spot_img
HomeFréttirNjarðvíkingar áfram í bikarnum eftir annan stórleik í Ljónagryfjunni

Njarðvíkingar áfram í bikarnum eftir annan stórleik í Ljónagryfjunni

Njarðvíkingar eru komnir í 16 liða úrlsit Poweradebikarkeppninnar eftir 91-87 sigur á KR í Ljónagryfjunni. Um kaflaskiptan spennuslag var að ræða þar sem risavaxinn þristur frá Elvari Má Friðrikssyni reyndist afdrifaríkur á lokasekúndum leiksins. Nigel Moore og Logi Gunnarsson voru báðir með 26 stig í liði Njarðvíkinga og Elvar Már Friðriksson bætti við 22 stigum. Darri Hilmarsson setti 24 stig í liði KR og Helgi Magnússon gerði 21. Það er því ekki eingöngu í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði sem fólk fær spennuslagi því annan leikinn í röð var boðið upp á hádramatík í Ljónagryfjunni.
 
 
Helgi Már Magnússon stóð í ljósum logum fyrstu mínútur leiksins, sallaði niður fjórum þristum í einni beit og gestirnir úr Vesturbænum höfðu frumkvæðið. Nigel Moore tók það að sér að halda Njarðvík í námunda við KR með þremur þristum sem oftar en ekki komu í kjölsogið á þeim sem Helgi sleppti lausum. Varnarleikur Njarðvíkinga var ekki upp á marga fiska fyrstu fimm mínútur leiksins og voru þær mínútur t.d. villulausar hjá heimamönnum. Ágúst Orrason jafnaði metin í 20-20 með Njarðvíkurþrist í sínu fyrsta skoti en það voru KR-ingar sem leiddu að loknum fyrsta leikhluta 23-28 þar sem Helgi Magnússon gerði 16 af 28 stigum KR!
 
Aukin harka færðist inn í annan leikhluta, bæði lið voru mátulega ósátt við dómgæsluna en í þesslags umhverfi þrífst Darri Hilmarsson vel, hvort sem það var gegn svæði eða maður á mann vörn Njarðvíkinga þá fundu KR-ingar Darra alltaf á réttum stöðum og hann skilaði skotunum örugglega niður. Svo þarf ekkert að fjölyrða um varnarframlag þessa manns, fimmti gír á þeim bænum sem fyrr.
Pavel Ermolinski hlóð vel í þrennugrunn í fyrri hálfleik, með 8 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar í hálfleik. Pavel stýrði sóknaraðgerðum KR eins og herforingi og bauð upp á nokkrar glæsilegar stoðsendingar. Darri Hilmarsson hélt áfram að skila sínum körfum í námunda við teiginn og KR vann annan leikhluta 16-24 og leiddu 39-52 í hálfleik. Heimamenn í Njarðvík áttu oftar en ekki í vandræðum með að prjóna sig í gegnum þéttan varnarmúr KR og röndóttir, þeir voru óhræddir við að taka fast á heimamönnum.
 
Helgi Magnússon skoraði ekki stig í öðrum leikhluta eftir æðibunuganginn í þeim fyrsta og var með 16 stig í hálfleik, Darri Hilmarsson var með 15 stig og Pavel Ermolinski var eins og áður segir korter í þrennu með 8 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar. Hjá Njarðvíkingum var Logi Gunnarsson með 10 stig og Nigel Moore 9 og grænir eflaust allt annað en hressir með að hleypa á sig 52 stigum á 20 mínútum í Ljónagryfjunni.
 
Nigel Moore opnaði síðari hálfleik með þriggja stiga körfu en það var Logi Gunnarsson sem snögghitnaði í liði Njarðvíkinga og setti saman 10 stiga pakka fyrir Njarðvíkinga á þremur mínútum og minnkaði muninn í 51-57. Nigel Moore tók síðan við keflinu og kom Njarðvíkingum loks yfir 64-63 með þriggja stiga körfu og röndóttir gestirnir sem höfðu leikið frábærlega í fyrri hálfleik voru vart skugginn af sjálfum sér í þriðja leikhluta.
Njarðvíkingar unnu þriðja leikhluta 31-19 þar sem Logi og Nigel voru funheitir en Njarðvíkurvörnin fann líka stemmninguna og hélt KR í 19 stigum í leikhlutanum en bæði í þeim fyrsta og öðrum hafði KR farið yfir 20 stigin.
 
Darri Hilmarsson opnaði fjórða leikhluta með teigskoti, maðurinn hreinlega brennir ekki af skoti við teiginn. Logi Gunnarsson hélt uppteknum hætti frá þriðja leikhluta, jafnaði í tvígang fyrir Njarðvíkinga með þrist, fyrst 73-73 og svo 76-76. Darri Hilmarsson fékk snemma í fjórða sína fjórðu villu og Friðrik Stefánsson fauk af velli skömmu síðar í Njarðvíkurliðinu með sína fimmtu villu. Þegar hér var komið við sögu skiptust liðin á forystunni, hver karfa vó þyngdar sinnar virði í gulli, hreint konfekt fyrir áhorfendur.
 
KR-ingar komust í 84-87 eftir gegnumbrot hjá Helga Magnússyni þegar mínúta lifði leiks en Elvar Már Friðriksson jafnaði með þrist 87-87 og fékk villu að auki, fjögurra stiga sókn og Njarðvíkingar komnir yfir 88-87. Pavel Ermolinski brást bogalistin á hinum enda vallarins þegar hann misnotaði tvö víti og næsta Njarðvíkursókn var illa útfærð og endaði með löngum þrist sem vildi ekki niður. KR hélt í sókn og þegar skotklukkan var við það að renna út fékk Brynjar Þór Björnsson boltann, skotið rataði ekki einu sinni á hringinn og ljóst að stórskyttan hitti ekki á sinn besta dag í kvöld, 0 af 5 fyrir utan þriggja. Njarðvíkingar náðu frákastinu, brotið á Elvari sem setti fyrra vítið þegar 5 sekúndur voru eftir en brenndi af því síðara. Elvar náði svo frákastinu eftir sitt eigið víti og KR varð að brjóta aftur á honum, þá brást honum ekki bogalistin og kláraði KR á línunni 91-87.
 
Annan leikinn í röð var því um að ræða háspennuslag í Ljónagryfjunni og að þessu sinni er það gestaliðið sem situr eftir með sárt ennið. Forvitnilegt verður að sjá hvernig útlendingamál KR þróast en þeir léku án erlends leikmanns í kvöld. Með sterkan erlendan mann innanborðs eru þeir ansi líklegir í slagnum um Íslandsmeistaratitilinn en það verða Njarðvíkingar eins og áður segir sem arka áfram í Poweradebikarnum.
 
 
Byrjunarliðin:
 
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson, Logi Gunnarsson, Nigel Moore, Hjörtur Hrafn Einarsson og Friðrik Erlendur Stefánsson.
KR: Pavel Ermolinski, Brynjar Þór Björnsson, Darri Hilmarsson, Helgi Magnússon og Ingvaldur Magni Hafsteinsson.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -