spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaNjarðvík vann sjötta leikinn í röð

Njarðvík vann sjötta leikinn í röð

Liðin frá úrslitarimmu síðasta tímabils, Njarðvík og Haukar, áttust við í Ljónagryfjunni í Njarðvík í kvöld. Heimakonur voru svotil einráðar í síðari hálfleik í kvöld og uppskáru sanngjarnan 84-68 sigur.

Eins og flestum er eflaust kunnugt þessi dægrin eru Haukar að glíma við meiðsli lykilmanna á borð við Evu Margréti Kristjánsdóttur svo einhverjar séu nefndar. Fjölmenn sveit öflugra leikmanna í borgaralegum klæðum á Haukabekknum setti svip sinn á leikinn og því umtalsverðar byrðar lagðar á herðar Keiru Robinson.

Liðin mættu spræk til leiks, þéttar varnir og hraður bolti. Lavinia var spræk hjá Njarðvíkingum í upphafi leiks og heimakonur leiddu 18-17 eftir fyrstu 10 mínúturnar þar sem Lavinia var með 9 stig. Fyrsti leikhluti lofaði góðu.

Í öðrum leikhluta voru Njarðvíkingar ögn sprækari, Collier fór að láta til sín taka í stigaskorinu og heimakonur leiddu 40-29 í hálfleik. Keira Robinson var beittust hjá Haukum í fyrri hálfleik með 13 stig og reyndist Njarðvík erfið sem öðrum liðum til þessa. Njarðvík með sjö liðsvillur í fyrri hálfleik og allar voru þær brot á Robinson. Magnaður sóknarmaður þar á ferð.

Þegar í síðari hálfleik var komið var ljóst að það tók á bensíntankinn hjá Robinson í liði Hauka og Njarðvíkingar juku forystuna. Mikil stemmning í liði meistaranna sem hafa nú unnið sex deildarleiki í röð og í viðureign kvöldsins voru þær að langmestu við stýrið. Hörku gangur á Njarðvíkingum um þessar mundir sem mæta Val í lokaumferð deildarinnar.

Í kvöld voru tveir leikmenn í liði Njarðvíkinga sem stigu sín fyrstu spor í úrvalsdeild kvenna en það voru þær Sara Björk Logadóttir og Hulda María Agnarsdóttir, 15 ára gamlir leikmenn úr yngri flokka starfi Njarðvíkinga. Sara skoraði 1 stig í kvöld af vítalínunni. Til hamingju báðar tvær með fyrsta úrvalsdeildarleikinn.

Núna í lokaumferðinni er fátt sem getur breyst nema þá hvað varðar Val og Hauka og hvort liðið næli sér í heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Keflavík og Njarðvík mætast í fyrstu umferð og svo Valur og Haukar. Eins og sakir standa núna hafa Haukar betur innbyrðis gegn Val en eru tveimur stigum á eftir. Til að Haukar fái heimaleikjarétt í úrslitakeppninni verða Hafnfirðingar að klára Breiðablik í lokaumferðinni og treysta á að Njarðvíkingar vinni Val að Hlíðarenda.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -