spot_img
HomeFréttirNjarðvík vann í Síkinu (Umfjöllun)

Njarðvík vann í Síkinu (Umfjöllun)

7:00

{mosimage}

Í gærkvöld fór fram leikur Tindastóls og Njarðvíkur sem upphaflega átti að fara fram á sunnudaginn. Byrjunarleið heimastúlkna var; Sigrún, Aníta, Brynhildur, Sigríður og Dagbjört. Hjá gestunum byrjuðu: Sæunn, Sigrún, Anna, Ína og Sigurlaug.

Tindastóll skoraði fyrstu körfu leiksins og var þar á ferðinni Sigríður Inga. Brátt jöfnuðu gestirnir og síðan fylgdi þristur frá Ínu. Jafnt var um miðjan leikhlutan 7 – 7, en þá sigu gestirnir framúr og skoruðu 14 stig á móti 6 stigum Tindastóls og staðan eftir fyrsta fjórðung 13 – 21.

Njarðvíkurstúlkur héltu uppteknum hætti í byrjun annars leikhluta og skoruðu fimm fyrstu stigin og staðan orðin 13 – 26.  Eftir það var rólegt stigaskorið á töflunni. Stólarnir fóru mikið á vítalínuna, en voru ekki að nýta vítaskotin sín, brenndu af 7 vítum í leikhlutanum. Ekki gekk sóknin neitt betur hinum megin hjá gestunum og staðan í hálfleik 22 – 34. Tindastóll var með nokkrar feilsendingar í fyrri hálfleik og réðu á köflum illa við vörn Njarðvíkur og hittu að auki illa úr vítum eins og áður segir.  Njarðvíkingar voru að hitta þokkalega, en eftir að Tindastóll skipti í svæðisvörn hægðist á leiknum og Njarðvík lenti í vandræðum sóknarlegar.

Síðari hálfleikur og þar með þriðji leikhluti var nokkuð jafn allan tímann og endaði fjórðungurinn 14 – 14. Bæði lið áttu ágætis spretti, en gestirnir virtust ekki ætla að láta forskotið renna sér úr greipum og hleyptu heimastúlkum ekki nálægt sér. Staðan 36 – 48.

Njarðvík bætti í í upphafi fjórða leikhluta og kom muninum í 17 stig með þriggja stiga körfu frá Sigurlaugu. Sigrún svaraði með annarri eins fyrir Tindastól, en í kjölfarið fylgdu fjögur stig frá Njarðvíkingum og munurinn orðinn 18 stig og rúmar 5 mínútur eftir. Á þeim tímapunkti var orðið ljóst að Njarðvík mundi fara með sigur af hólmi og byrjunarlið Tindastóls komið að mestu á bekkinn. Tindastóll hélt þó áfram að berjast til loka og löguðu aðeins stöðuna áður en lokaflautan gall, en 14 stiga sigur Njarðvíkur var staðreynd og lokatölur 56 – 70. 

Njarðvík beitti töluvert pressuvörn í síðari hálfleik og náðu að stela nokkrum boltum þannig. Stólarnir náðu þó að leysa það síðari hlutann. Munurinn á liðunum í kvöld var hittnin og að fleiri stúlkur voru að skora stiginn fyrir Njarðvíkinga. Þar voru fjórar með 10 stig eða fleiri, á meðan Sigríður Inga dró vagninn fyrir Tindastól með 19 stig.

Tindastól sendi ekki lið til keppni í 1. deild kvenna í fyrra og sést það á leik liðsins, þær eru enn ryðgaðar, en eiga þó spretti inn á milli og eru að taka framförum í hverjum leik.  Lið gestanna er blanda ef eldri og yngri leikmönnum og sýndu þær ágætis leik í kvöld, varnarlega nokkuð sterkar og hittu vel á köflum.

Stigaskor Tindastóls: Sigríður Inga 19, Dagbjört 9, Sigrún 9, Vanda, Aníta og Kristín með 4 stig hver, Hólmfríður 3 og Ragnheiður 2 og Brynhildur 2.

Stigaskor Njarðvíkur: Sigurlaug 13, Ína 12, Sigrún 10, Heiða 10, Sæunn 9, Dísa 7, Erla 4, Hanna 3 og Anna 2.  

www.tindastoll.is 

Mynd: www.tindastoll.is

Fréttir
- Auglýsing -