Njarðvíkingar hófu mótið í ár með sigri á nýliðum Hattar 76:74. Leikurinn var í raun nokkuð jafn allt til loka og þurfti framlengingu til að knýja úrslit í leiknum eftir að Hattarmenn leiddu með fjórum stigum í hálfleik. Njarðvíkingar komu sér í framlenginguna og líkt og sagan segir þá er það oftast það lið sem sigrar leikinn. Hattarmenn geta borið höfuð sitt hátt þrátt fyrir tapið.
Sama hvað Njarðvíkingar reyna að sannfæra sjálfa sig um þá komu Hattarmenn þeim gersamlega í opna skjöldu með mikilli baráttu til leiks í Ljónagryfjunni í kvöld. Gestirnir skoruðu fyrstu 9 stig leiksins og Njarðvíkingar gersamlega heillum horfnir á báðum endum vallarins. Sama hvað leikmenn litu oft á bekkinn þar sem Stefan Bonneau sat með gifs uppað hné þá virtust engin stig ætla sér að koma á töfluna. Eftir 8 mínútna leik voru Njarðvíkingar búnir að skora heil 5 stig en náðu svo með góðri baráttu að loka leikhlutanum með smá sæmd en skaðinn var vissulega skeður og staðan 14:19.
Leikurinn hélst jafn út leikinn allt til loka þegar að Hattarmenn virtust hreinlega að fara að koma öllum nema sjálfum sér í opna skjöldu með sigri. Það var þá komið að Loga Gunnarssyni að gera það sem hann gerir best. Þegar 4 sekúndur voru til loka leiks setti Logi niður gríðarlega erfiðan þrist og jafnar leikinn í 60 stigum. Tobin Carberry átti möguleika á því að klára leikinn fyrir Hött en skotið geigaði og því framlengt.
Strax í upphafi framlengingar settu Njarðvíkingar snögga þrjá þrista og byggðu þar með grunninn að sigrinum. En þrátt fyrir sigurinn þá héldu Hattarmenn góðri pressu á heimamönnum og þegar yfir lauk voru það tvö stig sem skildu liðin tvö Njarðvíkingum í vil.
Ef við kryfjum liðin tvö að einhverju leyti þá eru Hattarmenn með góða stemmningu innan síns hóp og berjast vel fyrir sínu. Það mun koma til með að fleyta þeim langt í vetur eða eins langt og þeir komast. Njarðvíkingar voru ekki að spila vel í kvöld en augljóslega eiga þeir langt í land með að koma bæði sóknar og varnarleik sínum í samt lag. Nýr erlendur leikmaður kom til liðsins og ákveðið var að skipta algerlega um taktík. Það mun taka tíma. Einnig hefur Logi Gunnarsson lítið sem ekkert verið með liðinu sökum meiðsla.



