spot_img
HomeBikarkeppniNjarðvíkingar kláruðu spennuleik og mæta Kefalvík í næstu umferð

Njarðvíkingar kláruðu spennuleik og mæta Kefalvík í næstu umferð

Njarðvík komst í kvöld í 8-liða úrslit VÍS-bikarkeppni karla eftir spennandi 88-84 sigur á Haukum. Leikurinn var hnífjafn allan tímann en Njarðvíkingar komust áfram þar sem þeir héldu vel á spilunum á lokaspretti leiksins.

Lisandro Rasio var með 20 stig og 11 fráköst í liði Njarðvíkinga í kvöld og næstur honum var Nico Richotti með 19 stig og 4 stoðsendingar. Hjá Haukum var Darwin Davis Jr. stigahæstur með 24 stig og 4 stoðsendingar. Næstur í Haukaliðinu var svo Daniel Mortensen með 16 stig og 5 fráköst.

Bæði lið mættu með byssurnar á lofti og staðan 27-27 eftir fyrsta leikhluta þar sem Maciej Baginski lokaði leikhlutanum fyrir Njarðvík með þrist. Lisandro með 10 stig hjá heimamönnum og Hilmar Smári 7 fyrir gestina. Líflegur fyrsti leikhluti og svona átti þetta eftir að vera allan leikinn, jafnt á öllum tölum.

Í öðrum leikhluta var það svo Nico Richotti sem átti lokaorðið fyrir Njarðvík þegar hann kom heimamönnum í 52-51 með körfu í teignum eftir gott gegnumbrot. Heimamenn leiddu því í hálfleik en þeir áttu fáséða sókn undir lok fyrri hálfleiks fimm stiga sókn. Mario setti þrist og brotið var á Lisandro um leið og Mario skot og því fékk Lisandro tvö víti sem hann setti bæði niður og fimm stig í hús í einum bala.

Lisandro með 14 í hálfleik og Nico 13 en Darwin 14 hjá Haukum og Orri 12.

Hafnfirðingar leiddu 72-73 eftir þriðja leikhluta þar sem Darwin hélt áfram að gera Njarðvíkingum lífið leitt. Kappinn er með sérstakan skotstíl og virðist geta skorað úr mjög erfiðum færum – eigum vísast eftir að sjá fleiri tilþrif frá þessum kappa áður en langt um líður.

Fjórði leikhluti var svo hnífjafn, undir lokin voru það heimamenn í Njarðvík sem einfaldlega fóru betur með spilin sín á hendi. Sigurinn hefði auðveldlega getað lent báðu megin en það eru Njarðvíkingar sem arka áfram eftir 88-84 sigur. Það mæddi mikið á byrjunarliðunum í kvöld, Njarðvík fékk einungis 5 stig af bekknum og Haukar 3. Að sama skapi fóru gestirnir fremur óvarlega með boltann í jafn jöfnum leik og raun bar vitni, 13 tapaðir boltar í svona slag er dýrkeypt.

Njarðvík mætir því Keflavík í 8-liða úrslitum en sá leikur fer fram í Blue-Höllinni sunnudaginn 11. desember kl. 15.00.

Njarðvíkingar léku án Jose Martin í kvöld þar sem hann var ekki kominn með leikheimild með Njarðvík fyrir þessa umferð bikarsins. Vissulega var þessi umferð leikin seint vegna kærumála úr 32 liða úrslitum Tindastóls og Hauka. Þá var Haukur Helgi Briem Pálsson enn fjarverandi vegna meiðsla og sömuleiðis þeir Oddur Kristjánsson og Jan Baginski.

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -