spot_img
HomeFréttirNjarðvíkingar í bílstjórasætið eftir sigur í Ásgarði

Njarðvíkingar í bílstjórasætið eftir sigur í Ásgarði

Njarðvíkingar mættu í Ásgarð í kvöld og tóku 1-0 forystu í 8-liða úrslitum gegn Stjörnunni. Lítið var skorað en leikurinn var gríðarlega spennandi og hart barist. Með pálmann í höndunum brutu Njarðvíkingar á Coleman í þriggja stiga skoti, vítin þrjú hefðu komið leiknum í framlengingu en Colmean brást bogalistin og fyrrum liðsmaður Stjörnunnar, Jeremy Atkinson, prísaði sig sælan með niðurstöðuna eftir að hafa brotið klaufalega á Coleman þegar 0,9 sekúndur voru til leiksloka. Njarðvíkingar fögnuðu vel í leikslok, lokatölur 62-65.

Al´lonzo Coleman var með 29 stig og 16 fráköst í liði Stjörnunnar og fær lítinn tíma til að jafna sig á vítalínuatvikinu enda stutt í leik tvö hjá liðunum. Njarðvíkurmegin steig Haukur Helgi Pálsson vel upp á lokasprettinum og lauk leik með 20 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar. 

 

Ekki ósvipað og í grísk-rómverskri glímu læstu andstæðingarnir varfærnislega hrömmum sínum saman í fyrsta leikhluta og þreifuðu hver á öðrum, staðan 10-16 fyrir Njarðvík eftir fyrstu 10 mínúturnar. Vörnin í fyrirrúmi en þetta var jöfnun á stigalægsta fyrsta leikhluta Stjörnunnar á heimavelli þetta tímabilið en Stjarnan gerði bara 10 stig í fyrsta leikhluta gegn Keflavík þann 10. mars síðastliðinn en vann samt leikinn 73-71, þessi 10 stig, voru þau fyrirboði fyrir úrslit kvöldsins?

 

Í öðrum leikhluta færðust menn í fang, Coleman var allt í öllu í röðum Stjörnunnar en Njarðvíkurmegin dreifðist sóknarálagið betur. Skemmtileg rispa skaut upp kollinum þegar Baginski splæsti í þrist, Coleman svaraði í sömu mynt en Oddur Rúnar kom strax í kjölsogið með sinn eigin þrist fyrir Njarðvíkinga sem komust í 15-25. 

 

Annar leikhluti var fjörugur, fór 21-21 og því leiddu Njarðvíkingar 31-37 í hálfleik. Maciek Baginski var með 11 stig hjá Njarðvík og Jeremy Atkinson 10 en Coleman var með 18 stig og 6 fráköst í liði Garðbæinga og þar var nokkuð hávær þörf fyrir fjölbreyttara sóknarframlagi geng sterkum varnarleik Njarðvíkinga. 

 

Garðbæingar komu fljúgandi út í síðari hálfleikinn, sóknarframlagið varð fjölbreyttara og betur gekk að opna vörn gestanna. Stjarnan vann þriðja leikhluta 22-12 og leiddi 53-49 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. EIn mögnuðust tilþrif leiksins komu í þriðja leikhluta þegar Oddur Rúnar Kristjánsson komst inn í sendingu og brunaði upp völlinn en honum fylgdi skugginn Tómas Heiðar Tómasson sem varði sniðskot Odds með glæsibrag, Stjarnan hélt svo í sókn þar sem Shouse skoraði þrist og stemmningsflétta Stjörnumegin sem vó þungt. 

 

Fjórði leikhluti var æsispennandi, vörn Njarðvíkinga small saman með látum en þeim gekk fremur illa að skora. Shouse var utan vallar að láta hefta saman á sér aðra augabrúnina og Garðbæingar gátu einfaldlega ekki keypt körfu, gerðu aðeins eitt stig á sjö fyrstu mínútum fjórða leikhluta! Oddur Rúnar og Haukur Helgi komu Njarðvíkingum á bragðið, fimm stig með skömmu millibili komu gestunum í 54-58. Stjarnan elti og hótaði allt til loka leiks og þegar flestir héldu að öruggur Njarðvikursigur yrði í höfn missti Atkinson víti í stöðunni 62-65 og heimamenn brunuðu upp. Atkinson enn að leika sér að eldinum braut á Coleman í þriggja stiga skoti þegar 0,9 sekúndur lifðu leiks og Stjarnan í dauðafæri að koma leiknum í framlengingu. 

 

Garðbæingum til mikillar óhamingju vildu vítin hjá Coleman ekki niður og Njarðvíkingar fögnuðu því sigri og leiða einvígið 62-65. 

 

Þessi fyrsti leikur liðanna var mikill slagur og ljóst að framundan er banvænt einvígi. Ólafur Helgi Jónsson fær klapp á bakið í kvöld, sér í lagi fyrir varnarframmistöðu sína en það er löngu sannað að þarna fer einn af betri varnarmönnum deildarinnar. Haukur Helgi Pálsson steig afgerandi upp á hárréttum tíma. Tómas Þórður Hilmarsson barðist vel hjá Stjörnunni með 10 fráköst í kvöld en Coleman var of lengi aðalstjarna sýningarinnar í Garðabæ og hefði þurft meira liðsinni til þess að fá fram Stjörnusigur í kvöld. 

 

Fjölnispiltarnir Tómas Heiðar Tómasson og Haukur Helgi Pálsson eiga tilþrif kvöldsins. Tómas Heiðar þegar hann varði lystilega skot frá Oddi Rúnari leikmanni Njarðvíkinga og á hinum endanum fékk Coleman synjun hjá Hauki Helga sem er eitt af meiri „Hulk-blokkum“ tímabilsins, þvílík negla! 

 

Varnarleikurinn hjá báðum liðum í kvöld var til fyrirmyndar, fyrir vikið kannski ekki það augnakonfekt sem margir vildu en leikurinn var gríðarlega spennandi og það er konfekt útaf fyrir sig, eða eins og Gump kallinn sagði, maður veit aldrei hvað kemur upp úr kassanum. 

 

Tölfræði leiksins

 

Mynd/ Davíð Eldur

Umfjöllun/ Jón Björn 

Fréttir
- Auglýsing -