spot_img
HomeFréttirNjarðvíkingar flugu inn í oddaleikinn

Njarðvíkingar flugu inn í oddaleikinn

Njarðvík skellti Snæfell í Ljónagryfjunni í kvöld, 105-90, og tryggði sér oddaleik í Stykkishólmi á Skírdag. Heimamenn voru við stýrið frá upphafi til enda þó Hólmarar hafi vissulega átt sínar rispur. Nigel Moore fór fyrir Njarðvíkingum með 30 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar. Hólmarar voru fremur flatir í sínum aðgerðum í kvöld og lykilmenn nokkrir voru snemma komnir í villuvandræði.
 
Tveimur hörkuleikjum lokið millum þessara liða og ljóst að það verður fullfermi í Hólminum á Skírdag þegar það ræðst hvort liðið fari í undanúrslit Domino´s deildarinnar.
 
Heimamenn í Njarðvík byrjuðu betur og komust í 9-2 strax eftir rúmlega tveggja mínútna leik. Jón Ólafur Jónsson fékk á þessum tíma tvær villur og inn í hans stað kom Sveinn Arnar Davíðsson í Snæfellsliðinu. Pálmi Freyr var líka fljótur að næla í sína aðra villu og gestirnir úr Hólminum tóku leikhlé þegar heimamenn höfðu breytt stöðunni í 13-2. Óskabyrjun Njarðvíkinga sem voru að berjast fyrir lífi sínu í leiknum.
 
Ólafur Helgi tók á fimm stiga rás strax eftir leikhlé Hólmara og Njarðvíkingar komust í 18-4. Gestirnir prófuðu að skipta um varnarafbrigði og settu upp 3-2 svæðisvörn en Njarðvíkingum tókst að finna glufurnar og koma að nokkrum þristum og leiddu 29-19 eftir fyrsta hluta þar sem Nigel Moore var kominn með 13 stig í Njarðvíkurliðinu en Hafþór Ingi 6 hjá Snæfell komandi af tréverkinu.
 
Hólmarar héldu sig við 3-2 svæðisvörnina í öðrum leikhluta og Nigel Moore var fljótur að skella þriggja stiga körfu yfir hana og strax í næstu sókn fylgdi Ágúst Orrason honum á eftir með öðrum eins og heimamenn komnir í 35-23 og Moore þá búinn að gera 16 stig fyrir heimamenn á rúmum 11 mínútum.
 
Snemma í öðrum leikhluta náði Snæfell að minnka muninn í 36-30 en þeir komust ekki mikið nærri í fyrri hálfleik. Elvar Már var að gera gestunum lífið leitt og sallaði inn villum á rauða og Moore var heitur fyrir utan þegar færi gafst. Jay Threatt var beittastur Hólmara í fyrri hálfleik og rauðir gestirnir héldu illa á spilunum þegar Jón Ólafur fékk sína þriðju villu því Ingi Þór lét hann spila áfram og innan skamms kom fjórða villan og allur síðari hálfleikur eftir.
 
Heimamenn í Njarðvík héldu inn í hálfleikinn með 9 stiga forskot, 54-45. Mikið skorað þessar fyrstu 20 mínútur leiksins og þar var atkvæðamestur Nigel Moore með 20 stig í liði Njarðvíkinga en Jay Threatt með 15 stig í liði Snæfells. Bæði lið voru ófeimin við að láta flakka á körfuna, Njarðvíkingar með 5 af 18 í þristum í fyrri hálfleik og Snæfellingar með 3 af 16, svo sem engin glimrandi nýting en Njarðvíkingurinn Nigel Moore var með 3 af 6 í fyrri hálfleik.
 
Ekki leið á löngu í síðari hálfleik uns Nigel Moore setti niður Njarðvíkurþrist og kom sínum mönnum í 59-47. Marcus Van féll svo í gólfið skömmu síðar í frákastabaráttunni og kenndi sér eymsla í öxl og hvíldi örstutta stund en var svo mættur til leiks eldsprækur. Gestirnir úr Stykkishólmi báðu um leikhlé í stöðunni 62-49 og komu út úr því með þriggja stiga körfu en þar var Sveinn Arnar Davíðsson að verki og munurinn kominn niður í 10 stig, 62-52.
 
Njarðvíkingar svöruðu af krafti og komust í 69-52 eftir þrist frá sjóðheitum Moore sem var heldur betur að gera upp sakirnar í kvöld við laka frammistöðu í fyrstu viðureign liðanna í Stykkishólmi. Hjörtur Hrafn Einarsson lét svo kné fylgja kviði og kom Njarðvíkingum í 72-55 með þriggja stiga körfu. Þegar mínúta lifði af þriðja leikhluta fékk Jay Threatt sína fjórðu villu í liði Snæfells og var þar með kominn á tæpasta vað líkt og Jón Ólafur Jónsson sem fékk fjórar villur í fyrri hálfleik.
 
Hafþór Ingi Gunnarsson klóraði í bakkann fyrir Snæfellinga með þrist og minnkaði muninn í 75-62 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Hafþór átti lipra spretti í kvöld en nokkuð vantaði upp á sterkari frammistöðu byrjunarliðsmanna gestanna. Njarðvíkingar unnu þriðja hlutann 21-17 og spurning hvort Snæfell myndi takast að gera heiðarlega tilraun til að komast upp að hlið heimamann í fjórða. 
 
Framan af fjórða leikhluta skiptust liðin á körfum en þegar dró til tíðinda var það Óli Ragnar Alexandersson sem gerði sex stig í röð fyrir heimamenn í Njarðvík. Óli Ragnar átti sterka innkomu í Njarðvíkurliðið í kvöld og kom heimamönnum í 85-66 þegar fjórði leikhluti var um það bil hálfnaður. Gestirnir úr Hólminum reyndu hvað þeir gátu að saxa á forskotið en heimamenn voru einfaldlega með þennan leik í vasanum. Lokatölur 105-90 Njarðvíkingum í vil þar sem Nigel Moore fór fyrir heimamönnum með 30 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar en fimm leikmenn Njarðvíkinga voru með 10 stig eða meira í leiknum.
 
Hjá Snæfell var Jay Threatt með 19 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar en líkt og í Njarðvíkurliðinu voru það fimm í liði Hólmara sem rufu 10 stiga múrinn.
 
Samtals skutu liðin 63 þriggja stiga skotum í kvöld og bitnaði það mest á gestunum sem hefðu átt að sækja meira á Njarðvíkurteiginn. Nigel Moore var manna brattastur fyrir utan og sallaði niður 6 af 10 þristum sínum í leiknum.
 
Á Skírdag mætast liðin í oddaleik í Stykkishólmi en þann daginn verður mikið við að vera því í Ásgarði á sama tíma eigast við Stjarnan og Keflavík í oddaleik.
 
Byrjunarliðin:
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson, Nigel Moore, Ólafur Helgi Jónsson, Maciej Baginski og Marcus Van.
Snæfell: Jay Threatt, Pálmi F. Sigurgeirsson, Jón Ólafur Jónsson, Sigurður Þorvaldsson og Ryan Amoroso.
 
Dómarar leiksins: Rögnvaldur Hreiðarsson, Jón Guðmundsson og Davíð Tómas Tómasson.
 
 
Umfjöllun/ [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -