spot_img
HomeFréttirNjarðvíkingar unnu á Króknum(Umfjöllun)

Njarðvíkingar unnu á Króknum(Umfjöllun)

23:11

{mosimage}

Njarðvík kom á Krókinn í kvöld og mætti heimamönnum í Tindastóli. Njarðvíkingar í baráttu um 4. sætið í deildinni, en Stólarnir með augastað á sæti í úrslitakeppninni. Byrjunarlið gestanna var Friðrik, Damon, Sverrir, Brenton og Hörður. Fyrir Tindastól voru það Samir, Philip, Svavar, Ísak og Joshua sem stigu fyrstir fram á gólfið.

Njarðvík byrjaði leikinn betur á meðan Stólarnir voru með nokkrar feilsendingar í sókninni og voru seinir aftur og fengu mörg stig í bakið. Heimamenn héngu þó í gestunum framan af og staðan 9-11 eftir fjórar mínútur. Þá sigu þeir grænklæddu hægt og rólega framúr, á meðan ekkert gekk í haginn fyrir heimamenn, hvorki í vörn eða sókn. Njarðvík byggði upp gott forskot fyrir 2. leikhluta og leiddu með 15 stigum eftir fyrsta leikhluta.

Þeir juku svo aðeins við forskotið í byrjun þess annars og eftir þrjár mínútur af honum var staðan 22-39. Þá hrukku loks Stólarnir í gang og skoruðu 13-2 á Njarðvík og var það ekki síst að þakka Samir sem setti niður þrjá þrista á þessum tíma. Gestirnir rönkuðu þá aðeins við sér og juku forskotið aftur í níu stig. Tindastóll átti svo góðan sprett fyrir hlé og minnkuðu muninn í eitt stig, en Damon Bailey skoraði síðustu körfu hálfleiksins og Njarðvík leiddi 48-51 í hálfleik. Heimamenn komnir aftur inn í leikinn eftir slaka byrjun og útlit fyrir spennandi síðari hálfleik.

Ekki reyndist sú raunin þegar til kom því Njarðvík svaraði áhlaupi Tindastóls í fyrri hálfleik með góðri byrjun í síðari hálfleik og náðu fljótlega 12 stiga forskoti sem þeir létu síðan aldrei af hendi það sem eftir var. Staðan fyrir síðasta fjórðung 64-76.

Stólarnir reyndu að saxa á forskotið en áttu lítið erindi í það í kvöld og Njarðvík landaði níu stiga sigri í restina 87-96. Stólarnir áttu einn góðan leikhluta í kvöld, en náðu sér annars ekki á strik. Of margar feilsendingar og önnur mistook einkenndu leik liðsins á löngum köflum. Njarðvíkingar voru ekki að sýna neinn stórleik á Króknum í kvöld og þurftu þess reyndar kannski ekki. Brenton var bestur gestanna, sérstaklega í síðari hálfleik. Damon, Sverrir og Hörður áttu allir fínann leik. Hjá Stólunum var Philip með 26 stig og var með mestu lífsmarki ásamt Samir, en hann lenti í villuvandræðum í síðari hálfleik. Eftir leikinn er Tindastóll í 9. sæti deildarinnar, en Njarðvík er í því 4.

Stigaskor Tindastóls: Philip 25, Joshua 19, Svavar 14, Samir 12, Ísak 8, Serge 5 og Halldór 4.

Njarðvík: Damon 28, Brenton 26, Hörður15, Sverrir 11, Friðrik 10  Daníel 3, Jóhann 2 og Guðmundur 1.

Dómarar leiksins voru þeir Kristinn Óskarsson og Björn Leósson og verri dómgæsla en þetta hefur örugglega sést á Króknum áður og átti Björn atvik leiksins þegar hann reyndi á eiginn skinni hvernig maður tekur ruðning á sig!!!

Tölfræði leiksins

Texti: Jóhann Sigmarsson

Mynd: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -