spot_img
HomeBikarkeppniNjarðvík VÍS bikarmeistari í 9. flokki stúlkna

Njarðvík VÍS bikarmeistari í 9. flokki stúlkna

Njarðvík lagði Breiðablik í morgun í úrslitaleik VÍS bikarkeppni 9. flokks stúlkna, 70-33.

Fyrir leik

Það sem af er deildarkeppni hefur Njarðvík unnið átta leiki og tapað aðeins einum og eru þær í efsta sæti fyrstu deildar flokksins. Á leið sinni í úrslitaleik dagsins unnu þær liðin í öðru sæti, KR og liðið í þriðja sæti, Stjörnuna.

Breiðablik hefur aftur á móti unnið alla níu leiki sína í vetur, en þær eru í deildinni fyrir neðan, annarri deild, en þær lögðu Vestra og Hauka á leið sinni í bikarúrslitaleikinn.

Gangur leiks

Njarðvík byrjar leikinn af miklum krafti og nær að setja fyrstu níu stig leiksins á töfluna, en Breiðablik skorar ekki sína fyrstu körfu fyrr en fyrsti fjórðungur er hálfnaður, 9-2. Blikum gengur svo aðeins betur að skora undir lok leikhlutans, en Njarðvík er að honum loknum 11 stigum yfir, 21-9. Í öðrum fjórðungnum hægist verulega sóknarlega á báðum liðum. Njarðvík nær að halda Blikum í aðeins 4 stigum í leikhlutanum, en setja aðeins 9 stig sjálfar. Munurinn því 17 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 30-13.

Stigahæst fyrir Njarðvík í fyrri hálfleiknum var Hulda María Agnarsdóttir með 15 stig á meðan að María Sóldís Einarsdóttir var komin með 7 stig fyrir Blika.

Aftur byrja Njarðvík seinni hálfleikinn af miklum krafti þar sem þær halda Blikum stigalausum fyrstu 8 mínútur þriðja leikhlutans, en þá var það langur tvistur frá Reeyana Mishra sem datt niður hjá þeim, 50-15. Leikurinn meira en minna farinn þegar að þriðji fjórðungur er á enda er Njarðvík 37 stigum yfir, 53-16.

Verðandi bikarmeistarar Njarðvíkur slökuðu aðeins á varnarlega í fjórða leikhlutanum, sem er kannski eðlilegt, en sigla þó að lokum mjög svo öruggum 37 stiga sigur í höfn, 70-33, þar sem allir leikmenn liðsins komust á blað í stigaskorun.

Atkvæðamestar

Bestar í liði Njarðvíkur voru Hulda María Agnarsdóttir með 22 stig, 10 fráköst, 2 stoðsendingar, 5 stolna bolta og Sara Björk Logadóttir með 15 stig, 12 fráköst, stoðsendingu, 4 stolna bolta og varið skot.

Fyrir Blika var Eyrún Hulda Gestsdóttir atkvæðamest með 8 stig, 11 fráköst, 4 stoðsendingar og 3 varin skot. Þá bætti María Sóldís Eiríksdóttir við 13 stigum, 4 fráköstum, 2 stoðsendingum, stolnum bolta og 2 vörðum skotum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -