spot_img
HomeFréttirNjarðvíkingar rasskelltu deildarmeistarana

Njarðvíkingar rasskelltu deildarmeistarana

Njarðvíkingar tryggðu sig í oddaleik gegn deildarmeisturum KR í kvöld með frábærri frammistöðu og þá sér í lagi í þriðja leikhluta þar sem þeir lögðu grunninn að 97:81 sigri. Njarðvíkingar leiddu með 5 stigum í hálfleik í stöðunni, 41:36. 

Leikurinn hófst á því að Njarðvíkingar voru fremur grimmari og komust í stöðuna 13:8 en KR voru fljótir til að laga sinn hlut og skoruðu næstu 11 stig leiksins og allt í einu staðan orðin 13:19 gestina í vil. Hjörtur Hrafn Einarsson lagaði stöðuna fyrir lok fyrsta leikhluta fyrir Njarðvíkinga með þrist og því þriggja stiga forskot gestana eftir 10 mínútna leik. Í öðrum leikhluta kom besti kafli KR í leiknum og þar voru þeir komnir í startholurnar að senda heimamenn í sumarfríið. Helgi Már Magnússon setti niður þrist og kom KR í 21:29 og stemmningin öll hjá KR um þetta leytið. 

En Njarðvíkingar neituðu að gefast upp og með seiglu voru þeir búnir að koma sér aftur innan seilingar við þá KR-inga.  Munurinn hélst í þessum 1 til 2 stigum allt til loka fyrri hálfleiks þegar Njarðvíkingar áttu sitt áhlaup sem skilaði þeim svo 5 stiga forskoti þegar haldið var til búningsherbergja. 

Flestir hafa þá haldið að þessi myndi ráðast á loka sekúndum leiksins líkt og sá síðasti sem fram fór í Ljónagryfjunni en svo varð ekki.  Njarðvíkingar tóku öll völd á vellinum í þriðja leikhluta. Leikur KR gersamlega hrundi gegn grimmum leik heimamanna og áður en nokkur vissi af voru Njarðvíkingar komnir í stöðuna 47:37 og þá hafði Finnur Stefánsson séð nóg og tók leikhlé.  Ekki gekk það sem skildi því næstu 8 stig leiksins voru græn og því tók Finnur á það ráð aftur að hrista uppí sínum mannskap með leikhléi en með sömu niðurstöðu.  Njarðvíkingar gengu á lagið og voru mest komnir í 27 stiga forystu í leiknum.  Þarna fengu KR að súpa af þeirra eigin meðali eða því sem þeir höfðu gefið Njarðvíkingum í fyrsta leik liðana í þessari rimmu. 

Undirritaður hefur séð KR svo sem koma sér uppúr nokkuð djúpum holum þennan vetur og neitaði að afskrifa þá algerlega þrátt fyrir að þegar aðeins 10 mínútur voru til loka þá var staðan 76:51 heimamenn í vil.  KR hófu að sækja að körfu Njarðvíkinga með krafti og uppskáru í raun þar akkúrat sem þeir þurftu. Tvö stig og klukkan stöðvaðist þvi nokkuð var ljóst að tíminn var ekki þeirra helsti vinur á þessum tímapunkti.  Njarðvíkingar hinvegar stóðust af sér allar þær tilraunir KR að komast aftur inn í leikinn og þegar um 4 mínútur voru eftir þá má segja að Finnur hafi kastað inn hvíta handklæðinu þegar yngri leikmenn liðsins fóru að týnast inn á völlinn eins og svo oft gerist.  Njarðvíkingar fögnuðu verðskulduðum sigri og nú verður haldið í DHL höllina á föstudag í oddaleik. 

Tölfræðin er vissulega ekki með Njarðvíkingum fyrir þann leik þar sem KR hafa ekki tapa leik heima fyrir í DHL höllinni í allan vetur. 

 

Tölfræði leiksins

 

Fréttir
- Auglýsing -