Njarðvíkingar tylltu sér einar á topp Bónusdeildar kvenna í kvöld með sigri gegn KR í toppslag umferðarinnar. Fyrir leik voru bæði lið jöfn með 18 stig á toppi deildarinnar en Njarðvík kjöldró KR í kvöld 106-75. Liðið bætti sitt eigið stigamet á tímabilinu með því að skora 106 stig í deildinni og þá var þessi 31 stigs sigur stærsti sigur Njarðvíkur í deildinni á tímabilinu. Fjölbreytt framlag úr öllum áttum hjá Njarðvík á meðan Jiselle og Rebekka báru mestan þungann af sóknaroddi KR-inga.
Í dag skömmu fyrir leik tilkynntu Njarðvíkingar að tvíburasysturnar Anna og Lára Ásgeirsdætur hefðu ákveðið að hætta í körfubolta. Þrátt fyrir ungan aldur, en systurnar verða 23 ára á þessu ári, þá hafa þær orðið bæði Íslands- og bikarmeistarar með Njarðvík. Anna og Lára léku upp alla yngri flokkana með félaginu og með leiki að baki hjá yngri landsliðum Íslands. Njarðvíkingar fá því það vandasama verkefni að þétta raðirnar án þeirra systra það sem eftir er. Nánar er fjallað um þetta í frétt á heimasíðu Njarðvíkinga.
Þetta var ekki eina breytingin sem andstæðingar kvöldsins fóru í gegnum í jólafríinu en KR samdi við Jiselle Thomas sem var á mála hjá Val á síðustu leiktíð.
Njarðvíkingar byrjuðu betur og leiddu 11-4 eftir fyrstu fimm mínútur leiksins. Daníel Andri þjálfari KR tok leikhlé með 3 mínútur eftir af fyrsta leikhluta en þá var forysta Njarðvíkina 19-7 og KR 0-7 í þristum á fyrstu sjö mínútum leiksins og lítið að ganga sóknarlega hjá gestunum. Jiselle opnaði svo loks þristareikning gestanna og minnkaði muninn í 19-12 með einum slíkum þegar liðlega mínúta var eftir af leikhlutanum, hennar fyrstu stig fyrir KR í deildinni þetta tímabilið. Njarðvík leiddi 23-17 eftir leikhlutann þar sem KR virtist ná tiltölulega fljótt að jafna sig á kaldri byrjun sinni á leiknum.
Heimakonur voru áfram feti framar í öðrum leikhluta, leiddu 37-25 þegar fimm mínútur voru til hálfleiks. Alexandra Eva Sverrisdóttir lék sínar fyrstu mínútur í Njarðvíkurliðinu í fyrri hálfleik á þessu tímabili. Alexandra lék með Njarðvík í yngri flokkum en hefur m.a. verið á mála hjá Stjörnunni, KR, Grindavík og Val. Njarðvík fékk fjölbreytt framlag frá sínum hópi í fyrri hálfleik og leiddu 49-34 í leikhléi. Hjá KR var Jiselle stigahæst með 10 stig í hálfleik komandi af bekk þeirra KR-inga en hjá Njarðvík var Dinkins með 11 stig og Helena Rafnsdóttir 10.

Gestirnir úr vesturbænum opnuðu síðari hálfleik 0-5 en Njarðvík tókst þó að halda gestunum þetta í um það bil fimmtán stiga fjarlægð og leiddu 61-46 þegar þriðji var hálfnaður. KR minnkaði muninn í 73-60 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða. Dinkins var farin að hóta þrennu þegar hér var komið við sögu í leiknum með 11 stig, 8 fráköst og 11 stoðsendingar.
Ljónynjurnar voru ekki á því að hleypa KR of nærri og breyttu stöðunni í 85-64 eftir þriggja mínútna leik í fjórða leikhluta. Gestirnir áttu ekki afturkvæmt eftir þetta og Njarðvík sigldi heim öruggum sigri í toppslagnum 106-75. Hin unga og efnilega Helga Jara Bjarnadóttir kom inn í Njarðvíkurliðinu á lokasprettinum og eftir því sem við komumst næst þá skoraði hún sín fyrstu stig í úrvalsdeild á ferlinum (ef það reynist ekki vera rétt þá leiðréttum við það um hæl). Aníta Helgadóttir kom einnig inn í sinn fyrsta úrvalsdeildarleik með Njarðvík og skoraði líka sín fyrstu stig.
Danielle Rodriguez var stigahæst hjá Njarðvík í kvöld með 25 stig og 9 fráköst, Dinkins bætti við 21 stigi, 8 fráköstum og 12 stoðsendingum. Helena Rafnsdóttir átti glimrandi dag með 17 stig og Sara Björk gerði 9. Rebekka Rut var stigahæst hjá KR með 20 stig og Jiselle bætti við 19.
Njarðvíkingar tróna því á toppi deildarinnar með 20 stig og mæta nælst Grindavík á útivelli í öðrum hörku slag. KR aftur á móti fær Tindastól í heimsókn á Mestaravelli í höfuðborginni.



