spot_img
HomeFréttirNjarðvíkingar kafsigldu Djúpmenn

Njarðvíkingar kafsigldu Djúpmenn

 Njarðvíkingar tóku á móti Ísfirðingum í Ljónagryfjunni í kvöld. Heimamenn fyrir leikinn í 4. sæti deildarinnar á meðan KFÍ sat í 10 sæti deildarinnar. Leikurinn varð í raun aldrei spennandi þar sem að Njarðvíkingar tóku völdin frá fyrstu mínútu og gersigruðu andstæðing sinn þetta kvöldið með 113 stigum gegn 64. 
 
Heimamenn skörtuðu nýjum erlendum leikmanni, Tracy Smith, sem er fjall af manni og nærvera hans í teignum var áberandi frá fyrstu mínútu. Kappinn virðist þó ekki vera í sínu albesta formi en Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvikinga, þarf að senda sinn mann á hlaupabrettið milli æfinga til að fá fleiri gæðamínútur frá honum.
 
Njarðvíkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og hafði Smith skorað 4 stig í teignum á fyrstu 3 mínútunum eftir að hafa bakkað með hálft KFÍ liðið undir körfuna án þess að finna mikið fyrir því. Birgir Örn, þjálfari KFÍ tók leikhlé í stöðunni 12-2 eftir að Ólafur Helgi Jónsson hafði troðið í hraðaupphlapi eftir laglegan undirbúning frá Elvari Má. Njarðvíkingar voru hvergi nærri hættir og var algjör unaður að fylgjast með spili þeirra gegn máttlittlum Ísfirðingum í 1. leikhluta. Boltinn fékk að rúlla vel á milli manna og fundu þeir Elvar og Logi galopna samherja sína fyrir utan þriggja stiga línuna hvað eftir annað og skein leikgleðin hreinlega af heimamönnum. Ísfirðingar höfðu littla sem enga stjórn á tempói leiksins og sóknartilburðir þeirra báru lítinn árangur í óskipulaginu. Staðan í lok fyrsta leikluta 28-11 fyrir Njarðvík og ljóst í hvað stefndi.
 
Annar leikhluti bauð uppá svipaða sögu. Njarðvíkingar voru búnir að rúllla 11 leikmönnum inn í leikinn þegar 1 og hálf mínúta var liðin af fjórðungnum og ljóst að það fengju allir að spreyta sig í kvöld. Enginn í liði Ísfirðinga tók af skarið og var það þá helst Mirko sem sýndi lífsmark. Njarðvíkingar reyndu hvað þeir gátu að dæla boltum inn á Smith sem að fór vel með það sem honum var gefið að vinna úr og voru varnarmenn sem settir voru honum til höfuðs ekki öfundsverðir. Joshua Brown er nýr leikmaður í liði KFÍ sem hafði ekki náð að setja mark sitt á leikinn þegar 5 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og í raun virtist ekki vera í neinum takti við leikinn. 3 villur, 4 tapaðir boltar og 2/10 í skotnýtingu voru sennilega ekki þau afköst sem að Birgir Örn var að vonast eftir þegar blek var sett á blað í síðasta mánuði.
 
Njarðvíkingar voru í “cruise control” allan fyrri hálfleikinn og réðu öllu um framvindu leiksins. Hálfleikstölur 61-26, úrslitin gott sem ráðin og 4 leikmenn komnir með 10 stig eða meira fyrir heimamenn. Tracy Smith 16 stig og 8 fráköst, Elvar 11 stig og 4 stoðsendingar, Logi 11 stig og 5 fráköst og Ólafur Helgi 10 stig. Annars voru allir þeir leikmenn sem komu inná hjá heimamönnum að skila sínu fyrir liðið.
 
Hjá Ísfirðingum var enginn að spila vel og erfitt að finna ljósan punkt á þeirra leik. Mirko var með 9 stig, Brown 7 stig og Ágúst Angantýsson 4 stig og 5 fráköst.
 
Ísfirðingar löguðu stöðuna úr 61-26 í 79-49 í 3. leikhluta og Brown að ranka aðeins við sér, gerði 9 stig í leikhlutanum en það skal þó taka fram að Logi Gunnarsson og Elvar Már,sem höfðu séð um að halda aftur af honum, sátu lungann úr leikhlutanum á tréverkinu. Njarðvíkingar léku ekki af sama krafti og þeir gerðu í fyrri hálfleik og gátu leyft sér að hvíla byrjunarliðið en sóknarleiknum skorti flæði. Maciej Baginski átti nokkra góða spretti af bekknum sem glöddu augað og hjá KFÍ kom Valur Sigurðsson sterkur af bekknum með 10 góð stig í leikhlutanum.
 
4. leikhluti var einungis formsatriði fyrir Njarðvíkinga sem að dugði að spila af krafti í 10 mínútur í kvöld til að brjóta Djúpmenn algjörlega niður. Leikurinn varð aldrei spennandi og má segja að um vonbrigði ársins hefði verið um að ræða ef að Ísfirðingar hefðu boðið uppá sætaferðir að Vestan.
 
Aftur á móti virtist vera þrælfín stemmning fyrir hópferð úr Grindavík þar sem drjúgur hluti karlaliðs félagsins sat og fylgdist með Tracy Smith og Njarðvíkurliðinu en liðin mætast í 8 liða úrslitum í bikarnum seinna í mánuðinum.
 
Njarðvíkingar róteruðu Smith reglulega inn og út og fékk hann úr nægu að moða og hugsanlegt að þar gæti farið x-factor Njarðvíkinga þetta tímabilið. Hann virtist ná ágætlega til liðsfélaga sinna og með tilkomu hans munu bakverðir og skyttur þeirra grænklæddu njóta góðs af. Þá verður athyglisvert að sjá hann etja kappi við þungavigtar-miðherja deildarinnar, Sigurð Þorsteinsson og Michael Craion t.d., þegar fram líða stundir. Kappinn virðist illviðráðanlegur á blokkinni en til að vera sanngjarn skal taka það með inn í myndina að Ísfirðingar buðu ekki uppá ýkja mikla samkeppni á neinum vígsstöðvum í kvöld. Andleg fjarvist er sennilega rétta hugtakið en taka skal fram að það er nokkuð ströng mætingaskylda í Dominos deild karla, ellegar er þess háttar hegðun verðlaunuð með sæti í 1. deild að ári.
 
Lokatölur í Njarðvík í kvöld voru 113-64 fyrir heimamenn sem halda 4. sætinu en Ísfirðingar eru sem fyrr við hættusvæðið í neðri hluta deildarinnar.
 
Stigahæstir hjá Njarðvík: Tracy Smith 29 stig, 15 fráköst – Logi Gunnarsson 19 stig, 7 fráköst, 4 stoðs – Elvar Friðriksson 17 stig, 9 stoðs.
 
Stigahæstir hjá KFÍ: Joshua Brown 25 – Valur Sigurðsson 12 – Mirko Virijevic 9.
 
 
Umfjöllun: Sigurður Friðrik Gunnarsson
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -