spot_img
HomeFréttirNjarðvíkingar tryggðu sér oddaleik með sigri í Þorlákshöfn

Njarðvíkingar tryggðu sér oddaleik með sigri í Þorlákshöfn

Njarðvík lagði Þór í Þorlákshöfn í kvöld í fjórða leik átta liða úrslita Subway deildarinnar. Með sigrinum náði Njarðvík að tryggja sér oddaleik um sæti í undanúrslitum, en hann mun fara fram á fimmtudaginn á þeirra heimavelli í Ljónagryfjunni.

Fyrir leik

Eftir að Njarðvík hafði unnið fyrsta leik einvígis liðanna gríðalega örugglega var Þór búinn að vinna síðustu tvo og gat því með sigri í kvöld tryggt sig áfram í undanúrslitin.

Gangur leiks

Heimamenn í Þór byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu strax á fyrstu mínútum leiksins að skapa smá bil á milli sín og Njarðvíkur, munurinn 8 stig þegar fyrsti fjórðungur var rúmlega hálfnaður, 16-8. Njarðvíkingar gera þó vel á síðustu mínútum leikhlutans og er forysta heimamanna fyrir annan leikhluta aðeins eitt stig, 22-21. Leikurinn helst svo nokkuð jafn og spennandi út fyrri hálfleikinn, en með rosalegum flautuþrist úr horninu frá Veigari Páli Alexanderssyni nær Njarðvík að vera körfu á undan þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 39-41.

Stigahæstur fyrir Þór í fyrri hálfleiknum var Tómas Valur Þrastarson með 12 stig á meðan að fyrir Njarðvík var Veigar Páll Alexandersson kominn með 11 stig.

Leikurinn er svo áfram í járnum í upphafi seinni hálfleiksins, þar sem varla má sjá á milli liðanna. Staðan 47-47 þegar 5 mínútur eru eftir af þeim þriðja. Undir lok fjórðungsins er það svo aftur Veigar Páll sem setur flautuþrist og fer Njarðvík stigi á undan inn í lokaleikhlutann, 57-58. Í þeim fjórða kemst Njarðvík svo á ágætisskrið, fá þristana sína til þess að detta og eru sex stigum yfir þegar rúmar tvær mínútur eru eftir, 72-78. Undir lokin reyna Þórsarar hvað þeir geta til þess að komast aftur inn í leikinn. Fá nokkur skot til að detta fyrir sig, en Njarðvík gerir vel að svara alltaf á hinum endanum. Niðurstaðan að lokum nokkuð sterkur sigur Njarðvíkur, 84-91.

Kjarninn

Njarðvík mætti eiginlega jafn illa til leiks í kvöld og þeir gerðu í öðrum leik liðanna hér á dögunum, jafnvel enn verr. Gerðu þó vel að koma sér inn í leikinn, sem endaði á að vera hin besta skemmtun. Voru vissulega að berjast fyrir lífi sínu í þessari keppni og má segja að það hafi sést nokkuð vel þegar líða tók á leikinn. Niðurstaðan að lokum nokkuð sanngjarn sigur Njarðvíkur, sem fá að launum að fara heim og spila oddaleik.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestir fyrir Þór í leiknum voru Tómas Valur Þrastarson með 19 stig, 8 fráköst og Jordan Semple með 18 stig, 18 fráköst og 6 stoðsendingar.

Fyrir Njarðvík var það Mario Matasovic sem dró vagninn með 20 stigum og 12 fráköstum. Honum næstur var Dwayne Lautier með 19 stig og 4 stoðsendingar.

Hvað svo?

Oddaleikur Njarðvíkur og Þórs um sæti í undanúrslitum mun fara fram komandi fimmtudag 25. apríl í Ljónagryfjunni.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -