seinni hálfleik og fóru þeir að saxa á forskot Þórsara hægt og rólega en Þórsarar virkuðu mjög kæruleysislegir og boltinn neitaði að fara ofan í hjá þeim um tíma. Jóhann Árni og Logi Gunnars settu niður nokkrar risakörfur fyrir gestina og minnkuðu muninn niður í eitt stig þegar 3:30 voru eftir af þriðja leikhluta. Þórsarar náðu þó að slíta sig frá þeim og stigu á bensíngjöfina aftur og leiddu með 7 stigum þegar síðasti leikhlutinn fór í gang 62-55. 

 

Mikil spenna var í loftinu fyrir lokaleikhlutann. Njarðvíkingar unnu sig aftur hægt og bítandi inn í leikinn og minnkuðu muninn aftur niður í 1 stig þegar 6 mínútur lifðu leiks. Hittnin ekki alveg með Þórsurum. Njarðvíkingum tókst að jafna leikinn en Halldór Garðar setti niður einn risa þrist og Tobin Carberry annan strax í kjölfarið og ísuðu þeir áhlaup Njarðvíkinga vel með þessum þristum. Njarðvíkingar reyndu hvað þeir gátu en viti menn Halldór Garðar Hermannsson setti niður annan þrist og rak þar með síðasta naglann í kistuna fyrir Njarðvík tímabilið 2016-2017, þvílik innkoma hjá Halldóri Garðari! Leik lokið með 13 stiga sigri Þórsara 83-70.

 

Stigin skiptust svona

Þór Þorlákshöfn: Tobin Carberry 22, Maciek Baginski 16, Ólafur Helgi Jónsson 16, Halldór Garðar Hermannsson 13, Emil Karel Einarsson 6, Grétar Ingi Erlendsson 6, Ragnar Örn Bragason 4.

 

Njarðvík: Logi Gunnarsson 27, Myron Dempsey 18, Jóhann Árni Ólafsson 10, Björn Kristjánsson 7, Snjólfur Stefánsson 6, Jón Arnór Sverrisson 2.

 

Lykillinn

Lykillinn að sigri Þórsarar voru liðsheildin og baráttan auk framlag bekkjarins. Þrátt fyrir mikla baráttu og áhlaup Njarðvíkinga gáfust Þórsarar ekki upp og héldu áfram að berjast. Einar og Baldur þjöppuðu liðinu vel saman í leikhléum og náðu Þórsarar alltaf að slíta sig frá Njarðvíkingum þegar lítið var eftir af leikhlutunum. Annað sem verður að nefna er framlag Þórsara af bekknum. Halldór Garðar Hermannsson og Grétar Ingi Erlendsson komu flottir inn af bekknum í leiknum í kvöld og voru þeir með samanlögð 19 stig og 22 framlagspunkta á móti því að bekkurinn hjá Njarðvík var með 2 stig og 0 framlagspunkta, þarna vinnst leikurinn. 

 

Stuðningurinn

Stúkan var troðfull bæði af Þorlákshafnarbúum sem og Njarðvíkingum. Stuðningur beggja liða var frábær og var mikil stemning í húsinu. Þetta minnti á leik í úrslitakeppninni og var þessi leikur frábær skemmtun.

 

Eftirsjáin

Við sjáum á eftir Njarðvík í úrslitakeppninni. Njarðvíkingar hafa verið fastagestir í úrslitakeppninni í áranna raðir og alltaf verið mjög skemmtilegt lið þar og hafa margoft komið á óvart og farið langt. Leikurinn í kvöld var þeim mjög erfiður og spiluðu Þórsarar ágætis vörn á stóru menn Njarðvíkur. Myron Dempsey skilaði sinni vinnu þó fyrir Njarðvíkurliðið í kvöld með 18 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar en ekki verður það sama sagt um Jeremy Atkinson, Jeremy fann sig alls ekki í þessum leik og var algjörlega fjarverandi. Hann skorar 2 stig á þeim rúmlega 8 mínútum sem hann spilar og þessar mínútur sem hann var inná virtist hann áhugalaus og þreyttur. 

 

Úrslitakeppnin

Þórsarar fara með flottan meðbyr inn í úrslitakeppnina en þeir fara með 2 sigra á bakinu í röð og mæta þar Grindvíkingum í 1.umferð úrslitakeppninnar. Grindvíkingar eru á miklu flugi um þessar mundir og verður ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með þessum liðum kljást í úrslitakeppninni en þessi lið hafa eldað grátt silfur saman í gegnum tíðina. 

 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn

 

Umfjöllun / Axel Örn Sæmundsson

Mynd / Jón Björn Ólafsson

 

Fréttir
- Auglýsing -