spot_img
HomeFréttirNjarðvík vann prufukeyrsluna - Undanúrslit framundan

Njarðvík vann prufukeyrsluna – Undanúrslit framundan

Njarðvík minnkaði í dag forskot Keflavíkur í tvö stig á toppi Iceland Express deildar kvenna með 64-71 sigri á Haukum í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði. Keflavík á þó leik til góða en þær mæta Fjölni í síðasta leik umferðarinnar á morgun. Njarðvíkingar voru mestmegnis við stýrið í leiknum í dag en Haukar áttu nokkrar ágætar tilraunir til að komast upp að hlið gestanna en Njarðvíkingar áttu góð svör við aðgerðum Hauka og höfðu að lokum sigur. Margrét Rósa Hálfdánardóttir fór fremst í flokki Hauka í dag með 28 stig en hjá Njarðvíkingum var Shanae Baker-Brice með 21 stig og 10 fráköst. Það má því segja að Njarðvíkingar hafi unnið ,,prufukeyrsluna" fyrir bikarviðureign liðanna á mánudag.
Varnarleikurinn fékk að sitja á hakanum hjá báðum liðum í upphafi leiks, Haukar keyrðu vel í bakið á Njarðvíkingum og náðu 15-11 forystu uns Ína María Einarsdóttir minnkaði muninn í 15-14 með þriggja stiga körfu fyrir Njarðvíkinga, svellköld af bekknum. Haukar leiddu 25-20 eftir fyrsta leikhluta og Sverrir Þór þjálfari gestanna ekki sáttur með varnarleikinn enda grænar aðeins búnar að fá dæmda á sig eina villu fyrstu tíu mínútur leiksins.
 
Í öðrum leikhluta hrukku Njarðvíkingar í gang, þristarnir fóru að detta, Ína og Ólöf settu niður sinn hvorn og Andrea Björt Ólafsdóttir kom inn með fína baráttu hjá grænum sem hægt og bítandi fóru að síga framúr. Aníta Carter og Petrúnella Skúladóttir héldu svo skotsýningu Njarðvíkinga áfram en þristurinn frá Petrúnellu breytti stöðunni í 34-44 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
 
Margrét Rósa Hálfdánardóttir var komin með 22 stig í liði Hauka í fyrri hálfleik og hélt Hafnfirðingum á floti en aðrir leikmenn liðsins voru töluvert fjarri sínu besta og máttu þakka fyrir að Njarðvíkingar hefðu ekki meiri forystu í leikhléi.
 
Gestirnir úr Njarðvík gerðu fyrstu sex stig síðari hálfleiks áður en Guðrún Ámundadóttir skoraði fyrir Hauka af vítalínunni. Njarðvíkingar voru mun betra liðið framan af þriðja leikhluta en Haukar lifnuðu smátt og smátt við og náðu að minnka muninn í 51-59 og munaði þar miklu um að Jence Rhoads var farin að leika eins og hún á að sér. Það voru þó Njarðvíkingar sem leiddu 51-63 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Í upphafi fjórða leikhluta náðu Haukar að minnka muninn í fimm stig, 58-63 eftir þriggja stiga körfu frá Hope Elam. Haukar lifnuðu við og börðust af krafti en Njarðvíkingar ætluðu ekki að láta ná sér og kláruðu verkefnið 64-71.
 
Heilt á litið var viðureignin fremur bragðdauf og mátti kannski gera ráð fyrir því þar sem liðin mætast aftur á mánudag í Ljónagryfjunni og þá í undanúrslitum Poweradebikarsins. Innan við tíu stuðningsmenn Njarðvíkinga gerðu sér ferð í Schenkerhöllina í dag, sorgleg staðreynd fyrir eitt besta kvennalið landsins.
 
Shanae Baker-Brice gerði 21 stig, tók 10 fráköst og gaf 5 stoðsendingar í liði Njarðvíkur í dag. Lele Hardy bætti við 12 stigum og 13 fráköstum og þá voru þær Ólöf Helga Pálsdóttir og Petrúnella Skúladóttir báðar með 9 stig.
 
Hjá Haukum átti Margrét Rósa Hálfdánardóttir stórgóðan leik með 28 stig og 6 fráköst, Jence Rhoads og Hope Elam skoruðu báðar 12 stig og Guðrún Ámundadóttir gerði 8.
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -