Njarðvíkingar og ÍR mættust í kvöld í Njarðvíkinni og fyrir leik margir sett sinn pening á nokkuð öruggan sigur Njarðvíkinga. Svo fór að lokum að heimamenn sigruðu 100:86 en lokatölur segja kannski lítið til um gang leiksins. Staðan í hálfleik var 50:48 heimamenn í vil.
Gestirnir hófu leik af krafti og settu fyrstu 9 stig leiksins á vel afslappað lið Njarðvíkinga. Þeir heimamenn virtust einfaldlega ekki vera vaknaðir á fyrstu mínútum leiksins á meðan þeir bláklæddu Breiðhlytingar voru grimmir í sínum aðgerðum. Fljótlega fóru svo Njarðvíkingar að salla niður stigum og minnkuðu forskot ÍR niður.
Um miðbik annars leikhluta var leikurinn orðin hnífjafn og liðin tvö skiptust á því að skora. Varnarleikurinn var líkt og í hefðbundnum stjörnuleik þó svo að tilþrifin hafi ekki fylgt með. Haukur Helgi Pálsson er augljóslega að smella betur og betur inní lið Njarðvíkinga en hann hafði sett niður 19 stig strax í fyrri hálfleik þetta kvöldið. Hann endaði leik með 29 stig og var að spila vel á báðum endum vallarins.
Njarðvíkingar náðu loksins undir lok þriðja leikhluta að koma sér í þægilegt 8 stiga forskot ef svo má segja. Þetta virtist brjóta þá ÍR-inga gersamlega því fjórði leikhluti leiksins var einungis formsatriði að klára. Leikur gestana var frekar villtur en nýr þjálfari þeirra Borce Ilievski hafði aðeins haft eina æfingu með liðinu og því lítið hægt að sakast við hann. En hans piltar börðust vel fyrir sínu en það vantaði uppá 10 mínútur hjá þeim. Hvort um er að kenna uppgjöf eða þreytu skal ósagt. En liðið á töluvert meira inni en þeir hafa verið að sýna. Nú er að sjá hvort Borce nái að koma liðinu í betri farveg í komandi leikjum.
Njarðvíkingar eru að slípa leik sinn betur og betur saman. Hlutverkaskipan leikmanna er hægt og bítandi að ná festu sóknarleikur þeirra var sterkur þetta kvöldið. 100 stig á töfluna sanna það. Hinsvegar var varnarleikurinn eitthvað sem þeir geta ekki boðið hverjum sem er uppá. Að fá á sig 86 stig á heimavelli er væntanlega ekki eitthvað sem þeir vilja leyfa andstæðingum sínum.
Njarðvíkingar deila nú öðru sæti deildarinnar með KR (sem eiga leik til góða) með 10 stig eftir 7 umferðir. ÍR eru í 9-10 sæti með 4 stig.



